Flæðandi línur BMW i8 þýða sérlega lágan vindstuðul en hann er aðeins 0,26 Cd.
Flæðandi línur BMW i8 þýða sérlega lágan vindstuðul en hann er aðeins 0,26 Cd. — Morgunblaðið/Njáll Gunnlaugss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það vakti talsverða athygli þegar BMW frumsýndi ofurbíl sinn BMW i8 í Frankfurt árið 2013. Líkt og ofurfyrirsæta stal hann senunni og gerir það hvert sem hann fer eins og undirritaður fékk að prófa á dögunum úti í Finnlandi.

Það vakti talsverða athygli þegar BMW frumsýndi ofurbíl sinn BMW i8 í Frankfurt árið 2013. Líkt og ofurfyrirsæta stal hann senunni og gerir það hvert sem hann fer eins og undirritaður fékk að prófa á dögunum úti í Finnlandi. Undirritaður var þar staddur ásamt hópi ökukennara að kynna sér aðstæður til kennslu í ökugerði í Nokia og stutt prófun á BMW i8 var rúsínan í pylsuendanum. Brautin er með stuttum hring og hálkukafla sem gaf tækifæri á að finna hvernig skrikvörn bílsins virkaði. Mér gafst svo tækifæri til að aka bílnum aðeins um sveitirnar kringum Tampere á eftir og prófa hinar ýmsu akstursstillingar hans.

Einstaklega fallegur bíll

Bíll eins og BMW i8 vekur svo mikla athygli að það er eins og frægur Hollywood-leikari sé mættur á svæðið hvar sem hann kemur. Aðrir bílar hægja á sér eða gefa í til að geta verið nálægt honum og virt fyrir sér og hvar sem hann kom voru snjallsímar á lofti við að mynda gripinn. Í stuttu máli er i8 einstaklega fallegur bíll og ef einhverstaðar á vel við að tala um flæðandi línur er það í þessum bíl. Þakið og vindskeiðin renna saman aftan á bílnum og stórar 20 tommu felgurnar fylla vel út í hjólaskálarnar sem einnig eru með þessu vænglaga útliti. Díóðuljós allan hringinn setja svo punktinn yfir i-ið en þau er einnig hægt að fá með svokölluðum leiserljósum sem gefa enn skarpari og beinni geisla.

Líður vel bak við stýrið

Þegar sest er inn í BMW i8 er byrjað á að opna vængjahurðirnar með snertitakka og beita þarf síðan smá lagni við að setjast niður í bílinn svo það líti nú ekki illa út. Sportleg sætin eru nokkuð stór og þægileg og manni líður strax vel bakvið stýrið á þessum bíl. Mælaborðið er jafn framúrstefnulegt og annað í útliti þessa bíls. Díóðulýsing setur tæknilegan blæ á allt saman og tveir stórir litaskjáir, annar þeirra snertiskjár, eru ráðandi frammí bílnum. Aftursætin eru meira til að sýnast og það þarf kattliðugan einstakling til að koma sér þar fyrir. Það sem bjargar málum er að hurðirnar eru langar og opnast vel upp og þar sem þær eru léttar og gaspumpan fyrir þær stór er fislétt að opna þær. Aftan við farþegasætin er svo bensínvélin og rafhlaðan þar fyrir ofan þannig að farangursrýmið er bara smáhólf þar fyrir aftan sem varla dugar fyrir tvær handtöskur, hvað þá meira. Þá er betra að bjarga sér á aftursætunum sem verða að farangursrými í staðinn fyrir stærri hluti.

Sérhannað vélarhljóð

Vélin í BMW i8 er þriggja strokka 1,5 lítra og þótt það hljómi kannski ekki spennandi er hún samt hljómfögur, þökk sé hljóðhönnunardeild BMW. Hún hljómar nefnilega eins og strokkarnir séu tvöfalt fleiri. Með forþjöppu skilar þessi vél 231 hestafli sem verður að teljast ansi gott. Rafhlaðan knýr áfram 129 hestafla rafmótor, en saman skila þeir 357 hestöflum sem er nóg til að koma bílnum frá 0-100 km á klst á aðeins 4,4 sekúndum. Þótt þessar tölur séu nóg til að keppa við bíla eins og Porsche 911 og Audi R8 er kostnaðurinn við að reka BMW i8 meira í ætt við smábíl. Rafhlaðan í honum dugar til að aka honum um það bil 40 km á rafmagninu eingöngu og með 32 lítra bensíntanki kemst hann rúma 600 km á bæði bensíni og rafmagni. Fyrir þann sem notar bílinn mikið á stuttum ferðum mun hann spara mikið eldsneyti og ekki eyða nema rúmum tveimur lítrum á hundraðið eða svo. Rafmagnið gefur honum snöggt viðbragð áður en að bensínvélin tekur við, svo að hann virkar snöggur af stað. Þá þarf að hafa hann í sportstillingu svo að hann noti báða aflgjafana til hins ýtrasta, en þá er fjöðrunin líka stífari og stýrið sneggra að bregðast við. Það var mjög gaman að heyra hvernig bæði raf- og bensínmótorinn hljómuðu eins og sinfónía þegar maður botnaði bílinn á brautinni. Þar sem bíllinn er í þyngra lagi vegna rafhlöðu og aukamótors og á tuttugu tommu dekkjum er veghljóð talsvert en kannski viðbúið.

Samanburðurinn ekki til staðar

En hvað skyldu svo svona herlegheit kosta? Í Þýskalandi kostar hann frá 19,5 milljónum svo að það er raunhæft að áætla að hann kosti nálægt 30 milljónum hérna heima. Þar sem hann er langt fyrir neðan 80 gramma mörkin á losun koltvísýrings ber hann engin vörugjöld en hann er ekki rafdrifinn eingöngu og fær því ekki afslátt af virðisaukaskatti eins og rafbílar. Það er enginn beinn keppinautur við þennan bíl á markaði og þá allra síst hérna á Íslandi. Eins og áður sagði mætti bera hann saman við bíla eins og Audi R8 og Porsche 911 en samanburður við þá er samt ekki sanngjarn þegar kemur að verði. Vörugjöld á þá yrðu alltaf hærri en framleiðslukostnaður BMW i8 er meiri vegna tvíorkunnar.

njall@mbl.is