Volkswagen Passat. Eftir að tímareim var endurnýjuð, segir bréfritari, fór ég að finna fyrir hökti í vélinni á lágum snúningi og snúningsmælir verður óstöðugur og kippist til um 100 snún./mín. Lét það lengi gott heita. En núna er þolinmæði þrotin.
Volkswagen Passat. Eftir að tímareim var endurnýjuð, segir bréfritari, fór ég að finna fyrir hökti í vélinni á lágum snúningi og snúningsmælir verður óstöðugur og kippist til um 100 snún./mín. Lét það lengi gott heita. En núna er þolinmæði þrotin. — Morgunblaðið/Ómar
VW Passat: Aflleysi Spurt: Fyrir fjórtán árum keypti ég nýjan sjálfskiptan VW Passat með 1,9 lítra túrbóvél sem með „kubbi“ skilar 130 hö. Bílnum hefur verið ekið 280 þús. km.

VW Passat: Aflleysi

Spurt: Fyrir fjórtán árum keypti ég nýjan sjálfskiptan VW Passat með 1,9 lítra túrbóvél sem með „kubbi“ skilar 130 hö. Bílnum hefur verið ekið 280 þús. km. Ekkert hefur komið upp á annað en hefðbundið viðhald, svo sem vökvar og síur sem sinnt hefur verið eins og handbók bílsins segir til um. Eftir að tímareim var endurnýjuð í 210 þús. km (2. sinn) fór ég að finna fyrir hökti í vélinni á lágum snúningi (1600 snún./mín). Snúningsmælir verður óstöðugur og kippist til um 100 snún./mín. Lét það lengi gott heita og handskipti niður þá sjaldan gerðist. Lét athuga sjálfskiptinguna hjá Jeppasmiðjunni. Ekkert fannst að henni. Nú hefur þetta verið að ágerast, einkum þegar vélin erfiðar og sýnu verst þegar farið er upp í móti með kerru í eftirdragi. Bilunarljós lýsir ekki og „sérfræðingar“ hafa giskað á ýmislegt. Hvað telur þú að sé að hrjá vélina?

Svar: Jafnvel þótt bilunarljósið lýsi ekki ráðlegg ég þér að láta lesa minni tölvunnar, t.d. hjá Bílvogi í Kópavogi (en þeir eru sérhæfðir í VW/Skoda/MMC). Þótt bilunarljósið lýsi ekki getur kóði verið skráður. Tel að það sé einungis tilviljun að þetta hafi komið upp eftir tímareimarskiptin. Sé enginn kóði skráður myndi ég gruna pústþjöppuna um græsku; hún gæti verið ónýt (farin að taka út í og festast) eða stýringin milli inngjafar og þjöppu biluð, framhjáhlaupsloki bilaður o.s.frv. Ástæða er til að benda á að Vélaverkstæðið Kistufell selur pústþjöppur frá A-Research og TRW (frumbúnaður) á hagstæðu verði.

Toyota Celica: Hikstar

Spurt: Er með Celicu. Vélin hefur verið að missa afl og versnar með hverjum mánuðinum. Búið að endurnýja kerti tvisvar og láta mæla sogkerfið á vélinni en án árangurs. Mest ber á gangtruflun í lausagangi og þegar taka á af stað kokar vélin og snúningur næst ekki upp nema gjöfin sé pumpuð. Í akstri hikar vélin sé gefið hressilega inn en tekur svo við sér.

Svar: Byrjaðu á því að setja isopropanól (rakavara) í bensíngeyminn. Þá ertu búinn að útiloka að rakamettað bensín geti valdið þessu. Næst myndi ég skoða nýju kertin. Séu þau dökk og sótug liggur beinast við að athuga kertaþræði og háspennukefli (fer eftir árgerð hvernig sá búnaður er). Bensínsíu þarf að endurnýja einu sinni á ári – hún gæti valdið þessari gangtruflun. Hún er á hvalbaknum undir bremsukútnum. Annað sem ekki er hægt að útiloka eru fastir ventlar. Þá má stundum losa með því að endurnýja smurolíuna með syntetískri smurolíu 5w –30. Hana færðu ódýrasta frá Valvoline hjá Poulsen.

Líflegri Renault Megané?

Spurt: Keypti ódýran Renault Megané Opera. Vélin í honum er 1,6 lítra, 8 ventla Mk 1(90hp/67kW). Er ekki hægt að hleypa meira lífi í svona vél með tölvukubbi? Ég sá í einhverju tímariti tölvukubb sem nefnist „Megasquirt“ sem á að auka afl og snerpu. Veistu til þess að hægt sé að fá svona græjur hérlendis?

Svar: Ég hef hvergi séð svona trimmdót fyrir Renault nema í Frakklandi og Bretlandi og þá einungis fyrir Megané og Clio II (16 ventla vélina). Það eru verkstæði hérlendis sem tjúna bílvélar, t.d. Subaru, Honda og fleiri. Prófaðu að spyrja þá sem eru á þannig bílum.

Ábending

Brennisteinsvetni

Sterk lykt upp af leirhverum og frá virkjunum getur verið hættuleg við innöndun. Færri vita að brennisteinsvetni getur valdið alvarlegum skemmdum á fjarskiptatækjum, mælitækjum, myndavélum og tölvubúnaði bíla, með því að oxa snertla sem húðaðir eru með silfri og/eða platínu (sömu áhrif og hitaveituvatn hefur á silfurborðbúnað). Því skyldi halda bílum og tækjum fjarri hveragufu eða verja sérstaklega.

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)