Suzuki Swift Sport er laglegur að sjá í einfaldri hönnun sinni. Látlaust útlitið hefur verið við lýði síðan 2005 og heldur sér vel. Koltvísýringslosunin mætti vera lægri miðað við stærðina.
Suzuki Swift Sport er laglegur að sjá í einfaldri hönnun sinni. Látlaust útlitið hefur verið við lýði síðan 2005 og heldur sér vel. Koltvísýringslosunin mætti vera lægri miðað við stærðina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Suzuki Swift er smábíll sem að sönnu má kalla góðkunningja enda hefur hann ekki tekið miklum breytingum í útliti síðan hann gkom fram í núgildandi útfærslu árið 2005.

Suzuki Swift er smábíll sem að sönnu má kalla góðkunningja enda hefur hann ekki tekið miklum breytingum í útliti síðan hann gkom fram í núgildandi útfærslu árið 2005. Hann hefur sína ótvíræðu kosti eins og hagstætt verð, gott útsýni ökumanns og laglegt útlit og það er stór hópur fólks sem vill róa á vísan þegar bílar eru annars vegar og Suzuki er einhvern veginn „til staðar“ fyrir sitt fólk.

Velheppnaður útlits

Að því sögðu er öllum bílum hollt – og að endingu óhjákvæmilegt – að endurnýja línurnar svo að jafnvel íhaldssömustu kaupendur fái ekki leiða. Sport-útgáfan sem hér er til umfjöllunar er ágætis tilraun til þess, í grunninn sami bíllinn kominn í hóflega sportlegan sparibúning. Hér er allt sem fólk hefur kunnað að meta við Suzuki Swift á sínum stað með viðbótum sem ættu að falla í kramið hjá nýjum kaupendum.

Eins og þegar hefur verið nefnt er það kostur við bílinn hversu gott útsýni ökumaður hefur, enda er glettilega hátt til lofts í Swift af smábíl að vera. Rýmið gerir hann eiginlega stærri að innan en utan og það fer ljómandi vel um þá sem sitja í framsætunum. Rýmið í aftursæti er ekki eins ríflegt, en það sleppur til og börnin kvarta ekki. Stýrið er fínt, með nappa-leðuráferð, og sætin sportleg að sjá. Efnisvalið í mælaborði er aftur á móti helst til plastlegt en það er svo sem forsenda þess að hægt sé að bjóða bílinn á samkeppnishæfu verði.

Hversu mikið Sport?

Þá er bíllinn sem fyrr segir fallegur útlits; formið er tiltölulega einfalt en það gengur upp og bíllinn er einfaldlega flottur að sjá. Stóran þátt í því eiga 17 tommu felgur og tvöfalt púst. Fólk getur svo deilt um það hvort þetta verðskuldar „Sport“ nafnbótina? Venjulega fara væntingar ökumanns upp um gír eða tvo þegar bílar bera titla á borð við Sport, GTi eða Supercharged, og þá vill maður fá smá fútt. Swift Sport er satt að segja ekki með sérlega sportlegt upptak en hann hressist eftir því sem snúningunum á mínútu fjölgar. Þegar komið er í 6. gírinn krúsar hann afskaplega þægilega um veginn; eiginlega finnur hann ekki fjölina sína fyrr en í 5.000 snúningum. Það fer bílnum hins vegar ágætlega að vera 6 gíra beinskiptur, það er sæmilegasta urr í vélinni og hann hegðar sér vel á veginum. Fjöðrunin er hin fínasta og Swift Sport steinliggur í beygjum, jafnvel þegar vaðið er í þær á ríflegum hraða. Í þeim tilfellum örlar reyndar á svolítilli undirstýringu en það kemur ekkert að sök. Það mætti svo sem halda því fram að „Suzuki Swift Style“ eða álíka væri meira réttnefni en það er vitaskuld álitamál út af fyrir sig.

Stendur fyrir sínu

Í það heila hefur Suzuki Swift Sport flest til að bera sem bíll í þessum flokki þarf að hafa. Helst er að nefna að farangursrýmið í skottinu er afskaplega lítið og fátt sem kemst þar með góðu móti nema þrír búðarpokar, eða tvær íþróttatöskur. Stórar ferðatöskur komast til að mynda trauðla þangað. Þá eru 147 grömm af koltvísýringi helst til mikið fyrir ekki stærri og þyngri bíl. Þar er klárt sóknarfæri fyrir Suzuki því þar er á ferðinni tölfræði sem sífellt fær meira vægi í huga kaupenda. En sem borgarbíll er Swift Sport hinn ágætasti og ætti að eiga rakinn séns í samkeppninni við Clio, Rio og Corsa, þó að kippurinn í upptakinu hefði að ósekju mátt vera meiri.

jonagnar@mbl.is