Meira að segja miðjusætið er með Isofix festingum fyrir barnabílstóla sem segir nokkuð um plássið í aftursætum.
Meira að segja miðjusætið er með Isofix festingum fyrir barnabílstóla sem segir nokkuð um plássið í aftursætum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkeppnin á lúxusjeppamarkaðinum hefur sjaldan verið meiri og strax í kjölfar nýs Volvo XC90 kemur ný kynslóð Audi Q7. Nýi jeppinn er þó alls enginn eftirbátur nema síður sé og er meiri bíll í alla staði.

Samkeppnin á lúxusjeppamarkaðinum hefur sjaldan verið meiri og strax í kjölfar nýs Volvo XC90 kemur ný kynslóð Audi Q7. Nýi jeppinn er þó alls enginn eftirbátur nema síður sé og er meiri bíll í alla staði. Hann er líka fyrsti bíllinn frá Volkswagen-verksmiðjunum til að vera byggður á nýja MLB undirvagninum. Sá er hannaður fyrir vélar sem eru fram í og hafðar langsum og getur sparað nýjum Q7 allt að 325 kíló í eigin þyngd.

Þægindin í fyrirrúmi

Við fyrstu sýn virðist Audi Q7 ekki mikið breyttur og minnir hann kannski meira á ofvaxinn langbak frekar en stóran sjö manna jeppa. Samt er meira af öllu í þessum bíl og þá aðallega plássi, þrátt fyrir að bíllinn sé bæði styttri og mjórri en fyrri kynslóð. Þægindin eru í fyrirrúmi í Q7 og fjölstillanleg framsætin eins þægileg og bílsæti geta orðið. Hægt er að færa öll aftursæti fram og til baka til að auka til dæmis fótapláss fyrir öftustu sætin tvö. Til að auka enn á þægindin er aftasta sætaröðin með rafdrifinni fellingu. Plássið í aftursætum er sérstaklega gott og sem dæmi um það er miðjusætið sem er með Isofix-festingum eins og hin tvö, en það sést mjög sjaldan í bílum. Fótapláss í öftustu sætaröðinni er hins vegar af skornum skammti nema að miðjusætaröðin færi sig í fremstu stöðu og verður það þá þolanlegt.

Mikill en flókinn búnaður

Audi Q7 er bókstaflega hlaðinn staðalbúnaði og má þar nefna rafdrifinn afturhlera, Xenon aðalljós, regnskynjara, árekstrarvara og tvískipta miðstöð. Einnig er 4G nettenging með tengibúnaði fyrir bæði Apple- og Andriod-síma staðalbúnaður sem og 7 tommu litasjár. Rafstýrt, upphitað aðgerðarstýri, nálgunarvari með búnaði sem hjálpar ökumanni að leggja bílnum í stæði og loftpúðafjöðrun er svo dæmi um staðalbúnað í S-line-útfærslunni sem blaðamaður hafði til reynsluaksturs. Allur þessi búnaður er góður og gildur en það þarf líka að læra á hann og þrátt fyrir að greinarhöfundur sé ýmsu vanur í þeim málum tók það hann dágóða stund að átta sig á öllum stjórnbúnaði. Það er frekar óþægileg tilfinning að þurfa að leita að svartakkanum í öllu takkaflóðinu þegar síminn hringir eða að reyna að finna út úr því hvar síðasta númerið sem hringt var í er í öllu upplýsingaflóðinu. Hönnuðir Audi reyna að leysa það með flýtihnöppum á snertiplötu fyrir framan gírstöngina, en þar má líka fletta á skjánum líkt og gert er í spjaldtölvu. Hvers vegna í ósköpunum þeir settu ekki snertimöguleikann í skjáinn er undirrituðum þó hulið.

Einstakur akstursbíll

Það sem dæmir flesta bíla framar öllu er hvernig tilfinning er að keyra þá og þar á Audi Q7 fáa sína líka í sportjeppadeildinni. Akstur hans minnir meira á stóran fólksbíl heldur en jeppa enda liggur hann afar vel á vegi þrátt fyrir stærðina. Sem betur fer ákvað söludeild Heklu að taka hann ekki með minnstu dísilvélinni, en með 272 hestafla vélinni hefur hann afl sem ætti að duga vel flestum, enda er upptakið aðeins 6,3 sekúndur með þeirri vél. Er hún mun gáfulegri kostur en 333 hestafla TFSI-vélin sem er aðeins 0,2 sekúndur sneggri í hundraðið en eyðir tveimur lítrum meira á hundraðið og mengar talsvert meira. Auk þess kostar hann töluvert meira með bensínvélinni, eða sem munar 1.700.000 kr. Aður en langt um líður er von á Q7 í e-Tron-útgáfu sem er samtals 373 hestöfl og er álitlegur kostur fyrir margar sakir. Sá kemur með sömu dísilvélinni en hún er mjög hljóðlát, einnig þegar staðið er fyrir utan bílinn. Prófunarbíllinn kom á 21 tommu álfelgum en þrátt fyrir það var akstur bílsins einstaklega hljóðlátur.

Prófunarbíllinn var nokkurs konar tæknisetur á hjólum og meðal búnaðar var ýmiss öryggisbúnaður sem maður sér ekki á hverjum degi. Líkt og í Volvo XC90 er hann með akreinavara sem hjálpar ökumanni að halda bílnum á réttum stað á veginum, ef athygli hans reikar annað. Að vísu þarf nokkuð skýrar og reglulegar línur báðum megin við bílinn til að sá búnaður virki vel. Eins var hann með virkum hraðastilli sem fylgist með umferðinni á undan og stillir hraða bílsins eftir því. Næturmyndavél var líka skemmtilegur aukabúnaður sem sýnir vel lifandi hluti í myrkri en framrúðuskjárinn (Head up Display) var sýnu bestur af þessum öryggisbúnaði og sá besti sem undirritaður hefur reynt í bílum hingað til.

Nokkuð gott verð

Grunnverð Audi Q7 með 272 hestafla dísilvél er 11.890.000 kr. en það er nokkuð stíft þegar horft er á aðalkeppinaut hans í dag sem er Volvo XC90. Sá kostar frá 10.590.000 kr. og í dýrustu Inscription-útfærslu sinni kostar hann það sama og Q7 í grunnútfærslu. Mercedes-Benz GL er talsvert fyrir ofan Q7 í verði en ódýrasta útgáfa hans kostar 15.110.000 kr. Sama má segja um Range Rover Sport sem kostar frá 14.750.000 kr. með þriggja lítra dísilvélinni. Porsche Cayenne er svo frá 13.790.000 kr. með dísilvél svo að verðið á Audi er ekki svo slæmt í heildarsamanburðinum.

njall@mbl.is