Subaru XV mun vafalaust höfða til margra íslenskra kaupenda, enda er bíllinn fallegur að utan, notadrjúgur, góður akstursbíll með mikla torfærugetu og fæst á góðu verði.
Subaru XV mun vafalaust höfða til margra íslenskra kaupenda, enda er bíllinn fallegur að utan, notadrjúgur, góður akstursbíll með mikla torfærugetu og fæst á góðu verði. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það fer vel á því að BL, bílafyrirtæki með nýju nafni, kynni glænýjan bíl frá einum af mörgum athygliverðum framleiðendum þess, Subaru. Í sl. viku kom til landsins fyrsta eintakið af algjörlega nýjum bíl, Subaru XV.

Það fer vel á því að BL, bílafyrirtæki með nýju nafni, kynni glænýjan bíl frá einum af mörgum athygliverðum framleiðendum þess, Subaru. Í sl. viku kom til landsins fyrsta eintakið af algjörlega nýjum bíl, Subaru XV. Þessi bíll er byggður á Impreza-bíl fyrirtækisins og undirvagninn er sá sami. Samt er hann gjörólíkur í útliti og miklu hærri, semsagt Impreza á háum hælum! Hann er þó ekki nema 50 kg þyngri en Impreza og vegur aðeins 1.400 kg sjálfskiptur og 30 kg minna beinskiptur.

Subaru XV svipar mjög til margra jepplinga í stærð og þegar honum var lagt við hliðina á Range Rover Evoque eftir reynsluaksturinn sást að hann er svo til alveg jafn langur. Subaru XV er sérlega háfættur og hefur 22 cm undir lægsta punkt, hæð sem margur jeppinn mætti vera stoltur af og það ætti að nýtast honum vel hér á landi. XV er fjórhjóladrifinn eins og allar aðrar gerðir Subaru-bíla, á verði sem er undir verði flestra annarra jepplinga og því nokkuð vænlegur kostur fyrir létta buddu Íslendinga þessa dagana.

Frískleg ytri hönnun

Ytri hönnun bílsins er frískleg og ég er ekki frá því að hann sé nokkuð töffaralegur á sínum svörtu felgum með breiða svarta hjólskálaboga, snarlækkandi gluggalínu aftur eftir bílnum, skyggðar afturrúður og afgerandi hvasslínur á afturenda. Djörf og skemmtileg hönnun. Ekki er um sömu djörfung að ræða að innan, þar er allt frekar venjulegt og lágstemmt. Stjórntækjum er ágætlega fyrir komið og virkni þeirra og staðsetning ágæt.

Innrétting er íburðarlítil. Mikil plastnotkun er ríkjandi, í mælaborði, hurðum og reyndar um allan bílinn. Að þessu leyti stingur þessi bíll ekki mikið í stúf við aðra Subaru-bíla, en þeir hafa undanfarin ár verið nokkuð íburðarlitlir að innan. Þar liggja heldur alls ekki kostir Subaru-bíla, heldur miklu frekar í góðum aksturseiginleikum, drifgetu, endingu og góðri smíði.

Rými í aftursæti er einstaklega gott, bæði fyrir fætur og höfuð. Sætin eru óvenju mjúk og jafnvel um of þar sem ökumaður og farþegi sökkva töluvert í þau. Skottrými er lítið og minna en í mörgum jepplingnum, ekki síst þar sem gólfið er óvenju hátt.

Boxer-vél sem liggur neðarlega

Vélarnar sem í boði eru í XV eru 2,0 l bensínvél af boxer-gerð og 2,0 l díselvél af boxer-gerð. Bensínvélin er 150 hestöfl og díselvélin 147. Reynsluakstursbíllinn var með bensínvélinni og sjálfskiptur, en hann verður einnig hægt að fá beinskiptan en díselbílinn eingöngu sjálfskiptan. Þessi bensínvél dugar bílnum en ekkert meira en það. Betra væri að búa að meira afli þegar taka þarf fram úr eða leika sér með þennan annars afbragðsgóða akstursbíl.

Að aka Subaru XV er einstaklega lipurt og ljúft. Hann er nákvæmur í stýri og fjöðrunin er hreint afbragð. Bíllinn var reyndur á malarvegi, talsvert holóttum og stóð sig frábærlega þar. Fjöðrunin er þó einna ljúfust í borgarumferðinni og hann fer einstaklega vel með farþega. Einn af stærri kostum allra Subaru-bíla er boxer-vélin. Hún liggur neðarlega í bílunum vegna þverstæðra strokka hennar og færist því þyngdarpunkturinn niður og eykur á góða aksturseiginleika þeirra.

Sjálfskiptingin sem er skynvædd og af CVT-gerð er sér kapítuli því hún veit hreinlega ekki í hvaða gír hún á að vera við inngjöf. Þar virðist hún festast í einhverjum gír af handahófi og þenur sig í honum en þó vill hún ekki snúa vélinni hraðar er 5.000 snúninga. Hún hvorki skiptir sér rétt upp né niður og á stundum er eins og hún sé að gera grín að ökumanni. Þá er gott að geta gripið til flipaskiptingarinnar í stýrinu og ráðið skiptingunum sjálfur eða hreinlega bara kaupa beinskipta útgáfu bílsins í staðinn.

Almennt er reynsla greinarskrifara sú sama hvað varðar skynvæddar CVT-skiptingar allra bílaframleiðenda og óskin sú að þeir láti af framleiðslu þeirra. Uppgefin eyðsla er 6,9 l í blönduðum akstri en 8,8 l innanbæjar. Í reynsluakstri, sem mest fór fram innanbæjar, var hún 10,4 l sem teljast verður viðunandi. Þar sem stundum kom til átaka er líklega ekki raunhæft að horfa í þá tölu og því alveg treystandi að hann eyði ekki meira innanbæjar en uppgefið er, jafnvel enn minna ef varlega er farið.

Notadrjúgur og góður

Subaru XV mun vafalaust höfða til margra íslenskra kaupenda, hann er fallegur að utan, notadrjúgur, góður akstursbíll með mikla torfærugetu og á góðu verði. Mæla verður þó með því að taka hann beinskiptan og helst í flotta appelsínugula litnum sem í boði er. Þannig nýtur hann sín fullkomlega. Subaru XV verður frumsýndur hjá BL þann 18. febrúar nk.

finnurorri@gmail.com

Subaru XV hentar vel á Íslandi

Fáum forskot á sæluna

„Þetta er bíll sem hentar íslenskum aðstæðum afar vel; dugar vel í snjó eins og verið hefur að undanförnu og eins á erfiðum malarvegum úti á landi enda eru heilir 22 cm undir lægsta punkt,“ segir Rúnar Bridde, sölustjóri hjá BL. Fyrstu eintökin af Subaru XV komu hingað til lands fyrr í mánuðinum og verður bíllinn frumsýndur hjá BL um aðra helgi. Í flestum löndum Evrópu verður bíllinn hins vegar ekki kynntur fyrr en í næsta mánuði.

„Íslendingar fá forskot á sæluna og að tala um sælu er orðalag sem ekki er um of. Þetta er afar skemmtilegur bíll og afar vel búinn að flestu leyti. Er að mér finnst mjög þægilegur í akstri og að sama skapi mjög sparneytinn af fjórhjólabíl að vera. Eyðslan er ekki nema 6,6 lítrar á hundraðið og í þessum flokki færðu varla sparneytnari bíla,“ segir Rúnar og bætir við að nú þegar hafi nokkrir lagt inn pantanir fyrir Subaru XV og margir hafi kynnt sér bílinn, þótt enn sé nokkuð í frumsýningardag. Menn hjá BL séu því bjartsýnir á gott gengi þessara nýju bíla frá Subaru, sem henti svo vel á Íslandi.

sbs@mbl.is