— Morgunblaðið/Tryggvi Þormóð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kostir Aflmikill, vel búinn, verð Gallar Veghljóð, skipting afls, farangursrými

Hvaða bíll er það eiginlega sem ber sama heiti og gömul bíómynd um tölvuleik? Audi A3 e-tron er nýjasta viðbótin frá þýska lúxusbílaframleiðandanum og er svokallaður tengiltvinnbíll en þeir hafa líka verið kallaðir tvíorkubílar. Það þýðir einfaldlega að hann er með bæði bensínvél og rafmótor auk þess að hafa rafhlöðu sem dugar honum til að komast í borgarsnattið á raforkunni einni saman. Nokkrir slíkir bílar hafa litið dagsins ljós að undanförnu en ekki margir í þessum flokki og í raun og veru er eini beini keppinautur hans systurbíllinn VW Golf GTE. Audi A3 var líka valinn heimsbíll ársins í fyrra svo að það var með talsverðri eftirvæntingu sem blaðamaður Morgunblaðsins tók við lyklunum að þessum fallega en jafnframt áhugaverða bíl.

Talsvert þyngri

Að utan er A3 e-tron eins og venjulegur A3 Sportback en þó má sjá á díóðuaðalljósum og afturstuðara sem nánast felur pústkerfið að þarna sé e-tron á ferðinni. Auðvitað er hann merktur sem slíkur en rafhleðslutengingin er vandlega falin bakvið hringina fjóra í grillinu. Það sem aðgreinir hann hins vegar frá Sportback er talsvert meiri þyngd en þar munar næstum þriðjungi. A3 Sportback er aðeins rúm 1.200 kg en þessi bíll er farinn að slaga langleiðina upp í 1.600 kíló. Það finnst alveg þegar bílnum er ekið að hann er stífari en hefðbundinn A3 á fjöðrum en þar sem 125 kílógramma rafhlöðunni er komið fyrir undir aftursætinu er þyngdardreifingin góð og bíllinn laus við að vera undirstýrður. Það er nokkurt veghljóð í bílnum og eflaust er þar tvennt að koma til, annars vegar hörð Run-Flat dekkin og hins vegar þyngdin sem pressar bílinn meira niður á malbikið. Að innan er e-tron að mestu eins og Sportback fyrir utan farangursrýmið sem hefur minnkað um 100 lítra þar sem koma þurfti bensíntanki fyrir undir gólfi þess. Pláss í sætum er gott og þá sérstaklega frammí þar sem sætin eru vel löguð og gefa góðan stuðning bæði til hliðanna og undir fætur.

Mjög vel búinn

Óhætt er að segja að e-tron sé vel búinn bíll. Hann er með 7 tommu litaskjá sem kemur upp úr mælaborðinu en þar er leiðsögukerfi, tvöföld miðstöð, aksturstölva, blátannarbúnaður og stafrænt útvarp sem staðalbúnaður. Fyrir framan ökumann er líka 3,5 tommu litaskjár milli mælanna og það eru díóðuaðalljós og regnskynjari. Auk þess eru fjarlægðarskynjarar, nettenging og valhnappur með snertifleti valbúnaður en slíkur búnaður var einmitt í prófunarbílnum. Með honum fylgir hleðslusnúra fyrir heimarafmagn en hleðslukapall fyrir hleðslustöðvar kostar 30.000 kr í viðbót. Hleðslutími á venjulegri innstungu er tæpar fjórar klukkustundir og þegar bíllinn er fullhlaðinn á hann að ná um 50 kílómetrum á rafmagninu einu saman. Akstursdrægni á báðum driflínum er samanlagt 940 km og uppgefin eyðsla á að geta farið niður í 1,5 lítra á hundraðið sem er auðvitað ekki raunhæft. Fyrir þann sem keyrir mikið innanbæjar og notar bílinn sjaldan á lengri ferðum ætti það þó að geta farið nærri lagi.

Vel útfærð driflína

Að sögn hönnuða Audi er driflínan í A3 e-tron ein sú fullkomnasta sem Audi hefur smíðað. Vélin í A3 e-tron er aðeins 1,4 lítra bensínvél en þar sem hún er búin bæði forþjöppu og millikæli skilar hún 150 hestöflum og 250 Newtonmetra togi. Vélin er með blokk úr áli og viktar aðeins 100 kíló, en hún er staðsett aðeins meira til hægri en í hefðbundnum A3. Ástæðan er 34 kílóa rafmótorinn sem kemur aftan við svinghjólið, en hann skilar mest 99 hestöflum og saman skila mótorarnir 204 hestöflum og 350 Newtonmetra togi. Fyrir aftan rafmótorinn kemur svo sex þrepa sjálfskipting með tveimur kúplingum sem þýðir einfaldlega að snúningurinn frá rafmótornum fer í gegnum mismunandi hlutföll gírkassans. Það kemur sér vel þar sem hann snýst aðeins upp í 2.200 snúninga. Rafmótorinn dregur vélina í gang með því að nota seinni kúplinguna en það tekur innan við hálfa sekúndu, að sögn Audi. Það finnst þó nokkuð vel þegar þessi skipting verður og þá sérstaklega þegar bílnum er gefið snöggt inn. Það gæti hugsanlega komið sér illa þegar bregðast þarf snöggt við og því nauðsynlegt að ökumaður sé meðvitaður um þetta hik. Það er hins vegar ekki mikið hik á honum þegar kemur að upptakinu og þökk sé forþjöppunni er aflið gott upp allt snúningssviðið sem er góð tilbreyting frá dísilbílunum sem allir virðast bjóða uppá nú til dags.

Enginn beinn keppinautur

Það er erfitt að finna Audi A3 e-tron keppinaut þar sem ekki margir tengiltvinnbílar eru í boði í heiminum í þessum flokki, og þeir sem eru til hafa ekki enn komið hingað til lands. Stutt er í að VW Golf GTE komi til landsins en það er systurbíll e-tron og verður væntanlega eitthvað aðeins undir honum í verði. Hinn keppinautur hans er BMW i3 en BL hefur ekkert gefið í skyn að þeir muni flytja hann inn enn sem komið er. Grunnverð A3 e-tron er hins vegar nokkuð gott þegar horft er á staðalbúnað bílsins og er einfaldlega það sama og á A3 Sportback 1,4 TFSI CoD eða 5.190.000 kr. A3 e-tron er betur búinn en hann og auk þess með rafmótorinn og allt sem honum fylgir svo að það kemur nokkuð á óvart að verðið sé svona gott. Segja má einfaldlega að verið sé að bjóða tvíorkubíl á verði einorkubíls.

njall@mbl.is

Njáll Gunnlaugsson