Bíllinn er byggður á grind, með millikassa, læsingu og lágu drifi. Hann getur dregið heil ósköp á eftir sér þó hann sé ekki fallinn til kappaksturs. Hann hefur marga góða kosti og nokkra ókosti.
Bíllinn er byggður á grind, með millikassa, læsingu og lágu drifi. Hann getur dregið heil ósköp á eftir sér þó hann sé ekki fallinn til kappaksturs. Hann hefur marga góða kosti og nokkra ókosti. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeir eru ekki margir jepparnir sem byggðir eru á grind í dag. Nokkrir eru þeir þó og þeirra á meðal er hinn suður-kóreski SsangYong Rexton. Bílabúð Benna hefur selt bíla af tegundinni SsangYoung í fjölda ára og er Rexton í þeirri fjölskyldu.

Þeir eru ekki margir jepparnir sem byggðir eru á grind í dag. Nokkrir eru þeir þó og þeirra á meðal er hinn suður-kóreski SsangYong Rexton. Bílabúð Benna hefur selt bíla af tegundinni SsangYoung í fjölda ára og er Rexton í þeirri fjölskyldu. Stutt er síðan Rexton fékk andlitslyftingu og var töluvert hresst upp á hann. Grillið er nýtt, LED-dagljósin eru það líka, afturljósin, stýrishjólið með aðgerðatökkunum og upphituð sæti eru þar líka á meðal þess sem nýtt er. Grillið gerir hann dálítið Lincoln-legan og ekki er þar leiðum að líkjast. 2,0 l. dísilvélin er ekki ný en hún skilar bílnum á leiðarenda án teljandi erfiðleika.

Jeppi í akstri

Rexton er orðinn býsna hljóðlátur. Í fjölbreytilegri veðráttu í góðum bíltúr var ekkert hægt að kvarta yfir veghljóði. Hann er nefnilega ljómandi vel einangraður og það er rós í hnappagat hins suður-kóreska framleiðanda.

Rexton er með millikassa, læsingu og lágt drif. Það er gott. Enda hegðaði hann sér eins og jeppi í torfæruakstri og það er nú eitthvað sem maður saknar stundum. Sjálfstæð fjöðrun að framan er góðs viti og brekkubremsan á fullt erindi í bíl sem þennan.

Hann er ferlega góður í möl og ójöfnum og það er að mínu mati einn helsti kostur þessa bíls. Samt var ekki beinlínis unun að aka bílnum. Hann var nokkuð stöðugur á jafnsléttu en þó myndi maður ekki fara skarpt í beygjurnar í Kömbunum á honum. Reyndar ætti ekki að fara skarpt í þær beygjur á nokkrum bíl þar sem brýnt er að hægja þar ferðina sökum sérstakra aðstæðna í landslaginu en dæmið er samt gott.

Næsta dæmi er líka tekið úr Kömbunum. Rexton kemst upp Kambana. Það er ekki vandamálið. En það gerir hann á frekar löngum tíma. Ætli bílstjóri Rextons að taka fram úr í umferðinni á góðum degi er gott að gera sér fulla grein fyrir að það tekur tíma. Eins og bíllinn þurfi að hugsa sig vandlega um hvort hann ætti að hrökkva, stökkva eða fara framúr.

Gamaldags og einfalt

Sumir vilja helst hafa sem fæsta takka á dóti. Það eru fáir takkar í Rexton og engir æpandi upplýsingaskjáir um allt mögulegt og ómögulegt. Þeir mælar sem í mælaborðinu eru teljast fáir og þeir eru stórir og gott að sjá á þá. Það er ekki aksturstölva þannig að þeir sem illan bifur hafa á tölvuvæðingunni ættu að vera sigri hrósandi í Rexton sem ekki er með eyðslumæli eða öðru sem í versta falli getur truflað bílstjóra við akstur. Einfalt getur verið virkilega gott. Það getur líka verið gamaldags og mörgum þykir það einmitt líka gott.

Fyrst þótti mér sérstakt til þess að hugsa að bíllinn væri nýr. Mér fannst hann nefnilega dálítið gamall viðkomu og í „samskiptum“ ef svo má segja. Fljótlega fann ég að mér þótti dálítið varið í það. Eins og bíllinn væri „gömul sál“ þó hann væri frekar karakterlaus í akstri.

Í bílnum eru nútímalegir möguleikar á tengingu við snjallsíma með Bluetooth-tækni og það er líka USB-tengimöguleiki. Hljómburðurinn í einföldum hljómflutningstækjunum er góður og þá er ekki hægt að kvarta. Þvert á móti.

Það er nóg pláss í Rexton. Það er pláss fyrir allan skarann, eigi fólk stóra fjölskyldu. Hann er nefnilega sjö sæta. Fyrir sjö sæta bíl er hann á nokkuð góðu verði og fyrir jeppa er hann líka á góðu verði. Hann kostar frá 6.990.000 kr. sem er auðvitað ekki ódýrt sé verðið tekið úr samhengi en í réttu samhengi er það nokkuð sanngjarnt. Þó er eitt sem er frekar ósanngjarnt. Það er að erfitt er að nálgast upplýsingar um árekstra- og öryggisprófanir á Rexton. Það er ekki alveg nógu gott. Hann hefur ekki verið árekstraprófaður hjá EuroNCAP og ekki tókst mér að finna nokkrar áreiðanlegar prófanir. Það þarf þó ekki að þýða að þær séu ekki til. Það gekk bara illa að finna þær.

Fantagóð dráttargeta

Í svipuðum flokki og SsangYong Rexton eru bílar á borð við Nissan Xtrail, Land Rover Discovery Sport, Chevrolet Captiva, Hyundai SantaFe og VW Tiguan, svo einhverjir séu nefndir. Þeir eru á svipuðu róli í verði en eitt er það þó sem Rexton hefur fram yfir þá flesta og það er dráttargeta grindarbílsins. Hann dregur nefnilega allt að 2800 kíló og það er nokkuð sem margir sækjast eftir. Til dæmis gætu hestamenn verið ánægðir með það.

malin@mbl.is