Ford Fiesta er eins skemmtilegur í akstri og hægt er að gera kröfu um með ódýran og lítinn bíl. Býðst bæði sjálfog beinskiptur og með þremur gerðum bensínvéla og tveimur díselvélum.
Ford Fiesta er eins skemmtilegur í akstri og hægt er að gera kröfu um með ódýran og lítinn bíl. Býðst bæði sjálfog beinskiptur og með þremur gerðum bensínvéla og tveimur díselvélum. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ford Fiesta er einn af þeim bílum sem afsanna þá furðusögu að eins spennandi sé að aka ódýrum smábílum og að ýta á undan sér innkaupakerru í stórmarkaði. Á síðustu árum hafa æ fleiri smábílar komið á markaðinn sem einmitt eru ekki þessu marki brenndir.

Ford Fiesta er einn af þeim bílum sem afsanna þá furðusögu að eins spennandi sé að aka ódýrum smábílum og að ýta á undan sér innkaupakerru í stórmarkaði. Á síðustu árum hafa æ fleiri smábílar komið á markaðinn sem einmitt eru ekki þessu marki brenndir.

Ford Fiesta er eins skemmtilegur í akstri og hægt er að gera kröfu um með ódýran og lítinn bíl. Auk þess er hann fallegur bíll sem fyrir vikið vekur athygli. Með rísandi línu aftur eftir bílnum er hann sportlegur og flottur. Er hlaðinn búnaði sem finnst frekar í dýrari bílum og verð undir 2,3 milljónum króna fyrir ódýrustu útgáfuna ætti ekki að hræða neinn frá. Þá skaðar ekki að Fiesta hefur fengið 5 stjörnur í árekstrarprófi hjá Euro NCAP sem margir stærri bílar státa ekki af.

Beinskiptur betri kostur

Ford Fiesta á fádæma góða sögu frá fyrsta ári sínu, 1976, og hefur hann selst í yfir 12 milljón eintökum. Hann er nú svokallaður alheimsbíll og er framleiddur í 9 löndum í fimm heimsálfum. Hann hefur til dæmis verið mest seldi fólksbíll í Bretlandi í átta ár frá árinu 1990 og þar af síðustu þrjú ár. Hann er einnig mest seldur það sem af er þessu ári. Fiesta var reynsluekið af tíðindamanni blaðsins nýlega og var sá bíll sjálfskiptur og með 1,6 lítra bensínvél og fimm dyra. Fiesta má einnig fá þrennra dyra. Hann býðst að sjálfsögðu líka beinskiptur og með þremur gerðum bensínvéla og tveimur díselvélum.

Reynsluökumaður myndi ávallt kjósa þennan bíl frekar beinskiptan en sjálfskiptan. Ræður þar ekki eingöngu sú staðreynd að litlir bílar eru ávallt skemmtilegri og eyðslugrennri beinskiptir, heldur er eini ókosturinn sem fannst við þennan bíl fólginn í sjálfskiptingunni. Hún hefur helst þann ókost að hraða bílnum illa nema troðið sé til botns á bensíngjöfinni til að fá hann til að skipta niður og auka afl vélarinnar. Fyrir vikið erfiðar hann gjarna í sama gír, þó hraðar eigi að fara. Er þetta nokkuð grátlegt í ljósi þess að vélin er öflug og fullnóg fyrir bílinn. Þessi vél væri yfirdrifin og mjög skemmtileg ef hún væri tengd beinskiptingu.

Einstök fjöðrun

Fjöðrun Fiesta er með því allra besta sem gerist og gefur stóra bróðir, Focus, ekkert eftir. Það er hreinlega gaman að fara yfir hraðahindranir á honum og magnað hve lítill bíll fer vel farþega á meðan. Bensíngjöf er mjög nákvæm og svarar strax, eiginleiki sem alltof fáir bílar hafa. Stýrið er að sama skapi nákvæmt og tilfinning fyrir vegi sérlega góð. Halli í beygjum er vart finnanlegur og því eru aksturseiginleikarnir miklir og koma sannarlega á óvart í svo litlum bíl.

Reynsluökumaður naut akstursins mjög. Talandi um lítinn bíl þá er Fiesta alls ekki svo lítill þegar inn í hann er komið. Mjög vel fer um framsætisfarþega í góðum framsætum og þokkalega fer um aftursætisfarþega en höfuðrými leyfir ekki mikið hærri einstaklinga en 180 cm. Framsæti eru hæðarstillanleg sem og stýri og því gott að finna rétta akstursstöðu. Farangursrými er í tæpu meðallagi fyrir bíl í þessum flokki. Stjórntæki eru ekki af flóknari gerðinni og með engum íburði en allt þó á réttum stað og rökrænt.

87 sinnum umhverfis jörðina

Það hjálpaði mjög innra útliti bílsins að hann var með Titanium-pakkanum sem ekki er dýr. Millistokks með geymsluhólfum var saknað í innréttingunni, en þess í stað eru glasahaldarar neðarlega við gólf og lítil geymslurými þar. Fyrir vikið eru heldur engir armar til að hvíla hendi á. Hiti í sætum og fleiri þægindi sem prýða bílinn gefa ökumanni tilfinningu fyrir ef til vill öðru en því að hann sitji í ódýrum smábíl. Gæðin eru alls staðar sjáanleg enda kannski ekki skrýtið þar sem á prófunartímabili Ford Fiesta var bílunum ekið sem samsvarar 87 hringjum í kringum jörðina í hitastigi frá 40 gráðum og upp í 80 gráður.

finnurorri@gmail.com

Ford Fiesta ódýr og fær góða umsögn

Hljóðlátur, lipur og sparneytinn

„Ford Fiesta hefur komið sérlega vel út á liðnum árum og er nafn sem flestir þekkja og bera vel söguna,“ segir Gísli Jón Bjarnason, sölustjóri hjá Brimborg. „Mér finnst nýr Ford Fiesta sérlega vel heppnaður í útliti og ekki skemma nú aksturseiginleikarnir fyrir; bíllinn er mjög hljóðlátur, lipur og sparneytinn. Svo kostar lítið að fara á honum í bæinn því bílar þessarar gerðar með díselvél fá frítt í stæði í Reykjavík sakir þess hve mengunn er lítil eða aðeins 95 grömm af gróðurhúsalofti á hvern ekinn kílómetra, CO2. Við getum boðið mjög gott úrval sparneytinna véla í Ford Fiesta, bæði bensín- og díselvélar og alvöru sjálfskiptingu. Ford Fiesta er mjög vel búinn bíll en þrátt fyrir Það er verðið er með því lægsta sem gerist í þessum flokki bíla eða frá frá tæpum 2,3 milljónum króna sem er verðið sem við setjum á beinskiptu bílana. Við getum einnig boðið Ford Fiesta Sport Street Editioner sem er hlaðinn búnaði og 134 hestafla sem er ansi gott í bíl í þessum flokki. Verðið fyrir þá bíla er mjög hagstætt eða tæpar 3,3 milljónir króna. Þá er endursalan einstaklega góð í Ford Fiesta og er staðan þannig hjá okkur núna að okkur vantar slíka bíla í umboðssölu og satt að segja þurfum við slíka bíla á söluskrá okkar.“ sbs@mbl.is