Chevrolet Captiva missti snögglega mátt; vél snýst ekki hraðar en 3.000 snún. og fer þá að missa úr og reykja.
Chevrolet Captiva missti snögglega mátt; vél snýst ekki hraðar en 3.000 snún. og fer þá að missa úr og reykja.
Citroën: Þekktur kvilli Spurt: Ég á Citroën C3-bíl, árgerð 2004. Að venju fór ég á bílnum í vinnuna. Þegar þangað var komið virkaði fjarstýringin á lyklinum ekki og ég læsti því bílstjóramegin með lyklinum en heyri að samlæsingin virkar ekki.

Citroën: Þekktur kvilli

Spurt: Ég á Citroën C3-bíl, árgerð 2004. Að venju fór ég á bílnum í vinnuna. Þegar þangað var komið virkaði fjarstýringin á lyklinum ekki og ég læsti því bílstjóramegin með lyklinum en heyri að samlæsingin virkar ekki.

Þegar ég ætla heim á bílnum eftir vinnu er hann „steindauður.“ Engin ljós kvikna í mælaborðið, engin ökuljós, ekki hægt að starta og valstöngin föst í P; – allt sem tengist rafmagns- eða rafeindahluta bílsins er óvirkt! Geymirinn er í lagi (mældur), 20 og 30 ampera öryggin, sem eru í öryggjaboxinu frammí eru í lagi. Prófaði að taka geyminn úr sambandi í nokkrar mínútur en breytti engu. Mér skilst að þetta lýsi sér eins virkjuð þjófnaðarvörn. Kannt þú einhverja lausn á þessu máli, – hvað get ég hugsanlega gert? Er hægt að beita einhverri aðferð til að „svæfa“ þjófnaðarvörnina (sé hún orsökin)?

Lausn (bíleigandinn fann þetta út sjálfur!): Þessu olli bilað jarðsamband frá rafgeyminum. Það sást ekki fyrr en geymirinn hafði verið tekinn úr. Með því að tengja startkapal milli mínus-pólsins á geyminum og vélarinnar rauk vélin í gang og aka mátti bílnum á verkstæði. Þetta mun v era þekktur kvilli í Citroën.

Kia Cerato: Tvö viðvörunarljós lýsa

Spurt : Ég er með Kia-fólksbíl af árg. '07. Allt í einu lýsa tvö viðvörunarljós í mælaborðinu, TCS off ogABS. Hvað er að gerast og get ég lagfært bilunina sjálfur?

Svar: TCS stendur fyrir spólvörn og ABS fyrir læsingarvörn á bremsum. Þessi kerfi byggjast bæði á boðum frá nemum um snúningshraða einstakra hjóla. Tannhring (teljara) er þrykkt upp á öxultappa að framan en er inní nafarhúsi að aftan. Þegar ryð sest á öxultappa eykst ummál hans og tannhringurinn spennist út og springur. Þá raskast boðkerfið og bilunarljósin lýsa. Ég hef sandblásið tannhringinn og rafsoðið saman með for- og eftirhitun, þrifið öxultappann, glóðaði tannhringinn og þrykkt honum upp á í pressu. Sú viðgerð hefur dugað vel og kerfin virkað.

Chevrolet Captiva: Máttlaus

Spurt: Minn ágæti Chevrolet Captiva turbo-diesel, árgerð '06, ekinn 80 þús. km (án teljandi bilana), missti snögglega máttinn; vélin snýst ekki hraðar en 3000 snúninga og fer þá að missa úr og reykja. Bilunarljósið lýsir stöðugt. Hægt er að skreiðast áfram á bílnum en hann nær varla 50 km hraða á jafnsléttu. Ég er úti á landi og ekkert umboðsverkstæði á mínu svæði. Hvað getur verið að? Get ég komist hjá dýrum flutningi?

Svar: Mér kæmi á óvart væri þetta alvarleg bilun. Af lýsingu þinni að dæma tel ég líklegustu orökina vera fasta framhjáhlaupsgátt í pústþjöppunni. Þetta er spjaldloki sem stjórnar forþjöppuninni. Armur, sem sogmótor stýrir eftir álagi á vél, festist þannig að forþjöppunin verður ekki einungis óvirk heldur teppist útblásturskerfið. Sé bíllinn settur á lyftu er auðvelt að komast að arminum/gáttinni neðan frá. Arminn getur þurft að rauðhita til að hann liðkist. Síðan er hann smurður með Prolong-ryðolíu. Þegar gáttin virkar á ný á vélin að verða eðlileg og bilunarljósið að slokkna eftir ákveðinn akstur. (Séu þessi einkenni án þess að bilunarljósið lýsi getur orsökin verið stíflaður hvarfakútur. Hann fæst á hagkvæmasta verði hjá BJB-þjónustunni í Hafnarfirði).

Ábending

Brennisteinsvetni

Fúl lykt upp af leirhverum og frá virkjunum getur verið hættuleg við innöndun. Þetta brennisteinsvetni getur valdið alvarlegum skemmdum á fjarskiptatækjum, mælitækjum, myndavélum og tölvubúnaði bíla, með því að oxa snertla sem húðaðir eru með silfri og/eða platínu (sömu áhrif og hitaveituvatn hefur á silfurborðbúnað). Því skyldi halda tækjum og bílum fjarri hveragufu eða verja sérstaklega.

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)