Mercedes-Benz E300 Bluetec Hybrid er sérlega skemmtilegur bíll í akstri og rétt að taka ofan fyrir hönnun þeirri sem býr í hybrid-vélinni. Hún gerir bílinn ákaflega sparneytinn án þess að þyngja hann eða spilla aksturseiginleikum hans á nokkurn hátt.
Mercedes-Benz E300 Bluetec Hybrid er sérlega skemmtilegur bíll í akstri og rétt að taka ofan fyrir hönnun þeirri sem býr í hybrid-vélinni. Hún gerir bílinn ákaflega sparneytinn án þess að þyngja hann eða spilla aksturseiginleikum hans á nokkurn hátt. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú var tíðin að unnendur fallegra bíla festu kaup á Mercedes-Benz vegna þess að bíllinn var fallegur, aflmikill, hann var stöðutákn, hann var vandaður, hann var vel búinn hvers kyns búnaði og svo mætti lengi telja.

Sú var tíðin að unnendur fallegra bíla festu kaup á Mercedes-Benz vegna þess að bíllinn var fallegur, aflmikill, hann var stöðutákn, hann var vandaður, hann var vel búinn hvers kyns búnaði og svo mætti lengi telja. Sparneytni var ekki endilega meðal þess sem dró fólk að þessum þýsku gæðingum – ekki svo að skilja að Benz hafi gegnum tíðina verið fram úr hófi eyðslusamur á eldsneyti, en Benz var einfaldlega keyptur á öðrum forsendum. Honum var ætlað að uppfylla aðrar þarfir en þá að spara eiganda sínum eldsneyti. Nú er öldin önnur. Kaupendur í öllum verðflokkum horfa til eyðslunnar á hverja hundrað kílómetra og rýna um leið í tölur yfir magn útblásins koltvísýrings á hvern kílómetra.

Sparneytinn lúxusvalkostur

Nú er öldin önnur og kaupendur bíla í nær öllum verðflokkum láta sig hin grænu sjónamið varða, sem er vitaskuld vel. Bílaframleiðendur svara í síauknum mæli kallinu og Mercedes-Benz E300 Bluetec Hybrid er lýsandi dæmi um þessa þróun. Hér er kominn veglegur, rúmgóður og vel búinn bíll í lúxusflokki með eyðslutölur sem eru hreint ótrúlegar. Bíllinn er knúinn díselvél og svo rafmótor og útkoman er einkar ánægjuleg. Rafbílar eru ekki lengur undarlega útlítandi furðubílar með takmarkaða aksturseiginleika, heldur hafa hugsuðirnir hjá Daimler AG sýnt hér og sannað að glæsilegustu fólksbíla má vel útbúa með umhverfisvænum hætti án þess að það komi niður á öðrum kostum bílsins. Stundum hefur rafmótorinn tekið helst til mikið af farangursrýminu eða fótarými farþega í aftursætum en því er ekki að heilsa hér. Skottið er upp á heila 540 lítra, sem þætti fínt fyrir hvaða bíl í þessum flokki sem er en þegar mið er tekið af því að búið er að munstra inn öllum hybrid-búnaðinum er það verulega vel í lagt hvað geymslurými varðar. Plásstakan er heldur ekki á kostnað fótarýmis fyrir farþega í aftursæti því þar er plássið fyrirtak, bæði fyrir hausinn, fæturna og allt þar á milli. Þrír fullorðnir rúmast þar vel, tveir lifa í plásslegum vellystingum.

Þrælgáfuð vélartvenna

Eins og venjan er með bíla í þessum flokki hleður bíllinn rafhlöðuna með rafal sem tekur afl af snúningi hjólanna. Til að spara olíu slekkur bíllinn svo á dísilvélinni þegar tilefni er til, þ.e. hvenær sem hann hægir nógu mikið á ferðinni til að óþarfi teljist að hafa dísilmótorinn í gangi. Það sem er svo aftur óvenjulegra er hin engilþýða skipting bílsins milli raf- og dísilvélar, en E300 Bluetec Hybrid slekkur og endurræsir á augabragði, allt til að lágmarka olíunotkunina. Auk þess slekkur dísilvélin á sér þegar hröðunin í aksturhraða er að baki og bíllinn siglir þá eftir „hraðbrautunum“ á sínum íslenska hámarkshraða á rafmagninu einu saman. Þurfi maður viðbótarafl þarf ekki annað en að stíga á inngjöfina og þá hrekkur dísilvélin í gang á augabragði og tilheyrandi aukakrafti, eftir því sem þarf. Með þessari prýðissnjöllu lausn lofar Benz eldsneytiseyðslu upp á 4,2 lítra á hundraðið. Undirritaður náði reyndar ekki alveg svo langt niður en eyðslutölurnar voru engu að síður aðdáunarverðar og bílnum til mikils sóma.

Vel búinn að innan – á köflum

Þegar bíll af gerðinni Mercedes-Benz er skoðaður er það vitaskuld á einmitt þeim forsendum. Markið er sett hátt og væntingarnar eru eftir því. Það er út af fyrir sig ekki yfir miklu að kvarta en undirritaður saknar þess alltaf þegar stóru lofttúðurnar þrjár eru ekki til staðar í miðju innréttingarinnar. Þær eru eiginlega orðnar hluti af vörumerkinu, að manni finnst, og synd þegar Benz skartar þeim ekki. Þá kom það mér talsvert á óvart að bíll í þessum flokki hefði ekki bakkmyndavél. Slík myndavél er orðin staðalbúnaður í bílum í lægri verðflokkum og þó að afturstuðarinn sé búinn bakkskynjurum í bak og fyrir jafnast það ekki á við myndavél þegar kemur að því að bakka í stæði eða út úr innkeyrslu. Loks er COMAND-kerfið í skjánum í mælaborðinu óþarflega mikið völundarhús af skipunum hvers konar; bara það að stilla klukkuna í mælaborðinu – sem reyndar er bráðfalleg á að líta – tók þó nokkuð marga smelli til að fullgera. Þá er snyrtilegur snúningspinni fyrir neðan skífuna talsvert fljótlegri kostur. En bíllinn er með sóllúgu bæði fyrir fram- og aftursætin og slíkt fínerí er klárlega til þess fallið að láta væntanlega kaupendur sannfæra sjálfa sig um að bíllinn sé skínandi kostur til kaups. Það er hann líka. Fyrir peninginn fæst rammgerður Mercedes-Benz sem hörkugaman er að keyra og missir ekkert af sjarmanum þó að búið sé að bæta hybrid-búnaði í hann (helgast það meðal annars af því að rafhlaðan er ekki nema 70 kíló), hvorki hvað útlitið varðar né aksturseiginleika. Þá er vert að nefna fjöðrunina, sem er framúrskarandi, sportlega stíf og heldur bílnum ótrúlega vel, jafnvel þegar reynir á hann í kröppum beygjum.

Allt í allt er E300 Bluetec Hybrid forsmekkur af því sem koma skal; glæsilegur fólksbíll sem sameinar afbragðs aksturseiginleika og umhverfisvænan vélarkost.

jonagnar@mbl.is