Það er ansi sérstök tilfinning að sleppa höndum af stýri á öðru hundraðinu á hraðbraut og láta bílinn sjálfan um að halda sér á veginum, og það í nokkrar mínútur.
Það er ansi sérstök tilfinning að sleppa höndum af stýri á öðru hundraðinu á hraðbraut og láta bílinn sjálfan um að halda sér á veginum, og það í nokkrar mínútur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir um það bil tveimur árum var undirritaður staddur fyrir sunnan Barcelona að reynsluaka vinsælum jepplingi þegar hann rakst á dulbúinn jeppa sem greinilega var Volvo af afturendanum að dæma.

Fyrir um það bil tveimur árum var undirritaður staddur fyrir sunnan Barcelona að reynsluaka vinsælum jepplingi þegar hann rakst á dulbúinn jeppa sem greinilega var Volvo af afturendanum að dæma. Hann líktist þáverandi XC90 nokkuð en það var eitthvað við framendann á honum sem virkaði eins og það passaði ekki við restina af bílnum. Náðust myndir af bílnum og með hjálp kunningja í Svíþjóð var flett upp á númeri bílsins sem vissulega tilheyrði Volvo-verksmiðjunum. Staðfestist þar með grunur um að verið væri að prófa nýja kynslóð XC90. Fyrir nokkrum vikum var undirritaður staddur á nákvæmlega sama stað, en að þessu sinni til að reynsluaka sjálfur nýrri kynslóð Volvo XC90.

Smekkleg hönnun

Volvo XC90 kom fyrst á markað árið 2002 og þessi bíll er aðeins önnur kynslóð hans. Því hefur biðin eftir bílnum verið löng, kannski of löng fyrir þá kaupendur sem vilja endurnýja með nýrri kynslóð. Alls hefur Volvo selt 636.000 eintök af gamla bílnum og meðan á kynningu bílsins stóð úti á Spáni höfðu tæpir 20.000 bílar þegar verið pantaðir af nýju kynslóðinni. Að sjálfsögðu var búið að skoða margar myndir af bílnum áður en komið var til Tarragona en bíllinn er jafnvel enn flottari í eigin persónu. Allur framendinn er einbeittur og með nýjum svip. Það eru sérstaklega framljósin sem einkenna hann en gegnum miðju aðalljósanna eru díóðuljós sem eru í laginu eins og hamar. Í stíl við aðra bíla Volvo-línunnar er axlalínan orðin enn meira áberandi og bíllinn því mun kraftalegri fyrir vikið. Ef reynslan af því að skoða ytra útlit bílsins var góð var upplifunin að setjast inn í hann enn betri. Undirritaður hafði góðan tíma kvöldið fyrir prófunardaginn til að setjast upp í einn uppstillingarbílinn og læra á stjórntæki hans. Miðpunkturinn í innréttingunni er níu tommu snertiskjár með flettimöguleika eins og iPad. Þaðan er hægt að stjórna vel flestu í stjórnbúnaði bílsins og þess vegna hefur Volvo farið þá leið að taka burtu þá takka sem skjárinn annars stjórnar. Margir aðrir framleiðendur fara öfuga leið og bjóða jafnvel þrjár leiðir til að stjórna einum og sama hlutnum sem eykur bara flækjustig og bilanahættu. Innréttingin í bílnum er í léttum og klassískum skandinavískum stíl og er á pari við það sem best gerist í þessum flokki í efnisvali. Ekki skemmir svo fyrir alvöru hljómburður úr Bowers & Wilkins-hljómtækjunum.

Öll sæti stór og rúmgóð

Sætin í Volvo XC90 eru sér kapítuli og alveg einstaklega þægileg með öllum sínum stillingum og fídusum. Best var að geta stillt stuðning undir fætur langt fram til frekari þæginda. Þar sem bíllinn er hannaður eingöngu utan um fjögurra strokka vélar er meira pláss í innanrými þar sem ekki þarf lengur að gera ráð fyrir lengri vélum með fleiri stimplum. Öll sæti eru rúmgóð, einnig sætin í þriðju sætaröðinni sem eru jafnstór sætunum í miðjusætunum. Aftasta sætaröðin situr örlítið hærra en samt komast þar fyrir án vandræða þeir sem eru 170 cm á hæð. Þeir þurfa þó að vera nokkuð liðugir til að smeygja sér aftur í bílinn. Þótt að felling sætanna sé úthugsuð og hauspúðar til að mynda falli á nettan hátt niður til að auðvelda að fella fram sætin er það þó ekki áreynslulaust. Sætin eru stór og þung og þægilegra hefði verið að hafa aukahandfang aftast í bílnum svo hægt sé að fella öftustu sætin fram frá afturhlera. Farangursrýmið sjálft kemur reyndar talsvert á óvart því það tekur hvorki meira né minna en 451 lítra með öll sjö sætin á sínum stað og fer í 1.951 lítra með báðar sætaraðirnar niðri. Bíllinn er með lyklalausu aðgengi og ræsingin er með hnappi í miðjustokki sem einfaldlega er snúið eins og lykli. Hægt er að velja akstursstillingu með skruntakka þar fyrir neðan. Þar er valið Eco-stilling, Comfort, Off Road eða Dynamic fyrir ákveðnari akstur. Einnig er hægt að setja upp sína eigin akstursstillingu og velja þegar það hentar.

Öflug vél þrátt fyrir fjóra strokka

Vélin sem við prófuðum mest var tveggja lítra bensínvélin í T6-bílnum, en einnig er tveggja lítra, 225 hestafla dísilvél í boði sem verður vinsælust hérlendis. Sú vél er sérlega eyðslugrönn og því munum við prófa hann sérstaklega þegar hann er kominn til landsins. Loks er bíllinn einnig í boði sem tvinnbíll með bensínvélinni og rafdrifnum afturöxli en þannig skilar hann 400 hestöflum og eyðir aðeins 2,5 lítrum í blönduðum akstri. Það er líka eini sjö sæta tvinnbíllinn sem í boði er í þessum flokki, en aftur að T6-bílnum. Vélin er bæði búin keflablásara og forþjöppu en blásarinn sér um að gefa honum meira afl á lægra snúningssviði vélarinnar á meðan forþjappan bætir við aflið þegar vélin er farin að snúast. Það þarf aðeins að venjast hvininum í fjögurra strokka vélinni enda er maður vanari því að hafa meira og dýpra vélarhljóð í bílum í þessum flokki. Það er ekki hægt að kvarta yfir aflsleysi í þessum bíl og heldur ekki eyðslu. Það er kannski eini ókosturinn hversu hátt innihald koltvísýrings er miðað við vélarstærð, eða 179 g/km. Bíllinn verður aðeins fáanlegur sjálfskiptur með átta þrepa skiptingu sem er silkimjúk og fljót að skipta bílnum þótt hún sé af hefðbundinni gerð. Fjöðrunin virkar vel á mann og heldur bílnum vel á veginum þrátt fyrir að bíllinn sé nokkuð yfir tvö tonn að þyngd. Ekki gafst tækifæri til að reyna hann utan malbiks en það verður gert hér heima þegar þar að kemur. Munar þó örugglega um að hátt er undir bílinn eða 230 mm.

Verðið kemur á óvart

Miðað við aðra bíla í þessum flokki verður ekki annað sagt en að Volvo XC90 komi vel búinn í grunninn. Fyrir utan að innihalda allan þann grunnbúnað sem keppinautarnir hafa er hann með nokkrar nýjar viðbætur eins og snertiskjáinn sem við höfum þegar nefnt. Einnig er hann fyrsti bíllinn sem er með öryggisbúnaði eins og árekstrarvara og útafakstursvörn. Auk þess kemur hann með hreint út sagt frábærum akreinavara sem ekki aðeins varar ökumann við heldur aðstoðar hann við að halda sig á réttum stað á veginum. Það var óvenjuleg tilfinning að sleppa höndum af stýri á hraðbrautinni á 140 km hraða og finna hvernig eins og ósýnileg hönd heldur bílnum á veginum. Síðast en ekki síst er verðið mjög gott á XC90 en hann byrjar í 10.590.000 kr með D5-dísilvélinni og endar í 13.990.000 kr. í T8-tvinnbílnum. Til samanburðar kostar grunngerð Audi Q7 12.990.000 kr. og á þá eftir að bæta við þriðju sætaröðinni sem kostar 270.000 kr. í viðbót. Grunngerð BMW X5 er talsvert nær honum í verði á 10.790.000 kr. en þar kostar þriðja sætaröðin 450.000 kr.

njall@mbl.is