Hyundai i30 á systurbíl í Kia Cee'd sem einnig er nýr af færiböndunum. i30 sem er gerður fyrir Evrópumarkað þykir mjög líkur Peugeot 308 og á það sjónarmið rétt á sér
Hyundai i30 á systurbíl í Kia Cee'd sem einnig er nýr af færiböndunum. i30 sem er gerður fyrir Evrópumarkað þykir mjög líkur Peugeot 308 og á það sjónarmið rétt á sér — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný kynslóð af einum vinsælasta bíl Hyundai, i30 kom nýlega á markað. Hann er ámóta stór og VW Golf og telst til stærðarflokks C, sem er langsöluhæsti flokkur bíla í heiminum.

Ný kynslóð af einum vinsælasta bíl Hyundai, i30 kom nýlega á markað. Hann er ámóta stór og VW Golf og telst til stærðarflokks C, sem er langsöluhæsti flokkur bíla í heiminum. Hyundai i30 á reyndar systurbíl í Kia Cee'd sem einnig er nýr af færiböndunum en er ekki kominn til landsins enn. Hyundai i30 er bíll sem er gerður fyrir Evrópumarkað, enda teiknaður í Þýskalandi. Hann er líka framleiddur í álfunni, það er í Tékklandi.

Bíllinn er sannarlega með evrópskar línur og á hönnuðum hans hafa dunið skammir frá Frakklandi þar sem bíllinn þykir sláandi líkur Peugeot 308 sem kom á markað árið 2007. Það bendir reyndar til þess að hann sé ekki beint nýstárlega teiknaður og undir það verður að taka. Hann slær ekki nýja tóna með ytra útliti sínu sem þó er snoturt, en bara eins og það hafi sést áður.

Fyrsta kynslóð Hyundai i30 kom á markað árið 2007 og er þetta aðeins önnur kynslóð hans. Þeirri fyrstu var mjög vel tekið um allan heim og bar vönduðum vinnubrögðum fyrirtækisins gott vitni. Það virðist einnig eiga við þessa nýju kynslóð þó örfá atriði megi betur fara.

Öflug díselvél

Velja má á milli fimm vélargerða, tveggja bensínvéla og þriggja díselvéla. Prófaður var bíll með aflmestu díselvélinni, með 1,6 lítra sprengirými og 128 hestöfl. Þessi vél er sérlega vel heppnuð og gerir bílinn frískan og duglegan. Aflið er sannarlega nægt fyrir ekki stærri bíl og aksturinn verður skemmtilegur fyrir vikið. Talsverðu munar þó á verði frá ódýrustu gerð hans, sem er með 1,4 lítra bensínvél og kostar 3,2 milljónir króna, en sá sem reynsluekið var kostar 4,3 m. kr.

Mjög góð 6 gíra sjálfskipting sendir aflið frá vél til framhjólanna. Bæði stærri gerð bensín- og díselvélanna fást aðeins sjálfskiptar frá umboði en minni gerðirnar beinskiptar. Skemmtilegt hefði þó verið að bjóða beinskiptingu í þeim öllum, enda í boði hjá framleiðanda. Á móti kemur að sjálfskiptingunni má beinskipta með því að hnika sjálfskiptihnúðnum til hliðar. Gaman er að prófa þennan kost, sem þó leysir ekki fyllilega af hólmi beinskiptingu. Fjöðrunin í i30 er mjög góð. Hann eyðir öllum ójöfnum fagmannlega og finnst gaman að fara yfir hraðahindranir.

Akstureiginleikarnir eru fyrir vikið nokkuð góðir að einu undanskildu. Þegar farið er hratt í beygjur er grip framdekkja lítið og gefur eftir þannig að ökumaður hefur á tilfinningunni að hann sé að affelga bílinn. Hann hallast of mikið í stefnuátt og skrikar til. Hvort ástæðunnar sé að leita í þungu nefi með nokkuð stóra díselvél í farteskinu eða í ranglega uppsettum undirvagni eða framhjólastelli skal ekki fullyrt og ef til vill gætu of mjó dekk verið skýringin.

Mikil tækni og gott innanrými

Að innan er Hyundai i30 vel heppnaður og rúmgóður. Innréttingin er falleg en án íburðar. Smíði hennar virðist vera vönduð og fátt sem skortir. Framsætin eru einkar góð og rými fyrir aftursætisfarþega til fyrirmyndar og bæði höfuð- og fótarými nægt fyrir fullvaxna karlmenn. Vel er hugsað fyrir drykkjarhólfum, sem eru mörg. Stýrið er hæðarstillanlegt og með aðdrætti en þar með er ekki öll sagan sögð. Stýrið má stilla á þrjá vegu, allt eftir því hvort ökumaður vill hafa það þungt eða létt. Þessari tækni var reynsluökumaður að kynnast í fyrsta skipti og er lýsandi fyrir góðan tæknibúnað í bílnum öllum.

Farangursrýmið er 378 lítrar sem telst nokkuð gott í þessum stærðarflokki bíla. Allir nútíma tengimöguleikar eru í bílnum, USB, MP3 og iPod-tengi. Hljómtækin með 6 hátölurum komu á óvart fyrir gæði. Hitastýrð tvívirk miðstöð gerði það einnig. Öryggis er vel gætt með átta loftpúðum og eins og með allar aðrar gerðir Hyundai-bíla uppfyllir hann ýtrustu kröfur um öryggi. Einangrun virðist vera ábótavant ef veghljóð er haft í huga, en það verður að teljast of mikið. Hljóð frá vél er þó ekki mikið. Þegar haft er í huga að Hyundai i30 með svo öflugri vél eyðir ekki nema 5,5 lítrum í blönduðum akstri og minni díselvélarnar gera vart betur, hvað þá bensínvélarnar, verður þessi útfærsla hans að mjög góðum kosti. Ekki skemmir fimm ára ábyrgð allra Hyundaibíla.

finnurorri@gmail.com

Þægilegur þéttbýlisbíll, segir markaðsstjóri BL

Bíll sem bregst ekki

„Þessi bíll hefur mjög skemmtilegt yfirbragð sem er í samræmi við þróun mála hjá Hyundai á undanförnum árum. i30 mætti kalla þægilegan millistærðarbíl sem er hannaður fyrir fólk sem býr í þéttbýli,“ segir Loftur Ágústsson markaðsstjóri BL.

Fyrirtækið hefur nú þegar afhent tólf bíla síðan bíllinn var kynntur fyrir stuttu og fleiri bílar eru í pípunum sem verða afhentir til nýrra Hyundai viðskiptavina innan tíðar. Áhugi bílaleiga á nýju bílunum er einnig mikill enda Hyundai sá bíll sem vel þolir það álag sem fylgir bílaleigum. „i30-gerðin er annar bíllinn í nýrri hönnunarlínu Hyundai síðan jepplingurinn ix35 var kynntur fyrir rúmu ári. Eftir um það bil mánuð kynnum við síðan þriðja nýja bílinn frá Hyundai sem er i40 í skutbíls-útgáfu,“ segir Loftur sem getur þess að nú þegar sé Hyundai i30 næst á eftir evrópsku bílaframleiðendunum í sölu í þessum stærðarflokki. Á toppnum sé Volkswagen en síðan komi franskir bílar eins og Renault og Citroën. Á þessum markaði sé Hyundai hins vegar mjög að sækja í sig veðrið og ætli að ná lengra.

„Mér finnst raunsönn lýsing að Hyundai i30 sé bíll sem bregðist ekki fólki. Viðtökurnar hafa verið góðar og dómar þeirra sem reynt hafa eru á sömu lund,“ segir Loftur. sbs@mbl.is