Það er ekki margt sem breytist í útliti nýrrar kynslóðar Skoda Fabia og kannski allra síst prófíllinn. Breytingin er mest á því sem augun sjá ekki eins glöggt eins og efnisvali og vélbúnaði.
Það er ekki margt sem breytist í útliti nýrrar kynslóðar Skoda Fabia og kannski allra síst prófíllinn. Breytingin er mest á því sem augun sjá ekki eins glöggt eins og efnisvali og vélbúnaði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var árið 2000 að fyrstu Fabia-bílarnir komu til Íslands og breyttu algerlega því áliti sem íslenskur almenningur hafði haft á Skoda-merkinu þangað til.

Það var árið 2000 að fyrstu Fabia-bílarnir komu til Íslands og breyttu algerlega því áliti sem íslenskur almenningur hafði haft á Skoda-merkinu þangað til. Burt var farin glósan „Skódi ljóti, spýtir grjóti“ og eftir fjölmiðlakynningu á bílnum skrifaði blaðamaður í staðinn greinina með fyrirsögninni „Skódi sæti, hreint ágæti“. Síðan þá hefur Fabia og stóri bróðir hans Oktavía verið í lykilhlutverki að gera Skoda-merkið að einu vinsælasta bílamerki landsins á þessari öld. Komin er nú þriðja kynslóð minnsta Skódans og prófaði blaðamaður hann í Hvalfirði við fjölbreyttar aðstæður um helgina, líkt og á blaðamannakynningu fyrstu Fabia-bílanna á Íslandi um árið.

Rúmgóður smábíll

Líkt og svo margir aðrir bílar frá Volkswagen-fjölskyldunni þessi misserin er nýr Fabia byggður á MQB-undirvagninum. Það þýðir líka að búið er að styrkja bílinn mikið með léttara en sterkara hágæða stáli og líkt og í öðrum MQB-bílum er búið að lengja hjólhaf og breikka bílinn aðeins. Þrátt fyrir það er bíllinn sjálfur örlítið styttri en fyrirrennarinn en býður samt upp á rýmra farþegarými og stærra skott og þó er hann 65 kílóum léttari. Miðað við aðra bíla í þessum flokki er óhætt að segja að Skoda Fabia sé rúmgóður smábíll. Hann er hærri til loftsins en sést í smábílum sem oftar en ekki vilja vera sportlegir sem þýðir venjulega að búið er að lækka þakið aftur. Því er ekki að heilsa í Fabia sem lætur jafnvel hávaxna hafa nægjanlegt höfuðrými í aftursætum. Fótaplássið er einnig vel viðunandi og munar líka um slétt gólf á milli sætaraðanna. Skottið er það rúmbesta í flokknum með sína 330 lítra sem er langt frá keppinautunum. Frammí er einnig nokkuð vel hugsað um þá sem þar þurfa að sitja, sætin eru nokkuð rúmgóð og stór armpúði gefur góðan stuðning fyrir ökumann. Efnisvalið í innréttingu er með besta móti, plastefni af betri gerðinni og áláferð á miðju mælaborðsins gefur honum sportlegan svip.

Frískleg vél

Það sem er hins vegar sportlegast við bílinn er án efa frískleg 1,2 lítra bensínvélin en í annarri kynslóðinni skilaði hún aðeins 70 hrossum en með forþjöppu er hún nú 110 hestöfl. Eftir að hafa prófað nánast allar gerðir dísilvéla síðustu ár í ört vaxandi vinsældum þeirra er gott að endurnýja kynnin við góða bensínvél. Satt best að segja hafa bensínvélarnar marga kosti líka eins og einfaldleikann, sem má lesa sem ódýrari í viðhaldi ef fólk vill. Margar þeirra koma nú með forþjöppu til að bæta togið til samræmis við dísilvélarnar og framleiðendur bjóða upp á sífellt betri forþjöppur sem skila aflinu fyrr, án hiks eða hávaða. Svo er einmitt farið með þessa vél. Þrátt fyrir að vera með aðeins 1,2 lítra vél verður seint sagt að honum verði afls vants, meira að segja með bílinn fullan af fjölskyldumeðlimum heimilisins og var þá hundurinn meðtalinn. Auðvitað er hann enginn sportbíll en aflinu skilaði hann vel þrátt fyrir að vera sjálfskiptur. DSG-sjálfskiptingin passar líka vélinni mjög vel og er fljót að skipta í réttan gír án þess að maður verði of mikið var við það.

Mjúk fjöðrun

Annar af stórum kostum þessa bíls er hversu hljóðlátur hann er. Gildir einu hvort það er á grófum þjóðveginum í Kjósinni eða grýttum malarvegi. Lítið hljóð berst upp í bílinn gegnum undirvagninn og ekki verður maður heldur svo mikið var við hljóð frá vélinni nema þegar henni er snúið hressilega. Mjúk fjöðrunin kom sér líka vel á mölinni en er kannski aðeins of mjúk þegar reyna skal á hann í kröppum beygjum með meira gripi. Það er talsverð boddívelta fyrir hendi og þar af leiðandi er bíllinn við það að missa grip á því afturhjóli sem fjöðrunin er farin að togna meira á. Eins er fjöðrunin í styttra lagi sem þýðir að hún heggur meira á stærri ójöfnum og vissara að passa sig vel á stóru holunum sem enn finnast á götum Reykjavíkur og víðar. Bíllinn er léttur í stýri og það gefur góða svörun þrátt fyrir alla rafmagnsaðstoðina.

Gott grunnverð

Þegar horft er til búnaðar í nýrri Fabia stenst hann fyllilega samanburð við aðra bíla í þessum flokki en kannski ekkert meira en það. Keppinautar Fabia eru margir, einnig á Íslandi og má þar helst telja bíla eins og Ford Fiesta, Opel Corsa, Renault Clio úr Evrópudeildinni. Grunnverð Opelsins er 2.490.000 kr., þess franska 2.360.000 kr. og Ford Fiesta kostar minnst 2.390.000 kr. svo að Fabia stendur sig vel í þeim samanburði. Prófunarbíllinn var í svokallaðri Ambition-útgáfu og með sjálfskiptingu eins og fyrr segir, en samt kostar hann þannig 3.190.000 kr. Samanburðurinn verður honum ekki alveg eins hagstæður þar, en Fiesta í Titanium-útfærslu sjálfskipt kostar aðeins 2.990.000 kr. og Corsan aðeins 2.890.000 kr. Clio er aðeins fáanlegur sjálfskiptur með dísilvél og samanburður þar því ekki réttmætur.

njall@mbl.is