Chevrolet Cruze er myndarlegur bíll. Hönnunin er ekki mjög djörf en verður best lýst þannig að hann ætti að falla vel í kramið á öllum þeim fjölmörgu mörkuðum þar sem hann er í boði.
Chevrolet Cruze er myndarlegur bíll. Hönnunin er ekki mjög djörf en verður best lýst þannig að hann ætti að falla vel í kramið á öllum þeim fjölmörgu mörkuðum þar sem hann er í boði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á 100 ára afmæli Chevrolet í ár hefur fyrirtækið kynnt fleiri nýja bíla en nokkru sinni áður. Einn þeirra er fimm dyra hlaðbaksútfærsla Chevrolet Cruze. Áður var sá bíll eingöngu til í 4 dyra „sedan“ útfærslu.

Á 100 ára afmæli Chevrolet í ár hefur fyrirtækið kynnt fleiri nýja bíla en nokkru sinni áður. Einn þeirra er fimm dyra hlaðbaksútfærsla Chevrolet Cruze. Áður var sá bíll eingöngu til í 4 dyra „sedan“ útfærslu. Chevrolet Cruze kom fyrst á markað 2009 en engu að síður hefur Chevrolet selt um eina milljón eintaka. Hönnun fimm dyra bílsins var í höndum Ástralíuarms GM, móðurfyrirtækis Chevrolet en í Ástralíu bera Chevrolet bílar nafnið Holden og þar heitir bíllinn Holden Cruze.

Cruze er sannkallaður heimsbíll og er framleiddur víða um heiminn, það er í Suður Kóreu, Rússlandi, Kína, Indlandi, Vietnam, Kazakstan, Taílandi, Brasilíu, Bandaríkjunum og að sjálfsögðu í Ástralíu. Cruze á stóran heiður af því að Chevrolet er nú fjórði stærsti bílaframleiðandi í heiminum og á innan við sjö sekúndna fresti kaupir einhver í heiminum Chevrolet-bíl. Stærðarhagkvæmni fylgir oftast vönduð smíði og lágt verð og það virðist eiga við Chevrolet Cruze.

Rúmur og mikill staðalbúnaður

Chevrolet Cruze er ansi myndarlegur bíll. Hönnun hans er ekki mjög djörf en verður kannski best lýst þannig að hann ætti að falla vel í kramið á öllum þeim fjölmörgu mörkuðum þar sem hann er í boði. Skiptar skoðanir eru um hvor útfærsla hans er fallegri, en þó virðast fleirum hugnast nýja hlaðbaksútfærslan en greinarhöfundur hallast að fernra dyra bílnum. Hann er mjög rúmur og stór miðað við flesta bíla á samskonar verði.

Það má spyrja sig af hverju Chevrolet kýs að framleiða fimm dyra útfærslu bílsins í viðbót við hinn vinsæla fernra dyra bíl. Svarið er líklega margþætt, meira farangursrými, meira höfuðrými í aftursæti, fleiri notkunarmöguleikar og fallegri ytri hönnun að mörgum finnst.

Bíllinn er styttri sem nemur níu sentimetrum en samt er skottrými stóraukið og er 413 lítra.

Fyrir utan það hversu rúmur bíllinn er þá er einn stærsti kosturinn við Cruze hve mikill staðalbúnaður er í bílnum. Í öllum útfærslum Cruze sem Bílabúð Benna selur er bíllinn með bakkskynjara, hita í sætum, tölvustýrða miðstöð með loftkælingu, aksturstölvu, regnskynjara, leðurklætt stýri og gírstöng, hraðastilli, skriðvörn, Bluetooth tengingu, 17 tommu álfelgur og fleira góðgæti sem of langt mál er upp að telja. Hluti skýringarinnar á því hversu vel búnir bílarnir eru sem hér eru til sölu er sú að einungis er í boði flottasta LTZ útfærsla hans sem þó telst seint dýr.

Ódýrari og betri beinskiptur

Um nokkra kosti er að velja þegar kemur að vélbúnaði í Cruze. Hann er framleiddur með 1,6 l. og 1,8 l bensínvélum og 163 hestafla 2,0 l. díselvél. Reynsluakstursbíllinn var með 1,8 lítra bensínvél, sem sendir 141 hestöfl til framhjólanna. Bíllinn var beinskiptur en sjálfskiptur kostar hann 300 þúsund kr. meira og er það tæplega ráðleg viðbót að mati greinarhöfundar.

Með stærri bensínvélinni er Cruze sprækur bíll en að ósekju mætti hann hafa fleiri gíra þar sem langt er á milli þeirra og hann vill erfiða og hafa hátt í efsta gír ef ekið er greitt. Hann er 9,8 sekúndur í hundraðið svo þar er enginn letingi á ferð, en ekki heldur spyrnukerra. Þar á díselútgáfan vinninginn, en með sín 163 hestöfl og öskrandi 360 Nm tog er hann orðinn að sportbíl og sérlega skemmtilegur leikfélagi.

Reynsluakstursbíllinn var mjög hljóðlátur og góður akstursbíll sem ökumanni líður vel í. Honum var bæði ekið í þéttbýli og í dreifbýli og var á heimavelli á báðum stöðum. Fjöðrunin er góð en jafnvel aðeins of mjúk, en örlítið stífari fjöðrun gæti tekið af þann halla yfirbyggingar sem verður í beygjum. Hún tekur þó mjög vel af allar ójöfnur á vegi.

Sigursæll í mótorsporti

Chevrolet Cruze er afar sigursæll bíll í mótorsporti og hefur unnið WTCC mótaröðina síðustu ár í samkeppni við ekki verri bíla en BMW, Volvo og Seat. Það gefur honum ákveðinn gæðastimpil og ekki skemmir að hann hefur fengið fimm stjörnur í öryggisprófunum Euro NCAP.

Cruze með þessari bensínvél verður seint hrósað fyrir litla eyðslu en á því verði sem hann býðst með öllum sínum staðalbúnaði er hann mjög vænlegur kostur og fæst með því einkar rúmgóður og vel smíðaður bíll. Ef eyðslutölur skipta meira máli sem og skemmtanagildi og sportlegir eiginleikar er díselútgáfa hans betri kostur, en hann er líka dýrari.

finnurorri@gmail.com

Frábærar viðtökur, segir sölustjóri Bílabúðar Benna

Dugar vel í þæfingnum

„Chevrolet Cruze fékk strax frábærar viðtökur þegar bíllinn kom á markað árið 2010. Var það ár raunar í einu af tíu efstu sætunum í vali um bíl ársins, sem er auðvitað frábær árangur. Það hefur átt stóran þátt í velgengni bílsins; enda hefur hann selst vel bæði í Evrópu og Bandaríkjunum,“ segir Jón Stefánsson, sölustjóri Chevrolet hjá Bílabúð Benna.

Þeir sem best þekkja til bíla nefna Chevrolet Cruze stundum sem hliðstæðu við t.d. Toyota Avensis. Cruze er vel búinn, rúmgóður og sparneytinn fjölskyldubíll með margvíslegum aukabúnaði, en fæst þó á sérlega hagstæðu verði. Þannig kostar beinskipta útgáfan af Cruze um 3,3 millj. kr. en sjálfskiptur kostar rétt tæplega 3,6 millj. kr.

„Bíllinn er framhjóladrifinn með spólvörn og stöðugleikabúnaði og margir bílstjórar sem ég hef rætt við hafa einmitt haft á orði hversu vel hann hafi dugað í þæfingnum hér á götunum síðustu dagana,“ segir Jón. sbs@mbl.is