Hyundai Terracan eru algengir bílar í umferðinni hér. „Nýverið fór ég að taka eftir hækkandi túrbínuhvin sem stóð í nokkra daga en síðan hvarf hljóðið en því fylgdi að túrbínan hætti að gefa þrýsting,“ segir bréfritari.
Hyundai Terracan eru algengir bílar í umferðinni hér. „Nýverið fór ég að taka eftir hækkandi túrbínuhvin sem stóð í nokkra daga en síðan hvarf hljóðið en því fylgdi að túrbínan hætti að gefa þrýsting,“ segir bréfritari. — Morgunblaðið/Þorkell
Hyundai Terracan 2.9 CRDi: Kraftleysi Spurt: Hyundai Terracan árg.'03, ekinn um 220.000 km og hefur verið án vandræða utan þess að skipt var um spíssa fyrir um ári.

Hyundai Terracan 2.9 CRDi: Kraftleysi

Spurt: Hyundai Terracan árg.'03, ekinn um 220.000 km og hefur verið án vandræða utan þess að skipt var um spíssa fyrir um ári. Nú nýverið fór ég að taka eftir hækkandi túrbínuhvin sem stóð í nokkra daga en síðan gerðist það að það hljóð hætti en því fylgdi að túrbínan hætti að gefa þrýsting þannig að við inngjöf og álag er útblásturinn svartur reykur. Búið er að yfirfara túrbínuna og allt sem henni viðkemur án þess að bilun finnist.

Svar: Af lýsingu að dæma er eitthvað sem kemur í veg fyrir að pústþjappan (túrbínan) skili afl-aukningu. Það getur verið óvirk stýring tölvunnar á framhjáhlaupsgáttinni eða þrýstingsfall (leki) sem kemur í veg fyrir forþjöppun. (Við nánari skoðun reyndust 3 boltar í soggreininni horfnir (höfðu tærst upp) og soggreinin því laus á heddinu og leki með pakkningunni).

Toyota Hilux 2.5 CRD: Hik og skrítið eldsneyti

Spurt: Ég er með Hilux Diesel árg. '05. Hann er ekinn um 210 þúsund og er 35“ breyttur. Í vor kviknaði og slokknaði bilunarljósið nokkrum sinnum og lýsti svo öðru hverju, t.d. léti ég vélina toga aðeins t.d. eftir að hafa tekið beygju í of háum gír en þá dró niður í vélinni sem snérist ekki hraðar en 1800 sn. Vélartölvan var kóðalesin á Toyota-verkstæði. Mér var sagt að þetta hefði eitthvað að gera með eldsneytiskerfið. Eldsneytissían var endurnýjuð og sögð hafa verið mjög óhrein sem er skrítið því hún var nánast ný. „Viðgerðin“ entist ekki nema örfáa km en þá byrjaði ballið á ný. Eyðsla er óbreytt en útblástur sótmettaður. Jafnframt hef ég tekið eftir flögum í eldsneytinu. Þótt geymirinn væri tekinn undan, tæmdur og hreinsaður hefur það ekki breyst. Stefni ég í spíssa- og háþrýstidæluskipti upp á eina milljón?

Svar: Þótt það komi ekki fram í bréfi þínu giska ég á að þú sért að nota lífrænt eldsneyti (Bio-Diesel). Flögurnar sem þú nefnir valda útfellingu í eldsneytissíu og síuhúsi og þær stífla jafnframt stútana á síuhúsinu (þetta þarf að þrífa rækilega um leið og lífræna eldsneytinu er dælt af geyminum). Spíssarnir virðast ekki úða Bio-Diesel eðlilega sem veldur því að vélin brennir eldsneytinu illa (sótmyndun). Margir eigendur diesel-bíla, sem notað hafa Bio-Diesel, hafa lent í sams konar vandræðum og þú. Því hefur verið haldið fram af seljendum eldsneytisins að flögurnar myndist einungis á meðan lífræna eldsneytið sé blandað hefðbundinni diesel-olíu. Það hefur reynst rangt. Svo virðist sem Bio-Diesel sé gallað eldsneyti sem sett hefur verið á markaðinn án fullnægjandi prófana. Ég mun t.d. ekki nota það á minn diesel-bíl eins og það er nú.

Opel Astra: Kokar við inngjöf

Spurt: Er með Opel Astra '98 – 1600 vél – hann er góður í gang kaldur og heitur en drepur stundum á sér í akstri. Til að gangsetja að nýju þarf að standa bensíngjöf í botni en þá fer hann oftast í gang strax en kokar við inngjöf. Fari hann ekki strax í gang þarf að bíða um stund. Þetta gerist helst þegar snögglega er dregið úr ferð, tekin kröpp beygja og/eða gjöfinni sleppt.

Svar: Útilokaðu raka í bensíni með því að blanda isopropanoli í tankinn, 100 ml færðu í apóteki, helltu því í hálfan geyminn. Bensínsían gæti verið stífluð hafi hún ekki verið endurnýjuð nýlega. Annars berast böndin að loftflæðiskynjaranum í inntaki soggreinarinnar.

Ábending

Álhedd fest með einnota boltum

Álhedd þenjast meira en stálhedd. Því eru þau oftast fest með heddboltum sem geta teygst án þess að missa herslu. Sé skipt um heddpakkningu þarf nýja heddbolta. Sem dæmi um verð kostar heddboltasett í Renault 48 þús. kr. í umboðinu en 4800 kr. hjá Kistufelli í Brautarholti í Reykjavík. Heddpakkning í Renault kostar 28 þús. kr. í umboðinu en 9435 kr. hjá Kistufelli.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)