Audi A6 er langbakur og eru margir á því að þannig sé hann fallegri. Framhjól eru nú enn framar á bílnum sem hjálpar mjög við þyngdardreifingu sem gerir bílinn betri í erfiðum beyjum.
Audi A6 er langbakur og eru margir á því að þannig sé hann fallegri. Framhjól eru nú enn framar á bílnum sem hjálpar mjög við þyngdardreifingu sem gerir bílinn betri í erfiðum beyjum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það þykja ávallt fréttir þegar Audi kynnir nýja kynslóð af A6-bíl sínum. Ekki er langt síðan hann kom til sölu hér á landi og er hann af fjórðu kynslóð. Sú fyrsta var kynnt til sögunnar árið 1994 og leysti þá af Audi 100-bílinn.

Það þykja ávallt fréttir þegar Audi kynnir nýja kynslóð af A6-bíl sínum. Ekki er langt síðan hann kom til sölu hér á landi og er hann af fjórðu kynslóð. Sú fyrsta var kynnt til sögunnar árið 1994 og leysti þá af Audi 100-bílinn. Útlitsbreytingar á bílnum eru ekki ýkja róttækar en þó er hann með öllu hvassari línum en fyrri lína og á það ekki síst við um framenda hans. Grillið er orðið ógnarstórt eins og á flestum gerðum Audi. Það verður tæplega sagt um útlit bílsins að það sé djarflegt og greinilegt er að Audi hefur ekki þorað að breyta mikið hinum vinsæla forvera sínum.

Audi A6 má fá sem langbak og eru margir á því að þannig sé hann fallegri og á það einnig við greinarritara. Framhjólin eru nú enn framar á bílnum sem hjálpar mjög við þyngdardreifinguna og stærri hluti vigtarinnar er nú á milli öxlanna sem gerir bílnum kleift að eiga betur við erfiðar beygjur.

Yfirbyggingin er að mestu úr áli en í undirvagninn er að mestu notað hástyrktarstál. Fyrir vikið er þessi stóri bíll ekki nema ríflega 1.600 kíló og allar þessar breytingar miða bara að einu, þ.e. að gera hann að enn betri akstursbíl og það hefur sannarlega tekist.

Mögnuð lítil dísilvél

Bíllinn sem prófaður var er með tveggja lítra dísilvél og búast má við því að þannig búinn munu flest eintök hans seljast, bæði hér á landi sem annars staðar. Þessi vél er hreint út sagt ótrúleg, því þrátt fyrir lítið sprengirými er hún merkilega öflug, 177 hestöfl og togar 380 Nm. Hún mengar ekki nema 132 g/km og meðaleyðslan er litlir 5,0 l. í blönduðum akstri. Þetta eru fáheyrðar tölur fyrir svo stóran bíl en sýnir kannski best þá mögnuðu þróun sem hefur verið á dísilvélum undanfarið.

Með þessari vél þeytist bíllinn í hundraðið á 8,2 sekúndum. Þeir sem kjósa enn meira afl geta valið um 3,0 l dísilvél sem er heil 300 hestöfl og þá er hann ekki nema 6,1 sek. í hundraðið. Audi A6 má líka fá með tveimur gerðum bensínvéla, 2,0 og 3,0 lítra, 180 og 300 hestafla.

Sjálfskiptingin er átta gíra og alveg eins og hugur manns, ekkert finnst fyrir skiptingum og aflið er ávallt til staðar. Alveg er sama á hvaða snúningi vélin er, þegar stigið er á eldsneytisgjöfina bregst vélin alltaf fullkomlega og strax við, aldrei er neitt hik til staðar. Hrósið þar fær skiptingin góða. A6 með þessari fjögurra strokka dísilvél má eingöngu fá með framhjóladrifi, en ef stærri dísilvélin er valin er hann með fjórhjóladrifi. Sá bíll er líka nokkrum milljónum dýrari.

Innrétting í sérflokki

Audi-bílar eru þekktir fyrir mjög fallegar innréttingar og þar er þessi bíll engin undantekning. Þær sjást varla stílhreinni og íburðarmeiri en í þessum bíl og allt er greinilega mjög vel saman sett af þýskum starfsmönnum verksmiðjunnar í Neckarsulm. Á völdum stöðum er hún lögð alvöru eikarviði. Fallegt burstað stál og annað smekklegt efnisval myndar fagra heild. Leðurklædd sætin með vandaðasta leðri setja punktinn yfir i-ið. Farþegum líður eins og séu þeir eðalbornir.

Ekki minnkar sú tilfinning við akstur bílsins. Eiginleikar hans í akstri eru einstakir. Fjöðrunin gefur ökumanni þá tilfinningu að hann svífi um á töfrateppi og ekki er hávaðanum fyrir að fara á meðan. Líklega líður flestum ökumönnum hans eins og þeir séu snillingar í akstri, svo auðvelt og þægilegt er að aka bílnum.

Audi-bílar hafa ávallt verið ljúfir í akstri en reynsluökumaður minnist ekki betri eiginleika í Audi, þó að oft hafi verið fleiri hestöfl undir húddinu. Þó að freistandi geti verið að velja A6 með sínum sterkustu vélum eru þeir sem prófað hafa flestar eða allar gerðir hans á því að með tveggja lítra dísilvélinni sé hann ekki bara skynsamlegasti kosturinn heldur svo góður kostur að ekki taki því að leggja fram nokkrar milljónir til viðbótar til að auka aflið. Helstu keppinautar Audi A6 eru BMW 520 og Mercedes E-Class.

Audi A6 er vel hannaður og þíður á vegi

Bensínvélar munu sigra

„Um þessar mundir eru spennandi hlutir að gerast hjá Audi. Innan tíðar kemur Q3 sem er nýr sportjeppi og svo A-3 og A-4 útgáfurnar í nýjum búningi. Þetta er afrakstur þróunarstarfs hjá Audi síðustu árin þar sem útgangspunkturinn er að framleiða eyðslugranna og mengunarlitla bíla,“ segir Ragnar Sigþórsson, nýr sölustjóri Audi hjá Heklu.

Fyrstu bílarnir af gerðinni Audi A 6 komu til landsins fyrir mánuði. Fékk umboðið reynsluakstursbíl og aðrir bílar eru sérpantaðir fyrir kaupendur. „Þetta fer rólega af stað. Það er eins og fólk sé ekki nægilega duglegt við að taka af skarið og festa sér nýjan bíl,“ segir Ragnar og bætir við að ánægjulegt sé að keyra Audinn góða. Hann sé þíður á vegi og farþegum líði vel í bílnum. Þá sé bensínvél bílsins vel hönnuð en að mati þeirra sem best þekkja til bílaframleiðslu muni slíkar vélar sigra díselvélarnar í kapphlaupinu mikla um að útblástur bíla sé sem minnstur og bílarnir því í lægstu þrepum tollflokka. sbs@mbl.is