Opel Cascada tekur sig vel út á vegi en með toppinn niðri er eins gott að ökumaðurinn geri það líka.
Opel Cascada tekur sig vel út á vegi en með toppinn niðri er eins gott að ökumaðurinn geri það líka. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekki oft sem bílablaðamönnum á Íslandi gefst tækifæri til að prófa blæjubíla en það gerist þó einstaka sinnum. Ekki skemmdi það fyrir að dagana sem undirritaður hafði bílinn var sumarið komið á fullan snúning með sól og 20 stiga hita.

Það er ekki oft sem bílablaðamönnum á Íslandi gefst tækifæri til að prófa blæjubíla en það gerist þó einstaka sinnum. Ekki skemmdi það fyrir að dagana sem undirritaður hafði bílinn var sumarið komið á fullan snúning með sól og 20 stiga hita. Rúsínan í pysluendanum var svo að keyra bílinn af 17. júní bílasýningu Bílaklúbbsins á Akureyri svo að í heildina var bílnum ekið vel yfir 500 kílómetra. Þar að auki var megnið af fjölskyldunni með í för svo að það reyndi vel á notkunarmöguleika hans. En er þetta bíll fyrir íslenskar aðstæður?

Hannaður frá grunni

Opel Cascada er laglegasti bíll og ekki er hann lítill, því að hann er heilir 4,7 metrar að lengd. Bíllinn er ekki glænýr, en hann var frumsýndur á bílasýningunni í Genf fyrir tveimur árum og hefur ekki verið breytt síðan. Bíllinn var hannaður frá grunni og þá einnig botnplata hans sem segir nokkuð um metnað Opel varðandi þennan bíl, en hann tók við af Opel Astra TwinTop sem hafði ekki náð að vekja athygli kaupenda. Reynt er að höfða til meiri gæðatilfinningar með því að hafa leðursætin og innréttinguna með ísaumi og tekst það ágætlega þótt ekki nái hann alveg sama staðli og hinir þýsku framleiðendurnir. Óhætt er þó að segja að Cascada sé vel búinn í grunninn og meðal staðalbúnaðar í þessum bíl má nefna leiðsögukerfi með sjö tommu litaskjá, bakkmyndavél með fjarlægðarskynjurum, blátannar-símabúnaði og regnskynjara fyrir rúðuþurrkur. Hátt flækjustig er á tökkum í miðjustokk, en þar eru margir hnappar og tekur dágóða stund að læra á virkni þeirra allra.

Vel búin sæti

Ekki er hægt að tala um gott útsýni úr blæjubíl sem þessum með toppinn uppi enda setur hönnunin honum vissar takmarkanir. Afturrúðan er lítil og axlarlínan há svo að útsýni frá hliðarspeglum er einnig takmarkað.

Svo má ekki gleyma framsætunum sem einnig eru búin loftkælingu. Þau eru vel formuð þótt setan sé í harðara lagi en sætin bæta sig upp með fjölda rafstillinga og þá einnig fyrir mjóbak. Þegar baki þeirra er ýtt fram til að hleypa farþegum aftur í rennur sætið fram með rafbúnaði, og þegar ökumaður sest undir stýri réttir rafbúnaður honum öryggisbeltið. Reyndar fer það svo aftur í sömu stöðu þegar búið er að festa það en þegar ekið er með toppinn niðri verður dálítill sláttur í beltinu í vindinum sem getur orðið þreytandi til lengdar. Það finnst þó bara þegar bíllinn er kominn á 80 km hraða og þar yfir. Farangursrýmið vekur athygli en það rúmar 280 lítra með toppinn niðri sem er eins og í góðum smábíl. Að vísu er það þannig í laginu að erfitt gæti reynst að koma fyrir stórum töskum en eflaust mætti koma vel fyrir fjórum ferðatöskum af minni gerðinni með smá lagni.

Þéttur en þungur

Hönnuðum Opel virðist hafa tekist vel til með aksturseiginleika þessa bíls en hann virkar þéttur á vegi og laus við að missa grip. Hann er með sömu HiPerStrut-fjöðrun og Insignia VXR þótt stillingar hennar séu mýkri. Tilfinning í stýri er góð þótt það sé í þyngra lagi og stærðin geri það nokkuð klossað.

Opel Cascada er heldur engin léttavara með sín 1.741 kíló og þar að auki er allur burðurinn í bílnum í botnplötunni eins og títt er um blæjubíla. Þess vegna virkar hann nokkuð stífur á vegi og tilfinningin er eins og að vera á stórum flatbotna pramma á úfnu vatni. Maður finnur fyrir öllum ójöfnum gegnum allan bílinn en 19 tommu álfelgur með örþunnum dekkjum hafa líka sitt að segja í þeim efnum. Vélin skilar vel sínu þegar forþjöppurnar eru farnar að virka en þrátt fyrir að þær séu tvær er dæmigert túrbóhik í vélinni. Gírkassinn er þannig uppsettur að hann hentar betur fyrir akstur á hraðbrautum og færslan á gírstönginni er ekki eins og í góðum sportbíl, frekar eins og í fjölskyldubíl af stærri gerðinni með langt á milli gíra.

Ekki svo slæmur kostur

Það er hins vegar óhætt að segja að verðið komi á óvart en Cascada kostar frá 5.990.000 kr. í ódýrustu útfærslu en sú er með 1,4 lítra Ecotec-vél. Ekki liggur fyrir hvað prófunarbíllinn kostar enda er hann með töluvert meiri búnaði. Hvað samkeppnina áhrærir má kannski helst bera hann saman við Audi A3 eða A5 blæjubílinn eða jafnvel nýjan Volvo C70 þegar hann kemur aftur á markað. Verð á Audi A3 Convertible er ekki fáanlegt á heimasíðu Heklu en hann myndi líklega vera nær honum í verði en hinir tveir.

Eflaust kynnu margir að spyrja hvort einhver hafi not af slíkum bíl hér á landi og er það réttmæt spurning. Henni má þó svara með því að bíllinn ræður vel við fjóra fullorðna, tekur svipaðan farangur og smábíll, hefur sportlega aksturseiginleika og eyðir svipuðu eldsneyti og fjölskyldubíll með góðri dísilvél. Kannski ekki svo slæmur kostur eftir allt saman?

njall@mbl.is