Blá birtan í mælaborðinu er punkturinn yfir i-ið í verulega vel heppnaðri innréttingu. Álvirkið á miðjustokknum er hluti af R-Design pakkanum sem bílinn prýðir.
Blá birtan í mælaborðinu er punkturinn yfir i-ið í verulega vel heppnaðri innréttingu. Álvirkið á miðjustokknum er hluti af R-Design pakkanum sem bílinn prýðir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Volvo á um þessar mundir ákveðið móment, eins og gjarna er haft á orði um þann sem gengur allt í vil. Sú var tíðin að Volvo var bíll sem skóp sína sérstöðu á markaði með framúrskarandi öryggisþáttum.

Volvo á um þessar mundir ákveðið móment, eins og gjarna er haft á orði um þann sem gengur allt í vil. Sú var tíðin að Volvo var bíll sem skóp sína sérstöðu á markaði með framúrskarandi öryggisþáttum. Annað var einhvern veginn bara bónus og kaupendur gerðu takmarkaðar kröfur umfram það. Sjónarmið þeirra var að tryggja sér sem mest öryggi í umferðinni; ferköntuð hönnun og svolítill traktorabragur í akstri var bara eitthvað sem maður sætti sig við – þannig lagað. En í kringum síðustu aldamót ákvað einhver gæfumaðurinn inni á gafli hjá Volvo að öryggi, flott útlit og skemmtilegir aksturseiginleikar þyrftu ekki að vera gagnkvæmt útilokandi eiginleikar og síðan hefur hinn sænski framleiðandi ekki litið um öxl. Á meðan svali sveitunginn, SAAB, sem þótti lengst af fetinu framar hvað útlitið varðar, er á hraðri leið í glatkistuna er völlurinn á Volvo slíkur að það eina sem manni kemur í hug að segja er: „Hvað gerir Volvo eiginlega næst?“

Rífandi sexí skutbíll

Í augnablikinu er nýi XC90-jeppinn mál málanna hjá Volvo og ekki að undra því að hann hefur alls staðar fengið fyrirtaks dóma og selst eins og heitar lummur. Því er rétt að gefa öðrum bílum hins sænska framleiðanda gaum og þá er ekki amalegt að taka hús á skutbílnum V60 D4 R-Design. Fyrir 20 árum hefði hugmyndin um reffilegan Volvo Station með sportlega aksturseiginleika þótt barnaleg í besta falli, en þessi hér er á pari við þá bestu þegar allt er sett upp á strik. Skyndilega er skutbíll frá Volvo orðinn verulega tælandi valkostur. Útlitið er nefnilega allt hið flottasta. Straumlínulöguð yfirbyggingin hreinlega lofar manni skemmtun við fyrstu sýn. Framhallandi húddið gefur bílnum það yfirbragð að hann sé búinn að taka sér stöðu og muni á hverri stundu rjúka af stað. Voldugar álfelgurnar fara honum sérlega vel og þessi bíll er flottastur á fimm arma felgum sem loftar vel um. Afturendinn er að sama skapi glettilega vel heppnaður og neðri brún stuðarans, með tvöföldu pústi í krómhulsum, er framúrskarandi flott.

Að innan hefur Volvo dottið niður á einfaldan en um leið sérlega smekklegan frágang sem er með áþekkum hætti gegnumgangandi í módelum framleiðandans. Allt sem ökumaður þarf að eiga við er innan seilingar, sniðuglega raðað niður stjórntækjapanelinn og það þarf ekkert handapat til að finna út úr því sem finna þarf. Auk þess er víðtækt úrval aðgerðastýringa í stýrishjólinu, sem auðveldar afgreiðslu mála til muna. Þar má meðal annars skipta milli þriggja „prófíla“ eða svipmóta fyrir bílinn, og stendur valið um Elegance, ECO og Performance. Þegar bílnum hefur verið ekið um stund blasir við að síðastnefnda stillingin verður oftast fyrir valinu því þetta er bara þannig bíll.

Sportlegur útlits og í akstri

R-Design merkir að hér er vel í lagt hvað hönnunarþáttinn varðar. Það er hverjum ökumanni augljóst um leið og sest er inn í bílinn. Blá ljós í mælaborði og álsleginn miðjustokkur auka bara á eftirvæntinguna eftir bíltúrnum og hurðaskellurinn er þéttur og traustvekjandi. Sætin hafa verulega upphleyptan hliðarstuðning og eru frekar stíf við setu; alls ekki svo óþægilegt sé, öðru nær. Stýrið, klætt nappa-leðri, er einkar þægilegt og mátulega stamt viðkomu til að halda vel í þegar lagt er í hann. Þegar ekið er svo af stað kemur berlega í ljós að öll fyrirheitin sem felast í hönnun og útliti bílsins eru langt því frá að vera út í bláinn. Fyrst er að nefna gírkassann. Hann er einfaldlega framúrskarandi skemmtilegur, átta þrepa sjálfskiptur, og svo viðbragðsfljótur að unun er að reyna. Upptakið er feikigott og skiptingarnar þaðan í frá nánast fullkomlega tímasettar og aflið ríflegt í hverju þrepi. Togið er hörkugott og það þarf að hafa töluvert fyrir því að toppa þennan úr kyrrstöðu á ljósum. Fyrir þá sem vita betur eru flipar sitthvoru megin við stýrið til að handstýra skiptingunni en það er ekki hlaupið að því að gera betur en gírkassinn. Fjöðrunin er skemmtilega stíf og sportleg og bíllinn steinliggur á vegi, þökk sé 18 tommu álfelgum og vel breiðum dekkjum. Ef tekið er á því örlar á undirstýringu en það er ekki fyrr en í fulla hnefana og þá er gott að minna sjálfan sig á að hér er um Volvo Station að ræða, ótrúlegt en satt. Þvílík skemmtun!

Um öryggið er óþarfi að fjölyrða á þessum vettvangi en bílaáhugamenn vita sem er að þar hafa fáir staðist Volvo snúninginn síðustu áratugi.

Umhverfisvænn með afbrigðum

Maður skyldi ætla að jafn mikill sportbíll gengi þvert á þær flottu tölur sem Volvo hefur verið að ná í eldsneytisnotkun og útblæstri en aftur er hætt við því að fara þar villur vegar því að tölurnar fyrir þennan bíl koma skemmtilega á óvart og vel það. Sparneytnin er gapandi góð (reyndar tókst ekki alveg að halda bílnum í innanbæjarakstri í uppgefnum 4,2 lítrum en það munaði svo sem engum ósköpum) og CO2-gildið ekki nema 112 grömm á hundraðið. Öll þessi skemmtun án þess að umhverfið þurfi að líða fyrir það? Magnað!

Í samkeppninni við skutbíla á borð við Audi A4 og BMW 3-Series hefur Volvo búið til einstaklega aðlaðandi valkost sem hefur útlitið, aksturseiginleikana og öryggið með sér og er umhverfisvænn í ofanálag. Allt í allt er Volvo V60 D4 R-Design einfaldlega leiðandi valkostur í sínum flokki.

jonagnar@mbl.is