Opel Astra OPC steinliggur á vegi og þótt hestöflin 280 séu á fullu er hann laus við að fara út í spól í beygjum.
Opel Astra OPC steinliggur á vegi og þótt hestöflin 280 séu á fullu er hann laus við að fara út í spól í beygjum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Því miður eru alltof fáir sportarar eins og Opel Astra OPC fluttir til landsins á þessum síðustu og verstu tímum.

Því miður eru alltof fáir sportarar eins og Opel Astra OPC fluttir til landsins á þessum síðustu og verstu tímum. Einstaka VW Golf GTI hafa komið síðustu misseri en þá er það nánast upptalið í þessum stærðarflokki þótt nokkrir hafi sést undanfarið í næsta flokki fyrir neðan, bílar eins og Suzuki Swift Sport, Ford Fiesta ST og Peugeot 208 GTi. Allir tilheyra þessir bílar flokki sem kallast „Hot hatch“ á því engilsaxneska en það er samnefnari fyrir þriggja til fimm dyra smábíla með aflmiklum vélum og sportlegri fjöðrun. Opel Astra OPC leikur sér með stóru strákunum í þeirri deild og þótt bíllinn sé ekki alveg nýr á markaði var ekki hægt að segja nei við slíkum bíl þegar hann bauðst í reynsluakstur.

Minna togstýrður

Undirritaður prófaði reyndar líka fyrri kynslóð Astra OPC þegar hann kom fyrst á markað árið 2005. Sá bíll var hálfgert villidýr með sín 240 hestöfl og togstýringu sem krafðist allrar athygli ökumannsins þegar bensíngjöfin var kitluð. Hvernig skyldi þá þessi haga sér með sín 280 hestöfl og enn meira tog? Merkilegt nokk að þá er togstýringin talsvert minna áberandi í þessum bíl, enda erfitt að láta hana hverfa alveg í framhjóladrifnum bíl sem er aðeins 5,9 sekúndur í hundraðið. Þótt að hann virki talsvert hastur á vegi og minnstu ójöfnur hafi áhrif á hann er hann ekki óþægilegur í akstri. Fjöðrunin að framan er HiPer Strut-fjöðrunin frá Opel og hann er með stillanlega Flexride-dempara svo að gripið er alltaf gott, líka þegar honum er gefið hressilega inn í beygjum. Þá er hann laus við að missa annað hjólið út í spól enda búinn vel útfærðri tregðulæsingu á framdrifinu. Stýrið er snöggt að hreyfa bílinn og það snýst aðeins rúma tvo hringi, sem er heilum hring minna en í sportlegum fjölskyldubíl.

Yfirdrifið afl

Þegar upptak bíls eins og Astra OPC er prófað þarf að huga að mörgu. Heggur hann framdekkjunum eða eru skiptingarnar hnökralausar? Sem betur fer er upptakið úr kyrrstöðu laust við högg þrátt fyrir allt aflið enda gerir læsingin sitt til að koma í veg fyrir það. Í staðinn kveikir hún í framdekkjunum eins og fjölskyldutertu á gamlárskvöld þar til að útslátturinn slær á aflið. Reyndar er útslátturinn helst til of afskiptasamur og slær of lengi á aflið, eiginlega frekar í sekúndum frekar en sekúndubrotum. Svo þegar kemur að skiptingum kemur helsti galli bílsins í ljós en gírkassinn er frekar klossaður og eiginlega úr takti við annað í þessum annars frábæra bíl. Sem betur fer er aflkúrfan í vélinni svo skemmtileg að ekki þarf að hræra mikið í gírkassanum og satt best að segja er bíllinn kominn á sviptingarhraða áður en búið er að keyra út annan gírinn. Vélin er líka sér kapítuli, snögg upp á snúning svo að hik í forþjöppu er nánast ómerkjanlegt. Með sín 280 hestöfl er hún með forystuna í sínum flokki, en VW þurfti eiginlega að koma með nýja R útfærslu til að slá þennan bíl út.

Vantar meiri samkeppni

Opel Astra OPC er aðeins boðinn í þriggja dyra útfærslu, ólíkt helstu keppinautum hans. Samt er hann nokkuð rúmgóður og aðgengilegur fyrir slíkan bíl og tveir fullorðnir geta látið fara vel um sig í aftursætunum. Sá þriðji kemst þar fyrir líka án teljandi vandræða og farangursrými er bara allþokkalegt. Innréttingin er sportleg og ýkt líkt og ytra útlit hans en um leið örlitið gamaldags. Það eru helst sætin sem fá prik fyrir góðar stillingar og hliðarstuðning, ekki veitir af. Grunnverð Opel Astra OPC er 7.990.000 kr. sem er í stífara lagi miðað við helstu samkeppnisaðila á markaði. Eins og áður sagði þarf eiginlega að bera OPC saman við Golf R frekar en GTI þegar horft er til aflsins, en sá kostar 7.270.000 kr. beinskiptur. Aðrir samkeppnisaðilar væru Ford Focus ST eða Honda Civic Type R en því miður eru verð þeirra ekki gefin upp á heimasíðum viðkomandi umboða. Kannski er það einmitt sem þarf, að umboðin fari að lágmarki að reikna út verð sportlegri bíla, skyldi einhver nú hafa áhuga á að panta slíkan.

njall@mbl.is