Toyota Land Cruiser er óskabíll Íslendinga. Þó eru góð ráð dýr þegar og ef kveikjulásin klikkar og viðgerðin getur verið bæði fyrirhafnarsöm og dýr.
Toyota Land Cruiser er óskabíll Íslendinga. Þó eru góð ráð dýr þegar og ef kveikjulásin klikkar og viðgerðin getur verið bæði fyrirhafnarsöm og dýr. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
Leiðrétting: Í síðasta pistli var fjallað um varahluti í Renault (Kangoo) vegna endurnýjunar heddpakkningar. Við samanburð á varahlutaverði urðu þau mistök að borið var saman verð á svokölluðu slípisetti í umboði (28 þús. kr.

Leiðrétting: Í síðasta pistli var fjallað um varahluti í Renault (Kangoo) vegna endurnýjunar heddpakkningar. Við samanburð á varahlutaverði urðu þau mistök að borið var saman verð á svokölluðu slípisetti í umboði (28 þús. kr.) og verð á stakri heddpakkningu hjá Kistufelli í Brautarholti í Reykjavík (9.435 kr.). Umboðið selur ekki staka heddpakkningu í þessa vél. Slípisett inniheldur allar pakkningar sem þarf til verksins, m.a. heddpakkningu , og því eðlilegt að settið kosti meira en stök heddpakkning. Viðkomandi umboð er beðið afsökunar á þessum mistökum sem leiðréttast hér með.

Toyota: Þegar lykillinn bregst

Spurt: Ég er með Toyota LandCruiser. Í morgun gerðist það, þegar lykillinn var kominn í kveikjulásinn, heyrðist smellur og snúa mátti lyklinum án þess að nokkuð gerðist – eins og eitthvað hefði brotnað í lásnum. Hvað er það sem hefur gerst, get ég sloppið við flutning bílsins á palli á verkstæði? Hvernig er best að snúa sér í málinu?

Svar : Þetta er þekkt bilun, einkum í LandCruiser 100. Pinni, sem gengur niður í svissbotninn þegar lyklinum er stungið í lásinn, brotnar. Skipta þarf um kveikjulásinn, meðal annars höggva sundur bolta sem eiga að torvelda þjófnað. Þetta er verkefni fyrir sérhæft Toyota-þjónustuverkstæði (ég efast um að lyklasmiðir ráði við þetta dæmi – en þú getur prófað hvort Neyðarþjónustan getur komið bílnum í gang þannig að aka megi á verkstæði). Algengast er að bíll sé fluttur á vagni og getur því kostnaður af þessari bilun verið talsverður.

Enn um hvarfakúta

Öðru hverju er kvartað undan takmarkaðri endingu hvarfakúta sem geta verið mjög dýrir. Þegar um er að ræða bíl með dieselvél (en hvarfakútar eiga að vera í þeim frá og með árgerð 2005/2006) er ástæðan oft sú að notuð hefur verið steinolía, jafnvel blönduð smurolíu, sem eldsneyti í stað dieselolíu. Steinolían, sem er þotueldsneyti (Jet Fuel Class A) og nefnist „fotogen“ í Skandinavíu þar sem hún er notuð til að hita upp sumarhús og gufuböð, inniheldur margfalt magn brennisteins á við dieselolíu. Brennisteinninn eyðileggur þann búnað hvarfans sem viðheldur efnahvörfum og girðir fyrir mengun. Steinolíu skyldi því ekki nota á yngri dieselbíla en 2004.

Þá hefur verið kvartað undan skammri endingu hvarfakúta í ákveðnum tegundum bensínbíla og geipiverði á þeim í viðkomandi umboði. Hvarfakútar eru misjafnir að gæðum eins og gengur. Áður en nýr hvarfi er keyptur háu verði í umboði borgar sig að spyrjast fyrir um verð hjá sérhæfðum pústverkstæðum. Þess eru dæmi að fengist hafi vandaðri hvarfar hjá þeim fyrir þriðjung af uppgefnu verði umboðs.

Nýju Diesel-kerfin: Forvörn

Helsti kosturinn við nýrri diesel-kerfi (CRDi = Common Rail Direct injecion), sem eru án olíuverks og með rafknúnum spíssum á svokallaðri forðagrein, er m.a. sá að snúningshraði vélarinnar hefur engin áhrif á ýrun spíssanna. Viðbragð við inngjöf verður betra, eldsneytið nýtist betur, svo nokkuð sé nefnt. Þetta kerfi byggist á háþrýstidælu og gríðarlegum þrýstingi og honum fylgir varmamyndun. Þess vegna er búnaðurinn kældur með stöðugu gegnumstreymi eldsneytis. Sé lítið eftir í geyminum hitnar eldsneytið – jafnvel að því marki að búnaðurinn hitni umfram það sem æskilegt er. Því er það ákveðin forvörn að hafa eldsneytisgeyminn að jafnaði hálfan eða gott betur. (Tæmist geymirinn getur viðkomandi lent í vondum málum.)

Ábending

Víða dýr dropi

Í lyfjabúð kostar 100 ml. glas af isoprópanóli (sem nota má sem rakaeyði fyrir bensín) um 800 kr. án vsk. Lítrinn kostar því rúmlega 10 þús. kr. með vsk. (25,5%). Það getur því borgað sig að kanna verð á ísvara/rakaeyði á næstu bensínstöð eða í bílabúð!

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)