Staðsetning handbremsu undir stýri er illskiljanleg þar sem vel hefði mátt koma henni fyrir á betri stað í miðjustokki bílsins.
Staðsetning handbremsu undir stýri er illskiljanleg þar sem vel hefði mátt koma henni fyrir á betri stað í miðjustokki bílsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýr og endurbættur Toyota Avensis var kynntur til leiks í sumar og þótt bíllinn væri mikið breyttur af Toyota Europe var hann ennþá í grunninn sami bíll og fyrst kom fram á sjónarsviðið árið 2009.

Nýr og endurbættur Toyota Avensis var kynntur til leiks í sumar og þótt bíllinn væri mikið breyttur af Toyota Europe var hann ennþá í grunninn sami bíll og fyrst kom fram á sjónarsviðið árið 2009. Blaðamaður Morgunblaðsins prófaði bílinn í Sviss og þá var hann prófaður með CVT sjálfskiptingu og sem langbakur. Blaðamanni bauðst að prófa beinskipta bílinn á dögunum með 1,6 lítra dísilvélinni sem er fengin frá BMW. Var um svokallaða stallbaksútfærslu að ræða og grunngerð bílsins sem kallast Live.

Þægindi á langkeyrslu

Innréttingin í nýjum Avensis er töluvert betri og efnismeiri en áður og meira af mýkri plastefnum notað en áður. Handbremsan er rafstýrð en fer ekki sjálfkrafa á nema bíllinn sé í halla. Staðsetning hennar er líka undir stýri hægra megin svo að það er frekar óþægilegt að teygja sig í hana. Sætin hafa einnig batnað og eru þægileg á langkeyrslu þótt hæðarstilling sé aðeins bílstjóramegin, en vinsældir bílsins í Evrópu miðast gjarnan við flotasölu þar sem þægindi á langkeyrslu skipta höfuðmáli. Eini ókosturinn við þægindin er hversu langt er að teygja sig í stýrishjólið jafnvel þótt það sé komið í öftustu stöðu. Live-útfærslan er mjög lítið búin grunnbúnaði og sumir myndu jafnvel ganga svo langt að kalla hana Harlem-útgáfu. Það er eiginlega á skjön við annars gæðalegt útlit hans innandyra að sjá aðeins hefðbundna miðstöð, ekkert upplýsingakerfi eða símabúnað og ekki einu sinni upphituð sæti. Vel fer um fjóra fullorðna í framsætum og aftursætum en fimmti farþeginn verður dálítið aðþrengdur í miðjunni. Sem betur fer er farangursrýmið rúmgott og djúpt svo það rúmar vel stóra hluti, en nær samt ekki að komast nálægt þeim bílum sem best gera í þessum flokki.

Þarf að hafa fyrir vélinni

Dísilvélin frá BMW er 1,6 lítra og skilar sínu alveg þokkalega en ekkert meira en það. Hestöflin eru aðeins 112 en togið er ívið betra eða 270 Newton-metrar. Það þarf að nota gírana sex nokkuð mikið til að hún haldi góðum dampi og á þjóðvegi þurfti stundum að skipta niður í fjórða gír svo hann héldi við á eðlilegum umferðarhraða. Það sést best á því að hámarkstogi er náð á milli 1.750 og 2.250 snúninga og best að halda sér innan þess snúnings til að vélin vinni almennilega. Vélin sjálf er þýðgeng og hljóðlát og þá einnig þegar hún er að vinna á snúningi. Sem betur fer eru gírskiptingar í gegnum sex gíra kassann léttar og auðveldar. Uppgefin meðaleyðsla bílsins eru 4,2 lítrar á hundraðið en samkvæmt aksturstölvu bílsins var meðaleyðslan eftir um 300 km reynsluakstur 6,2 lítrar sem er talsvert frá því, en taka skal með í reikninginn að hann var á vetrardekkjum og tiltölulega kalt í veðri. Bíllinn er tiltölulega mjúkur í akstri þrátt fyrir að fjöðrun hans er nú stífari en áður. Það er helst að það finnist vel á hraðahindrunum þegar fjöðrunin slær snöggt til baka en nær samt að strjúka svuntunni í malbikið. Aksturseiginleikar koma nokkuð á óvart en hann er stöðugur í akstri þrátt fyrir að reynt sé á hann í beygjum og missir ekki grip svo auðveldlega. Tilfinning í stýri mætti vera meiri en rafmagnsaðstoð er fullmikil svo að það virkar of létt á litlum hraða og í þyngra lagi á vegum úti.

Stærðarflokkurinn sem Avensis tilheyrir er talsvert vinsæll ennþá þótt jepplingar hafa herjað mikið á þann kaupendahóp hérlendis sem erlendis. Helstu keppinautar hans eru margir eins og til dæmis Ford Mondeo, Mazda6, Honda Accord og VW Passat.

Ódýrasti dísilbíllinn

Grunnverð Avensis er allgott eða 3.890.000 kr. fyrir 1,8 lítra bensínbílinn en með 1,6 lítra dísilvélinni kostar hann frá 4.280.000 kr. Grunnverð nýs Passat er aðeins 100.000 kr. hærra en talsvert munar á 1,6 lítra dísilvélinni þar sem Passatinn kostar 5.340.000 kr., að vísu sjálfskiptur. Svipað er uppi á teningnum hjá Ford Mondeo en ódýrasta Trend-útfærslan kostar einnig frá 3.990.000 kr. Dísilvélin í boði er að vísu tveggja lítra og aðeins með sjálfskiptingu og kostar hann þannig frá 5.090.000 kr. Enn stækkar dísilvélin í samanburði þegar komið er að Mazda6 en eina dísilvélin í boði þar er 2,2 lítra og þá ekki fyrr en í Vision-útfærslu sem er milliútfærsla bílsins. Með þeirri vél og beinskiptingu byrjar Mazda6 í 4.890.000 kr. en í Core-útfærslu með tveggja lítra bensínvél kostar Mazda6 einnig 3.990.000 kr. Því miður er einn helsti samkeppnisaðili Avensis á árum áður, Honda Accord aðeins fáanlegur sem langbakur með tveggja lítra bensínvél og sjálfskiptur og því ekki hægt að taka hann með í þessum samanburði. Aðeins kóresku samkeppnisaðilarnir Kia Optima og Hyunda i40 Sedan ná að komast eitthvað nálægt honum í verði með 1,7 lítra dísilvélunum sínum og Hyundai þá ívið ódýrari á 5.490.000 kr. Það sem stendur upp úr er að Avensis 1,6 er eftir allt langódýrasti dísilbíllinn í þessum flokki og því talsvert hagkvæmur kostur þrátt fyrir að vera meðalmennskan uppmáluð.

njall@mbl.is