Líklega er enginn bíll frægari en Volkswagen-bjallan sem er satt að segja sportbíl líkust. Flott skal það vera!
Líklega er enginn bíll frægari en Volkswagen-bjallan sem er satt að segja sportbíl líkust. Flott skal það vera! — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þriðja kynslóð Bjöllunnar, Volkswagen Beetle, er komin á markað. Nýja Bjallan er talsvert breytt frá þeirri er kom á markað árið 1998. Er lengri, breiðari og lægri, auk þess sem farangursrýmið stækkar úr 209 lítrum í 310.

Þriðja kynslóð Bjöllunnar, Volkswagen Beetle, er komin á markað. Nýja Bjallan er talsvert breytt frá þeirri er kom á markað árið 1998. Er lengri, breiðari og lægri, auk þess sem farangursrýmið stækkar úr 209 lítrum í 310. Bíllinn hefur því enn færst frá kubbslega laginu upphaflega og er fyrir vikið sportlegri, stærri og umfram allt rennilegri. Forverinn var sannarlega sætur bíll – en sá nýi samt enn meira fyrir augað og útlitið gefur til kynna hvaða eiginleikum hann er búinn. Sú gerð Bjöllunnar sem framleidd var frá 1998 til 2010 höfðaði mjög til kvenna enda voru þær stór hluti kaupendahópsins. Með nýju útliti má ætla að Volkswagen vilji fjölga viðskiptavinum í hópi karla, án þess þó að konur missi áhuga á bílnum.

Líklega er enginn bíll frægari en Volkswagen-bjallan og enginn bíll hefur verið framleiddur í fleiri eintökum. Frá árinu 1938 til 2003 var framleidd 21 milljón eintaka af gömlu bjöllunni í samsetningarverksmiðjum um allan heim. Í mörg ár eftir að framleiðslu hennar var hætt í Þýskalandi var hún ennþá framleidd víða um heim eftir teikningum frá Wolfsburg. Árið 1998 kom síðan á markað áðurnefnd endurhönnuð Bjalla frá höfuðstöðvum Volkswagen og kallaðist þá New Beetle og var framleidd sem fyrr segir allt þar til í hittifyrra. Nú er komin á markað endurhönnun þess bíls, af árgerð 2012. Blaðamaður fékk tækifæri til að reynsluaka þeim bíl fyrir skömmu í heimalandi bjöllunnar, í Þýskalandi.

Hrikalega skemmtilegt

Reynsluakstursbíllinn var sportútgáfa Volkswagen Beetle með tveggja lítra TSI bensínvél, með rafal sem skilar 200 hestöflum til framhjólanna. Vélin er framan í bílnum eins og í útgáfunni frá 1998, en gamla bjallan var eins og kunnugt er með vélina aftur í og var afturhjóladrifin. Segja má að svona búin sé bjallan orðin að sportbíl og svipa eiginleikarnir mjög til Volkswagen Golf GTI og ekki leiðum að líkjast þar.

Bjallan nýja er byggð á sama undirvagni og Volkswagen Jetta – bíll sem hefur verið rómaður fyrir gæði og mikla ökuhæfni. Vélarkostirnir í Bjöllunni eru 105 hestafla (1,2 l), 160 hestafla (1,4 l) og 200 hestafla (2,0 l) bensínvélar og frá og með vorinu verða einnig í boði 105 (1,6 l) og 140 hestafla (2,0 l) díselvélar.

Með öflugustu vélinni er Bjallan hrikalega skemmtilegt leiktæki sem aka mátti um frábæra vegi Þýskalands af mikilli gleði. Ekki minnkaði sú gleði þegar komið var út á hraðbrautirnar þar sem ótakmarkaður hraði er leyfður. Þá var engin ástæða til að hemja gæðinginn fyrr en komið var í rúmlega 220 km hraða og átti bíllinn þá talsvert inni enn. Í borgarumferðinni kom lipurð bílsins í ljós, gæði fjöðrunarinnar og hversu vel hann fer með farþega. Diskabremsur eru á öllum hjólum og eins og á öðrum góðum sportbílum eru klafarnir málaðir hárauðir. Sjálfskiptingin er af DSG-gerð með tveimur kúplingum og virkar eins og í öðrum gerðum Volkswagen mjög vel.

Stjórnendur Volkswagen hafa greinilega gert sér grein fyrir kröfum kaupendahóps Bjöllunnar, sem fæst í tólf mismunandi litum, litasamsetning innréttingar getur verið á tíu vegu auk sex gerða af fallegum álfelgum. Því er auðvelt fyrir kaupendur að útbúa sinn persónulega bíl og hvers manns þörf er uppfyllt.

Innrétting bílsins er sérlega vel heppnuð, mjög stílhrein og falleg og handbragð þýskt. Ytri litur bílsins skilar sér víða í innréttingunni í sömu glansáferð, á mælaborði, efsta hluta hurðanna og víðar og gefur honum mikinn stíl. Þetta er sjaldgæf útfærsla, gefur mikinn karakter og hefur til dæmis líka sést í Fiat 500. Efnisval í innréttingunni er í háum gæðaflokki, handbragð til fyrirmyndar og gæðin skína í gegn.

Framsætin eru góð í bílnum og rými í aftursætum er orðið nokkuð gott. Er það mikil breyting frá forveranum sem eingöngu hentaði börnum. Aðgengi að aftursætunum gegnum stórar dyrnar er mjög gott, betra en í mörgum öðrum tvennra dyra bílum. Farangursrými er stórt og þægilegt. Ekki er að efa að þessari nýju gerð Bjöllunnar verður fagnað en hér heima hefur Hekla hf. selt alls fimmtán eintök af bílnum. Þeir sem vilja standa út úr fjöldanum kaupa svona bíl og þeir verða ekki sviknir af gæðunum né heldur verðinu en ódýrasta útfærslan kostar aðeins 3,3 millj. kr.

finnurorri@gmail.com

Bjallan varð Íslandsbíll fyrir áratugum

Þvælst á Bjöllunni um alla vegi

„Fáir bílar hafa notið sambærilegra vinsælda og Bjallan frá Wolkswagen. Framleiðsla á þessum bílum hófst í smáum stíl skömmu fyrir síðari heimsstyrjöld og þeir fyrstu komu hingað til lands um 1950. Þeir fóru hins vegar ekki að seljast hér af neinni alvöru fyrr en á sjöunda áratugnum, eftir að bílainnflutningur til landsins var gefinn frjáls 1961,“ segir Sigurður Hreiðar Hreiðarsson blaðamaður. Hann hefur skrifað um bíla í áratugi og fylgdist vel með Bjöllunni sem Íslendingar keyptu í slíku magni að engu líkara var en að á borðum væru heitar lummur.

„Sigfús í Heklu setti mikinn kraft í sölu þessara bíla, sem voru ódýrir og hæfðu vel íslenskum aðstæðum. Voru einfaldir en kannski svolítið ófullkomnir enda var stundum sagt að alltaf mætti finna eitthvað í hverri Bjöllu sem væri bilað. Svo mátti líka þvælast á Bjöllum um alla vegi á Íslandi, bílarnir hentuðu íslenskum aðstæðum afskaplega vel þrátt fyrir smæðina. Ég var reyndar aldrei sérstaklega heillaður af þessum bílum en virtist þó sem endursköpun bílsins fyrir nokkrum árum tækist bærilega. Nýjustu útgáfuna sem er að koma á markaðinn þessa dagana hef ég ekki skoðað.“