Wolkswagen Caddy fær góða umsögn manna hjá heildversluninni Innnes sem eru með fjóra slíka í útgerðinni og þykir raunar sennilegt að þeim verði fjölgað á næstunni.
Wolkswagen Caddy fær góða umsögn manna hjá heildversluninni Innnes sem eru með fjóra slíka í útgerðinni og þykir raunar sennilegt að þeim verði fjölgað á næstunni. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir Íslendingar, ekki síst iðnaðarmenn, eyða flestum þeim stundum sem þeir eru undir stýri á sendibílum. Einna algengastir slíkra bíla eru smærri gerðir þeirra og þeirra vinsælastir hér á landi líklega Volkswagen Caddy og Renault Kangoo.

Margir Íslendingar, ekki síst iðnaðarmenn, eyða flestum þeim stundum sem þeir eru undir stýri á sendibílum. Einna algengastir slíkra bíla eru smærri gerðir þeirra og þeirra vinsælastir hér á landi líklega Volkswagen Caddy og Renault Kangoo.

Caddy er útbúinn díselvél, 102 hestafla með 1,6 l sprengirými og beinskiptur. Caddy má reyndar fá með 1,2 l og 2,0 l bensínvélum þar sem sú stærri brennir einnig metangasi og 2,0 l díselvél sem þó skilar ekki nema átta hestöflum meira en sú sem prófuð var.

Allt eru þetta eyðslugrannar vélar sem brenna frá 5,6 l til 6,7 l á hundraðið og reynsluakstursbíllinn með uppgefna lægstu töluna. Þessi vél er merkilega spræk þrátt fyrir nett sprengirými og togið í henni alveg til fyrirmyndar. Hún er viljug að snúast hratt og láta taka á sér og þá er bíllinn snarpur og hreinlega skemmtilegur þótt um sé að ræða sendiferðabíl. Þessar nýju Common Rail-díselvélar eru 13% sparneytnari en fyrri díselvélar, góður árangur þar.

Flytur allt að 4,2 rúmmetrum

Caddy má einnig fá fjórhjóladrifinn, sem teljast verður góður kostur við íslenskar aðstæður, ekki síst fyrir notendur sendibíla á landsbyggðinni. Þannig búinn er hann nokkru dýrari sem von er en er þá líka með stærri díselvélinni. Caddy má einnig fá í lengri gerð og vex þá flutningsrýmið úr 3,2 rúmmetrum í 4,2. Það merkilega er þó að burðargetan eykst ekkert. Caddy Maxi-bílinn má reyndar einnig fá frá verksmiðjum Volkswagen sem fimm eða sjö sæta fjölskyldubíl og er þá bíllinn með hliðarrúður.

Ekki frekar en aðrir sendibílar er ytra útlit Caddy mikið fyrir augað, enda enginn sem ætlast til þess með sendibíl. Innra útlitið er nokkuð í takt, frekar hrátt og lítið stílfært en það skín þó af innréttingunni þau gæði sem Volkswagen er þekkt fyrir nú um stundir varðandi frágang, efnisval og vandaða smíði. Sendibílar eiga að vera sterkir og þola álag vinnandi manna og þessi Caddy mun örugglega standast það til langs tíma. Það eru ógnarmörg geymslurými í bílnum og það allra stærsta ofan höfuðs undir þakinu. Iðnaðarmenn þurfa einmitt mörg misstór geymsluhólf og þeirra óskum hefur sannarlega verið svarað, í hurðum, milli sæta, í mælaborði og hreinlega alls staðar þar sem þeim mátti fyrir koma. Hliðar í flutningsrými eru klæddar að hluta og þakið alveg klætt, sem kemur á óvart.

Rennihurðir á báðum hliðum

Stór kostur er fólginn í stillanlegu bílstjórasætinu og stýrinu, mjög mikilvægt fyrir vinnandi menn sem eyða löngum stundum undir stýri. Allir geta fundið sína bestu akstursstöðu með þessum stillingum. Hurðir skipta meginmáli í hverjum sendibíl og þar skorar Caddy hátt með tvöfalda stóra hurð að aftan og góðar rennihurðir á báðum hliðum.

Einn af alstærstu kostunum sem greinarskrifari fann við Caddy er skilrúmið milli flutningsrýmis og ökurýmis. Það er alveg lokað, er úr harðplasti með gluggum en gerir það að verkum að aðeins þarf að hita upp farþegarýmið til þæginda fyrir ökumann og flutningsrými getur verið kalt á meðan. Upphitun tekur því skemmri tíma og auðveldara að viðhalda henni og ódýrara. Auk þess hjálpar skilrúmið hvað öryggismál varðar, en ef brotist er inn í bílinn kemst viðkomandi ekki auðveldlega milli rýma, sem telst mikill kostur.

Sem hver annar fólksbíll í akstri

En hvernig skyldi svo vera að aka VW Caddy-sendibíl? Merkilega gott reyndar. Fjöðrunin er frekar stíf, talsvert stífari en ég átti von á í svona bíl. Samt er hann mjög góður á ójöfnu yfirborði. Þyngdarpunkturinn er nokkuð neðarlega þrátt fyrir hæðina og fyrir vikið er hann fínn í beygjum. Undirvagninn er vel gerður og minnir um margt á undirvagninn í öðrum góðum fólksbílum Volkswagen. Ef setja á út á eitthvað er það hávaði við akstur, en hann er ekkert sérstaklega hljóðeinangraður, bæði frá vél og vegi og hávaði berst vel frá flutningsrýminu frammí gegnum óeinangrað plastið. Vindgnauð er nokkurt og á þennan hátt er Caddy helst frábrugðinn venjulegum fólksbílum VW.

En hver gerir kröfur um annað? Þetta er sendibíll, vinnubíll með litlum lúxus. Eitt af því sem rétt er að horfa til við kaup á sendibíl er hversu ódýr hann er í viðhaldi, smurningu og skylduskoðunum. Sá þáttur virðist sterkur hvað varðar Caddy.

finnurorri@gmail.is

Reynast vel í rekstri hjá Innnes

Þurfa nánast ekkert viðhald

„Volkswagen Caddy eru bílar sem hafa reynst okkur afskaplega vel. Við erum með fjóra slíka og þar af eru tveir metanknúðir sem hefur skilað okkur heilmiklum sparnaði á tímum síhækkandi eldsneytisverðs,“ segir Valur Stefánsson, rekstrarstjóri hjá Innnes – heildverslun.

„Ætli helsti kosturinn við þessa bíla sé ekki sá að þurfa nánast ekkert viðhald. Við förum með þá eins og lög gera ráð fyrir í þjónustuskoðanir mjög reglulega og þar og þá er kippt í liðinn því sem hugsanlega kann að vera bilað. Mér finnst þróun og framleiðsla á Caddy hafa tekið góðum framförum að undanförnu. Bílarnir eru miklu þéttari og betur einangraðir en var og vegahljóðið er nánast horfið. Þá er ákaflega þægilegt að setjast inn í bílinn og þótt ekki sé hátt undir lægsta punkt á bílnum er gott útsýni úr honum,“ segir Valur.

Innnes er með á sjötta tug bíla af af ýmsum stærðum og gerðum í flota sínum og Caddy hefur hentað vel t.d. í snatti og innanbæjarferðum, að sögn Vals. „Ég reikna því með að við fjölgum bílum þessarar gerðar og beinum sjónum þá sérstaklega að metanknúðum bílum, enda er reynsla okkar af þeim mjög góð,“ segir Valur.

sbs@mbl.is