Hyundai Tucson er laglegur bíll sem tekið er eftir í akstri. Grillið er áberandi og axlalínan hækkar aftur sem gefur honum mjög ákveðið útlit sem hvöss ljóskerin með díóðuljósum undirstrika.
Hyundai Tucson er laglegur bíll sem tekið er eftir í akstri. Grillið er áberandi og axlalínan hækkar aftur sem gefur honum mjög ákveðið útlit sem hvöss ljóskerin með díóðuljósum undirstrika. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hyundai Tucson er kominn aftur fram á sjónarsviðið eftir nokkra bið en hann leysir af hólmi ix35-jepplinginn. Sá bíll var vinsæll meðal Hyundai-bíla enda var um 20% sölu þeirra ix35, sem aldrei náði viðlíka vinsældum hérna heima.

Hyundai Tucson er kominn aftur fram á sjónarsviðið eftir nokkra bið en hann leysir af hólmi ix35-jepplinginn. Sá bíll var vinsæll meðal Hyundai-bíla enda var um 20% sölu þeirra ix35, sem aldrei náði viðlíka vinsældum hérna heima. Vinsælasti Hyundai-jepplingurinn hérlendis var fyrsta kynslóð Santa Fe-jepplingsins en með nýjum Tucson má segja að kominn sé bíll af svipuðum stærðarflokki sem hentar vel fjölskyldufólki.

Rúmgóður á alla kanta

Það sem vekur fyrst athygli við Tucson er sportlegt útlit hans. Grillið er áberandi og axlalínan hækkar aftur sem gefur honum mjög ákveðið útlit sem hvöss ljóskerin með díóðuljósum undirstrika. Að aftan eru samskonar díóðuljós með stórri vindskeið og tvöföldu pústi. Langt er á milli hjóla sem gerir sitt til að búa til meira pláss í þessum nýja bíl. Hyundai Tucson er nefnilega rúmgóður bíll á alla kanta. Framsætin eru þægileg þótt setan mætti vera örlítið lengri og aftursætin ráða létt við þrjá fullorðna með ágætis fótarými. Farangursrýmið er það stærsta í flokknum og tekur 513 lítra. Eina sem hægt er að setja út á það er hversu breiðar hjólaskálarnar eru og taka pláss frá gólfrými. Hægt er að fella niður sæti og stækkar þá rýmið upp í 1.503 lítra.

Mælaborð Tucson er vel útfært með stórum og skýrum tökkum og fyrir miðju er átta tommu snertiskjár, en auk þess er upplýsingaskjár milli mælanna.

Aðdráttur á stýri er frekar stuttur svo að undirritaður þurfti að sitja bæði framar og hærra en hann hefði helst kosið.

Stinnur á fjöðrun

Í akstri virkar Tucson bæði sportlegur og gæðalegur í senn. Stýrið er létt en samt öruggt og gefur góða tilfinningu fyrir akstrinum. Fjöðrunin er stinn og bíllinn er mjög rásfastur í gegnum hvaða beygju sem er. Við reyndum bílinn einnig á holóttum malarvegum og þá finnst vel hversu stinn fjöðrunin er þar sem höggin glymja upp í káetuna.

Það hefur sitt að segja að prófunarbíllinn var á 19 tommu dekkjum og eflaust yrði hann talsvert mýkri á 17 tommu dekkjunum. Tucson er frekar hljóðlátur í akstri og er veghljóð ekki mikið þrátt fyrir 19 tommu dekkin.

Vélin er þokkalega öflug í byrjun en missir svo aðeins afl þegar hún kemur ofar á snúningssviðið og heyrist þá líka aðeins í henni. Fyrir þá sem vilja meira afl er 1,6 lítra bensínvélin með forþjöppu góður kostur því að hún er ekki langt frá dísilvélinni í eyðslu.

Sú vél er líka með sjö þrepa sjálfskiptingu með tveimur kúplingum, í stað sex þrepa skiptingarinnar í dísilbílnum. Skiptingin í dísilrokknum virkar létt og örugg í skiptingum en vill hanga of lengi í lægri gír þegar upptakið hefur verið nýtt til fullnustu, í stað þess að skipta sér upp í hærri gír þegar slakað er á bensíngjöfinni.

Til að auka torfærugetu Tucson, sem er nokkur fyrir jeppling, er læsing milli ása og brekkuviðnám staðalbúnaður.

Í dýrari kantinum

Meðal helstu keppinauta Tucson eru Mazda CX-5, Nissan Qashqai og hinn náskyldi Kia Sportage. Sportage er á talsvert betra verði í grunninn eða 4.790.777 kr. og gegnumsneitt er hann um 700.000 kr. ódýrari en Tucson miðað við útfærslur. Taka þarf þó tillit til þess að Kia Sportage er eldri kynslóð sem brátt verður leyst af hólmi. Nissan Qashqai með fjórhjóladrifi kostar minnst 4.890.000 kr. sem er líka betra verð en í boði er í Tucson. Mazda CX-5 er hins vegar á sama grunnverði og Tucson en þar er líka samanburður í stærð aðeins sanngjarnari.

njall@mbl.is