Porche 911 Carrera S Cabriolet er bíll sem hvarvetna vekur eftirtekt og því má vænta að margir hafa áhuga á kynningu sem Bílabúð Benna stendur fyrir í dag, sumardaginn fyrsta.
Porche 911 Carrera S Cabriolet er bíll sem hvarvetna vekur eftirtekt og því má vænta að margir hafa áhuga á kynningu sem Bílabúð Benna stendur fyrir í dag, sumardaginn fyrsta. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Draumur marga er að aka einhverntíma draumasportbílnum Porsche 911. Draumur bílaáhugamannsins er að aka sportbíl á kappakstursbraut. Draumur margra er að fara til Kanaríeyja og njóta fegurðar eyjanna.

Draumur marga er að aka einhverntíma draumasportbílnum Porsche 911. Draumur bílaáhugamannsins er að aka sportbíl á kappakstursbraut. Draumur margra er að fara til Kanaríeyja og njóta fegurðar eyjanna. Það er því alls ekki slæmt að sameina þetta þrennt, eins og tíðindamaður blaðsins reyndi á dögunum þegar hann fékk tækifæri til að prófa nýja kynslóð Porsche 911 á Gran Canaria. Og nú gefst Íslendingum kostur á að reynsluaka þessum bíl hjá Bílabúð Benna við Vagnhöfða í Reykjavík í dag, á fyrsta degi sumars.

Þegar rætt er um Porsche 911 fylgja ávallt orð eins og hinn eini sanni sportbíll. Það er samt þannig að fátt annað en svo hástemmd orð koma upp í hugann við að setjast undir stýri þessa bíls, ræsa hina öflugu vél hans og hlusta á fegurðina, en umfram allt að aka honum og finna hvað allir þeir sem hástemmdu orðin viðhöfðu meintu.

Margar gerðir eru til af Porsche 911-bílnum en sá sem reynsluekið var var Carrera S Cabriolet-útgáfa hans, semsagt blæjubíll. Það hentar ekki illa á Kanaríeyjum. Hver kynslóð af 911-bílnum fær sérstakt númer til aðgreiningar frá fyrri gerðum og ber bíllinn nú töluna 991 en kynslóðin þar á undan 997. Sérstakt, en aldeilis ekki óþekkt meðal þýskra bílaframleiðenda.

Verkfræðiundur

Miklar breytingar hafa orðið á 911-bílnum með þessari nýju kynslóð. Það er lengra milli hjólanna sem nemur 5,2 cm að framan og bíllinn allur breiðari fyrir vikið. Ástæðan? Jú, eins og ávallt, til að auka akstursgetuna. Bílinn er heilum 60 kílóum léttari og aukin notkun léttmálma eins og magnesíums, áls og koltrefja á þar stærstan þátt. Um útlit hans í heild er hægt að segja margt, gullfallegur, kraftalegur, rennilegur eða bara dásamlegur. Hann tekur fram fyrri kynslóð, sem þó var erfitt. Vélin í Carrera S er 6 strokka boxervél með 3,8 lítra sprengirými og rafal sem skilar 400 hestöflum til allra hjólanna.

Hefðbundinn 911 Carrera er með 3,4 l. og 350 hestafla vél. Verkfræðingar Porsche hafa náð lygilegum árangri við minnkun eyðslu þessara véla og lækkar eyðsla minni vélarinnar um 15,2% en þeirrar stærri um 13,6% ef PDK-sjálfskiptingin er tengd þeim. Samt hefur afl minni vélarinnar aukist um fimm hestöfl og fimmtán í tilfelli þeirrar stærri. Meðaleyðsla minni vélarinnar er 8,4 l., sú stærri eyðir 8,9 l. Ótrúlegar tölur fyrir svo öflugar vélar. Aðspurðir sögðu verkfræðingar Porsche að erfitt yrði að ná slíkum árangri aftur við næstu kynslóðaskipti, en því yrði samt á einhvern hátt náð. Með þennan metnað í farteskinu er flest hægt.

Blæjan upp á 13 sekúndum

Margvísleg tækifæri fengust til að prófa bílinn og var honum ekið hátt í 500 km um fjallalandslag Gran Canaria sem og á kappakstursbraut rétt við sjóinn. Hvort tveggja var ógleymanleg upplifun. Góðir fjallavegir eyjunnar voru kjörinn vettvangur til að skynja það besta í þessum ofurbíl. Endalaus krafturinn nýttist til fulls við að klífa upp snarbrattar hlíðarnar og óteljandi beygjurnar voru sem skapaðar fyrir magnaða aksturseiginleika hans. Aldrei tókst að láta bílinn skrika til í þeim þó farið hafi verið að þormörkum ökumanns. Hann getur hreinlega miklu meira en flestir þora.

Í milli fjallshlíðanna drundi hið allra fegursta hljóð meðan þetta þýska verkfræðiundur fann sér hröðustu leið upp á fjallstopp þar sem finna mátti snjó við veginn enda komið í yfir 1.000 metra hæð. Aldrei var þó blæjan sett upp því skilvirk miðstöðin sér um að ökumanni sé samt heitt. Blæjan er alveg sérstakt tækniundur og opnast og lokast á þrettán sekúndum og það má gera á allt að 50 km ferð. Þegar hún er lokuð er þak bílsins alveg eins í laginu og sá með venjulegu þaki og er það í fyrsta sinn sem svo er.

Fáránlega öflugar bremsur

Ekki varð gæsahúðin minni við akstur bílsins á kappakstursbraut. Hún var farin tólf sinnum á ógnarhraða og ávallt streðað við að komast hraðar og ná fram öllum kostum bílsins. Gott bremsukerfi bílsins kemur best í ljós í brautarkeyrslu og óhugnanlegt hversu seint er hægt að bremsa fyrir beygjur. Það kom einnig að góðum notum eftir að náð var 250 km hraða. Þeim hraða var náð á ógnarstuttum kafla og eðlilegri hraða aftur náð á jafn stuttum tíma.

Innanrými 911 er ógnarfallegt og alveg í takt við aðra bíla Porsche, bara aðeins flottara.

Það er hreinlega ekki hægt að finna hnökra á bílnum, nema ef vera skyldi að hann er aðeins fyrir tvo farþega, því gott er að sem flestir fái að njóta hverrar ferðar. Ánægjan við að keyra bíl verður ekki meiri.

finnurorri@gmail.com

Porsche 911 er ókrýndur konungur sportbíla

Leitinni að fullkomnun bílsins lýkur aldrei

„Leit Porsche að fullkomnun bílsins lýkur aldrei og er okkur sífelldur innblástur,“ segir Benedikt Eyjólfsson framkvæmdastjóri Bílabúðar Benna. „Það kemur okkur líka alltaf jafn skemmtilega á óvart að hægt sé yfirhöfuð að bæta bílinn frá einni kynslóð til annarrar,“ segir Benedikt.

Helstu breytingarnar, sem nú líta dagsins ljós í Porsche 911, eru þær að aflið hefur enn aukist og hröðunin er nánast ævintýraleg. Bílinn þarf nú aðeins um fjórar sekúndur til þess að komast í 100 kílómetra hraða. Um leið hefur verið horft til umhverfisverndar með minnkun á eldsneytisnotkun og útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Útblástur er nú einungis 194 g/km sem er það lægsta sem sést hefur í sportbíl. Þá vekur líka athygli að hjólhafið hefur lengst um 10 cm og bíllinn er heilum 45 kg léttari.

„Það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur að deila þessari upplifun með bílaáhugafólki á frumsýningu Porsche 911 nú á sumardaginn fyrsta og helgina á eftir og við væntum þess að sem flestir sjái sér fært að kíkja í Porsche-salinn . Við ætlum jafnframt að flagga öllu því flottasta í Porsche línunni,“ segir Benedikt.

Porsche 911 er mikil glæsilkerra

Ofurbíllinn myndaður á Íslandi

Nýjasta útgáfan af Porsche 911 er enginn letidraugur samkvæmt nýlegum heiðri sem þessum bíl hefur hlotnast. Hefur hann verið útnefndur getumesti kraftabíll ársins 2012. Útnefningin átti sér stað er tilkynnt var um val á bíl ársins 2012 en í þeirri keppni varð Porsche-bíllinn í þriðja sæti.

Það er skemmtileg tenging við þetta val, að Porsche-verksmiðjurnar völdu Ísland sem vettvang til myndatöku til auglýsinga- og kynningarstarfs vegna þessarar nýjustu útgáfu af Porsche 911.

„Fyrstu myndirnar sem birtust af bílnum, teknar meðal annars í Hvalfirði og á Suðurlandi. Bílarnir komu til landsins í flugi og tókst þeim með miklum öryggisráðstöfunum að taka upp efnið með þyrlu og tilheyrandi búnaði án þess að það læki út hér á landi. Með í för voru reynsluökumenn frá Porsche sem prófuðu um leið bílana á íslensku vegunum,“ segir Jóhann Ingi Magnússon, sölustjóri hjá Bílabúð Benna.