Afturdemparar Mözdu 5 geta bilað, eins og bréfritari segir hér frá. Kæmi ekki á óvart, segir í svari Leós þó svarið frá umboðinu væri að demparar séu undanþegnir ábyrgð á sama hátt og bremsuklossar, púströr og fleira.
Afturdemparar Mözdu 5 geta bilað, eins og bréfritari segir hér frá. Kæmi ekki á óvart, segir í svari Leós þó svarið frá umboðinu væri að demparar séu undanþegnir ábyrgð á sama hátt og bremsuklossar, púströr og fleira.
Mazda 5: Lélegir demparar Spurt: Mig langar að vita hvort þú þekkir til lélegra upprunalegra afturdempara Mözdu 5. Í mínum Mazda 5 hafa afturdempararnir verið til vandræða nánast frá upphafi; – byrjar með leka, jafnvel eftir 35 þús.

Mazda 5: Lélegir demparar

Spurt: Mig langar að vita hvort þú þekkir til lélegra upprunalegra afturdempara Mözdu 5. Í mínum Mazda 5 hafa afturdempararnir verið til vandræða nánast frá upphafi; – byrjar með leka, jafnvel eftir 35 þús. km og eyðileggjast skömmu seinna. Aðrir eigendur sem ég hef haft samband við hafa sömu sögu að segja. Í mínum bíl entist fyrsta settið 50 þús. km. Verðið á dempurunum í umboðinu og vinnan nemur upphæðum sem þola vart dagsljós þrátt fyrir að lesa megi í fjölmiðlum að skattgreiðendur hafi tekið á sig um 4.000 milljónir af skuldum Brimborgar.

Svar: Mér kæmi ekki á óvart þótt það hefði farið framhjá „sérfræðingum“ umboðsins að þetta telst bótaskyldur galli hjá Mazda í Bandaríkjunum, Kanada og víðar (gúgglaðu eftirfarandi tengil: Mazda5 SuspensionIssues [Archive] – RedFlagDeals.com Forums). Mér kæmi ekki á óvart þótt svarið frá umboðinu væri stöðluð klausa á borð við að „demparar séu undanþegnir ábyrgð“ á sama hátt og bremsuklossar, púströr og fleira. Hins vegar hafa klárir bílvirkjar með reynslu breytt þessum búnaði (í Mazda 5, Subaru Forester og fleirum) með því að setja hefðbundna dempara ásamt stinnari gormum að aftan í stað þessara með ónýtu sjálfvirku hleðslustillingunni. Prófaðu að tala við Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur um málið.

Nissan X-Trail: Miðstöðvarviðnám

Spurt: Ég á nokkurra ára gamlan Nissan X-Trail-jeppling. Fyrir skömmu hætti miðstöðin að blása. Á verkstæði var mér sagt að líklega væri viðnám sem stýrði hraða blásarans ónýtt, en þetta er lítið stykki á stærð við kexköku. Í umboðinu kostaði þessi varahlutur 38 þúsund kr. (sem ég á ekki til). Er einhver önnur ódýrari leið til að laga miðstöðina?

Svar:

Já – það vill svo til. Þetta viðnám er með einfaldari stykkjum í rafeindabúnaði sem rafeindavirkjar (útvarpsvirkjar) eru alla daga að fást við. Sennileg er bilunin ekki merkilegri en að bræðivar (öryggi) á prentrásarplötunni hefur brunnið. Farðu með stykkið í Nesradíó í Síðumúla og talaðu við Guðmund (þú getur skoðað allt það flottasta í bíltækjum á meðan hann kippir þessu í lag – fyrir lítilræði).

„Heitari“ og „kaldari“ kerti

Spurt: Hverju breytti það fyrir minn Subaru Legacy, sem ekið er daglega styttri vegalengd til og frá vinnu (oft í lest), að skipta yfir í kerti með aðra hitatölu en þá sem gefin er upp fyrir vélina?

Svar: Mismunandi hönnun skauts/nagla ræður því hve auðveldlega kerti brennir af sér sóti. Sú hitatala, sem bílaframleiðandi velur, er málamiðlun sem hentar flestum aðstæðum. Því eru kerti iðulega of köld fyrir okkar aðstæður t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem mörgum bílum er ekið stuttar vegalengdir kvölds og morgna, jafnvel lestargang; vélin nær sjaldan fullum vinnsluhita né snúningi yfir 3.000 sn/mín. Með því að velja heitari kerti við þessar aðstæður, t.d. einu númeri heitari en upp er gefið í vörulista – geta þau hreinsað sig betur, neistinn verður sterkari og eyðslan minnkar. Flestir kertaframleiðendur nota hækkandi númer fyrir hitatöluna nema NGK – þar er heitara kerti með lægri tölu en kalt kerti.

Ábending

Hagkvæmari kaup á sjálfskiptivökva

Sum bílaumboð skilyrða verksmiðjuábyrgð við tegund sjálfskiptivökva og brjóta þannig gegn gildandi lögum um réttmæta viðskiptahætti (BER-reglugerðin). Einungis má krefjast þess að vökvinn uppfylli ákveðinn alþjóðlegan gæðastaðal. Valvoline (Poulsen) framleiðir sérhæfðan glussa fyrir alla bíla og vinnuvélar. Notkun hans hefur engin áhrif á ábyrgðarskilmála en þú getur sparað þér 40-50 þús. kr. Stimpill frá sérhæfðri sjálfskiptingarþjónustu í þjónustubók er fullgildur, svo sem frá Skiptingu ehf., Bifreiðastillingu ehf., Jeppasmiðjunni ehf. og fleirum.

Leó M. Jónsson
véltæknifræðingur
leoemm@simnet.is
(Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)