Renault Scenic er lögulegur bíll en hæst ber þó líklega að hann er hlaðinn aukabúnaði, sérlega lipur og þægindin slík að bíllinn er að flestu leyti sem hugur manns.
Renault Scenic er lögulegur bíll en hæst ber þó líklega að hann er hlaðinn aukabúnaði, sérlega lipur og þægindin slík að bíllinn er að flestu leyti sem hugur manns. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er alltaf sérstakt að aka frönskum bílum. Frakkar fara ávallt aðrar leiðir en aðrir, hafa sérstöðu. Það þarf ekki nema opna dyrnar á Renault Scenic en þá blasir við öðruvísi bíll en flestir þekkja frá framleiðendum annarra landa.

Það er alltaf sérstakt að aka frönskum bílum. Frakkar fara ávallt aðrar leiðir en aðrir, hafa sérstöðu. Það þarf ekki nema opna dyrnar á Renault Scenic en þá blasir við öðruvísi bíll en flestir þekkja frá framleiðendum annarra landa. Það vekur óneitanlega athygli að fyrir aftan stýrið er ekkert mælaborð. Eini skjárinn sem talist getur mælaborð er fyrir miðju bílsins. Þar er stafrænn, mjór, langur en fallegur skjár sem sýnir hraða, snúningshraða vélar, magn eldsneytis, útihita og olíuhita. Þarna birtast líka upplýsingar um útvarp ef átt er við stillingar á því, en það sjálft er miklu neðar. Á skjánum birtast líka upplýsingar frá aksturstölvunni, svo sem um eyðslu.

Aðrir mælar eru ekki til staðar svo mælaborðið verður fyrir vikið mjög fábrotið og látlaust. Annað sem er mjög sjaldséð er að enginn miðjustokkur í bílnum og það svæði sem þar í staðinn myndast, nýtist ekki. Bílinn má reyndar einnig fá með miðjustokki með miklu geymslurými og stendur til hjá umboðinu að panta hann sem slíkan.

Lykillinn er flatur ferhyrningur sýnu stærri en greiðslukort og er honum stungið í rauf neðan sjálfskiptistangarinnar. Markar hann enn eina sérstöðuna í smíði Frakkanna.

Notadrjúgur og ótrúlega stór

Óvenju hátt er setið í bílnum og afar þægilegt að setjast inn. Hvorki er dottið niður í sætið né klifrað upp í það. Við blasir ein sú stærsta framrúða sem í fólksbíl sést og útsýnið að sama skapi frábært. Sætin eru með fallegu og óvenjulegu mynstruðu áklæði en mættu halda betur um ökumann. Á hliðum þeirra er stillihnappur fyrir hita í framsætunum. Er það enn eitt atriðið sem teljast má óvenjulegt, venst ágætlega en ekki sést til hnappsins og stilla þarf því hitann blindandi.

Innanrými Renault Scenic er með ólíkindum stórt, miklu stærra en ytra útlit bendir til. Mjög vel fer um 3 aftursætisfarþega og fótarými frábært. Aftursætin eru á aðskildum brautum sem eykur mjög notagildi bílsins og með einu handtaki má fjarlægja aftursætin og gera skottrýmið ógnarstórt.

Í raun er allt mjög hagnýtt í þessum bíl og hann uppfyllir mjög frasann um þessa gerð bíla, „ people and cargo mover “. Hann fellur þar í flokk með t.d. Toyota Verso, Citroen C4 Picasso og Ford C-Max. Scenic má einnig fá sem 7 sæta bíl og er sú útfærsla hans lengri.

Lítil vél en dugar

Sami undirvagn er í Renault Scenic og í Megane og því kemur ekki á óvart að hann hafi ágæta aksturshæfni. Lipurð er fyrsta orðið sem kemur í hugann við akstur bílsins. Vélin í reynsluakstursbílnum er 1,5 lítra díselvél sem orkar 110 hestöfl og sendir þau til framhjólanna.

Þótt lítil sé dugar þessi vél bílnum ágætlega en ef bíllinn er vel hlaðinn finnst fyrir aflsleysi. Það verður að segja að akstursgeta og undirvagn bílsins standi vélinni talsvert á sporði og því þyldi bíllinn að ósekju mun aflmeiri vél. Renault framleiðir Scenic með aflmeiri vélum en fyrir vikið verða þeir talsvert dýrari. Eins og áður er því leitin að jafnvæginu milli afls og verðs nokkuð ráðandi þáttur í vali bæði seljenda og kaupenda. Greinarhöfundur er ekki frá því að Scenic með einmitt þessari vél sé hinn skynsami kostur.

Eins og með marga aðra nýja bíla er Scenic hlaðinn allskonar viðvörunarbúnaði sem pípir á farþega í tíma og ótíma. Fjarlægðarskynjari er að framan og aftan og ekki má nokkur hlutur vera nærri bílnum en hálfur annar metri án þess að freklegt hljóð fylli bílinn. Ekki má setja íþróttatösku í aftursætið án þess að krafist sé að hún sé í bílbelti! Svona mætti lengi áfram telja og aldrei ætlar hinum ýmsu pípum að linna. Það væru eðlileg viðbrögð nýrra eigenda að aftengja allan þennan búnað svo njóta megi annarra kosta bílsins í friði. Við erum öll skynsöm, flest með þokkalega sjón og viljum fæst láta meðhöndla okkur sem börn.

Það sést berlega að Renault Scenic er vel smíðaður bíll og hann er með mikinn staðalbúnað. Þar má nefna stöðugleikastýringu, spólvörn, neyðarhemlunarkerfi, aksturstölvu, aðdregna hliðarspegla og aðgerðastýri. Þrátt fyrir góðan búnað er Renault Scenic seldur á 4,2 millj. kr sjálfskiptur og fer undir 4,0 millj. kr. ef valinn er beinskiptur bíll.

finnur.orri@gmail.com

Varla til betri kostur, segir sölustjóri Renault

Fremstur í sínum flokki

„Þetta er þriðja kynslóð af Renault Scenic en frá því fyrsta kynslóðin kom á markað þá hefur Scenic verið leiðandi í flokki fjölnotabíla í Evrópu og í raun má segja að fyrsta kynslóðin hafi mótað þennan flokk,“ segir Bjarni Þ. Sigurðsson sölustjóri Renault hjá Ingvari Helgasyni/B&L.

Nýr Scenic er nú fáanlegur sjálfskiptur með díselvél og 6 gíra skiptingu og sá bíll eyðir mjög litlu. „Nýi bíllinn er enn rúmbetri en eldri gerðin og býr enn sem fyrr yfir þeim kostum sem hafa einkennt Scenic. Þar má nefna að setið er mjög hátt í honum og útsýni út um stórar rúður hans er eins og það gerist best. Öll sætin eru stök og færanleg og þá er hægt með tveim handtökum að taka úr honum aftursætin. Fjölmörg auka-geymsluhólf eru í bílnum þannig að notadrýgri bíl er vart hægt að hugsa sér. Svona mætti áfram telja og þegar notagildið, eyðsla, áreiðanleiki og verð er haft að leiðarljósi er satt að segja varla hægt að að hugsa sér betri kost en nýjan Renault Scenic.“

finnur.orri@gmail.com