Uppfærð 2,0 lítra TDI dísilvélin er í senn þýðgeng, öflug og eyðslugrönn.
Uppfærð 2,0 lítra TDI dísilvélin er í senn þýðgeng, öflug og eyðslugrönn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný kynslóð Audi A6 kom á markað fyrir fjórum árum og núna er nýkomin á markað hér á landi ný útgáfa hans. Um svokallaða miðaldursandlitslyftingu er að ræða þar sem endurnýjaðir eru dæmigerðir útlitshlutir eins og stuðaðar og ljós.

Ný kynslóð Audi A6 kom á markað fyrir fjórum árum og núna er nýkomin á markað hér á landi ný útgáfa hans. Um svokallaða miðaldursandlitslyftingu er að ræða þar sem endurnýjaðir eru dæmigerðir útlitshlutir eins og stuðaðar og ljós. Afturendinn fær nýjan stuðara með innfelldu pústkerfi og framendinn ný ljós og straumlínulagaðri stuðara. Framljósin eru með aftursveigðum díóðu stefnu- og dagljósum og

S-línan fær meira að segja díóðuaðalljós.

Vel útfært mælaborð

Að innan eru breytingar í lágmarki enda kannski óþarfi að eiga við eitthvað sem einfaldlega virkar. Mælaborðið er flæðandi með vel útfærðum línum og þótt hann fái ekki alveg stafrænt mælaborð eins og nýr VW Passat er ekkert upp á hefðbundna hraða-snúningshraðamæla að klaga. Sætin er einfaldlega stór og þægileg og sætisstaðan fyrir ökumann nálgast fullkomnun. Ólíkt mörgum öðrum bílum er útsýni úr bílnum með besta móti enda póstarnir í grennra lagi. Upp úr miðju mælaborðinu rennur fram litaskjár sem sýnir allar helstu upplýsingar. Hann sýnir einnig útsýnið frá bakkmyndavélinni en hefur þó þann ókost að ef slökkt er á hljómtækjum og öðrum búnaði tekur það næstum þrjár sekúndur fyrir bakkmyndavélina að kveikja á sér, svo að maður er einfaldlega hálfnaður með að bakka þegar myndin er komin upp. Pláss fyrir farþega er alls staðar gott nema kannski helst fyrir miðjusæti aftur í, en stór miðjustokkur tekur mikið af fótaplássinu. Farangursrými er með því rúmbesta í flokknum en það gleypir heila 530 lítra og aðeins E-línan frá Mercedes gerir betur en það.

Vélin öflug og þýð

Meðal þess sem Audi uppfærði í nýja bílnum er afl og eyðsla dísilvélanna en bíllinn sem við höfðum til prófunar var með tveggja lítra TDI-dísilvélinni. Mengunargildi hennar er aðeins 109 g/km af CO2 en þrátt fyrir það skilar hún 187 hestöflum. Upptakið er allgott fyrir tveggja lítra dísilvél og hann er aðeins 8,2 sekúndur í hundraðið með silkimjúkri sjö þrepa DSG-sjálfskiptingunni. Auk þess er vélin hljóðlát og þýðgeng og laus við hljóð inni í farþegarými. Prófunarbíllinn var í svokallaðri S-line-útfærslu og virkar nokkuð stinnur á fjöðrun. Hann kemur þannig á 18 tommu álfelgum og var ekki alveg laus við veghljóð þannig þrátt fyrir að vera prófaður á sumardekkjum. Hann er með gott grip í beygjum og tiltölulega laus við undirstýringu enda dísilvélin í léttara lagi. Stýrið mætti þó gefa meiri tilfinningu enda viðnámið í því fullmikið og bíllinn jafnvel örlítið togstýrður á köflum.

Samkeppnishæft verð

Grunnverð á nýjum Audi A6 er frá 8.250.000 kr. en í svokallaðri S-line-útfærslu eins og prófunarbíllinn er hann kominn í 10.340.000 kr. Meðal aukabúnaðar í þeim bíl má nefna rafstýrð sæti, fjórskipta miðstöð, díóðuaðalljós, nálgunarvörn, bakkmyndavél og lyklalaust aðgengi. Sambærilegur BMW er 520d sem kostar frá 8.790.000 kr og E220 frá Mercedes byrjar í 8.060.000 kr. með aðeins minni búnaði í grunninn. Verðið verður því að teljast vel samkeppnishæft.

njall@mbl.is