Heildarupplifunin af reynsluakstri Superb má helst lýsa með frasanum „mikið fyrir peninginn“. Þetta er miklu betri bíll en allar væntingar stóðu til og þó voru verulegar.
Heildarupplifunin af reynsluakstri Superb má helst lýsa með frasanum „mikið fyrir peninginn“. Þetta er miklu betri bíll en allar væntingar stóðu til og þó voru verulegar. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fáir bílar hafa fengi eins mikið lof og fjölda verðlauna á síðustu árum og önnur kynslóð Skoda Superb.

Fáir bílar hafa fengi eins mikið lof og fjölda verðlauna á síðustu árum og önnur kynslóð Skoda Superb. Það er kannski ekki svo skrýtið í ljósi þess að margir hafa kosið hann frekar en rómaða gæðabíla eins og Mercedes E-class og Audi A6 og eru þá gæði þeirra allra metin á jafnréttisgrundvelli. Þessir bílar eru í sama stærðarflokki.

Fullyrða má um Skoda Suberb að gæði hans og smíði, stærð bílsins og flutningsrými sé langt fyrir ofan það verð sem á bílnum er. Superb var til skoðunar og reynsluaksturs nýverið og varð sú reynsla eingöngu til að staðfesta þann orðróm sem um bílinn fer, ótrúlega góður bíll á flottu verði. Gæði bílsins og smíði varð til þess að rifja upp sögusagnir um að bílar Skoda settir saman af vandvirkum Tékkum séu betri smíð en bílar móðurfyrirtækisins, Volkswagen, sem gjarnan eru settir saman af innfluttum Tyrkjum í Þýskalandi. Ekki skal lagt neitt mat á þessa sögu en bílar Volkswagen eru í dag mjög vönduð smíð.

Skoda Superb er stærstur bíla Skoda og flaggskip fyrirtækisins. Svo stór er hann að fótarými aftursætisfarþega er stærra en í limósínunni Audi A8, sem er þó ærið. Svo stórt er það að margir hafa sagt að það sé „of stórt“, hvernig sem það er nú hægt. Það er að minnsta kosti nógu stórt fyrir hvaða þjóðhöfðingja sem er og má hann þess vegna vera þrír metrar á hæð! Skottið er einnig ógnarstórt og fyrir vikið er Skoda Superb mjög heppilegur ferðabíll og að sjálfsögðu heppilegastur í langbaksgerð (station).

Tvöföld opnun á skotti

Talandi um langbaksgerðina, þá er greinarritari á því að þannig sé hann líka enn fallegri. Að ytra útliti er Superb ekki sláandi, frumlegur né framúrstefnulegur. Hann er nokkuð látlaus en stærð hans og mjúkar og fallegar línur gera hann eðlan og virðulegan. Nef bílsins er sportlegt og grimmilegt og gefur bílnum sterkt svipmót. Bíllinn kemur á mjög fallegum álfelgum sem lyfta ágætu útlitinu enn frekar.

Að innan er Superb fallegur en umfram allt mjög vandaður og minnir um margt á Audi-innréttingar, sem er þekktar fyrir fegurð. Fletir með burstaðri stáláferð setja ríkulegan svip á innréttinguna. Gískiptihnúðurinn er einn sá flottasti sem sést hefur og takkar allir og mælar fallegir og á réttum stað. Reynsluakstursbíllinn var með gullfallegum leðursætum og voru bæði framsætin rafdrifin. Leðrið er aukabúnaður og í ódýrustu útfærslu Superb, sem kostar 4.950.000 kr., er tauáklæði í bílnum.

Eitt af mörgu sem kemur skemmtilega á óvart með Superb er opnunin á skottinu, en hún er tvívirk. Þegar ekki þarf stórt op til að hlaða skottið opnast skottlokið eingöngu en þegar stærri hlutir eiga að fara þangað opnast lokið og afturglugginn í heild og aðgengið eins gott og stórt og hugsast getur.

Mögnuð dísilvél

Skoda Superb má fá með fimm vélargerðum, þremur bensínvélum og tveimur dísilvélum. Sá sem prufaður var er með stærri dísilvélinni, 2,0 lítra og 170 hestöfl. Þetta er frábær vél sem gerir þessa limúsínu að hálfgerðum sportbíl í leiðinni. Togið er svo gott í vélinni að hann aflið þverr aldrei og gaman að sækja það við allar aðstæður. Með þessari vél er uppgefin eyðsla í blönduðum akstri 6,0 lítrar.

Í reynsluakstrinum var bíllinn með 6,5 lítra að jafnaði og bæði ekið innan borgarinnar og utan. Tekið var hressilega á bílnum á stundum og ekki eðlilegt annað en uppgefinni eyðslutölu hafi ekki verið náð, en það væri greinilega auðvelt. Þessi eyðsla er fáránlega lág fyrir svona stóran bíl með svo öfluga vél og fyrir vikið er ekki annað hægt en að mæla með honum með einmitt þessari vél og DSG-sjálfskiptingunni, sem var alveg frábær og er sex gíra. Minni dísilvélin eyðir ekkert minna og bensínvélarnar meira. Aksturseiginleikar Superb eru mjög góðir. Skoda hefur tekist að finna hárrétta stillingu fjöðrunarinnar sem búast mátti við að væri æði mjúk í svo stórum bíl. Reyndin var sú að hann er skemmtilega stífur og minnir því meira á lipran millistærðarbíl með sporteiginleikum.

Fæst fjórhjóladrifinn

Superb má einnig fá fjórhjóladrifinn og ekki ættu eiginleikarnir að versna við það, né öryggið. Þess er vel gætt í bílnum og með sína sjö öryggispúða hefur hann fengið fimm stjörnur í öryggisprófunum Euro NCAP. Heildarupplifunin af reynsluakstri Superb má helst lýsa með frasanum „mikið fyrir peninginn“. Skoda Superb er miklu betri bíll en væntingar stóðu til, þó voru þær allnokkrar.

finnurorri@gmail.com