Mitsubishi L200 er kraftmikill pallbíll með mikla drifgetu og því var 40 cm nýfallinn snjórinn honum engin fyrirstaða.
Mitsubishi L200 er kraftmikill pallbíll með mikla drifgetu og því var 40 cm nýfallinn snjórinn honum engin fyrirstaða.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar það snjóar eins og enginn sé morgundagurinn er fátt um fína drætti fyrir bílablaðamenn. Þess vegna var það eins og himnasending að fá eitt stykki fjórhjóladrifinn Mitsubishi L200 pallbíl til prófunar í öllum snjónum.
Þegar það snjóar eins og enginn sé morgundagurinn er fátt um fína drætti fyrir bílablaðamenn. Þess vegna var það eins og himnasending að fá eitt stykki fjórhjóladrifinn Mitsubishi L200 pallbíl til prófunar í öllum snjónum. Nýi bíllinn er fimmta kynslóð þessa vinsæla pallbíls sem seldist vel á Íslandi þegar innflutningsgjöld voru pallbílum hagstæð og þeir báru lægri vörugjöld en sambærilegir jeppar. Nú er tíðin önnur og þess vegna skiptir máli að þeir mengi minna en áður, sem nýr L200 gerir einmitt með nýrri 2,4 lítra dísilvél með forþjöppu.

Ný og léttari vél

Nýja MIVEC-dísilvélin er eina vélin í boði í þessum bíl og satt best að segja dugar hún vel þrátt fyrir að vera aðeins 2,4 lítra. Þetta er nýtískuleg vél með breytilegum stillingum á forþjöppu eftir átaki, breytilegum ventlastýribúnaði og notar mikið af áli. Þess vegna er eyðsla hennar aðeins 7,2 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri, sem er 15% minna en í fyrri kynslóð og CO 2 útblástur því aðeins 173 g/km. Til samanburðar er CO 2 innihald Toyota Hilux með 2,5 lítra dísilvél með beinskiptingu 193 g/km og mjög svipað í Isuzu D-Max með sömu stærð af vél og beinskiptingu, eða 194 g/km. Vélin er fljót að skila aflinu og það virkar jafnt upp allt snúningssviðið. Upptakið í L200 er aðeins 10,4 sekúndur í hundraðið sem verður að teljast gott fyrir pallbíl og rúsínan í pylsuendanum er hversu þýðgeng hún er og laus við titring, einnig á lágsnúningi.

Fyrir vikið er L200 án efa hljóðlátasti pallbíll sem undirritaður hefur prófað. Prófunarbíllinn var búinn sex gíra beinskiptingu sem var þægileg í skiptingum, nema kannski þegar kom að því að setja í bakkgír sem var helst til stífur. Hægt er að stilla Super Select fjórhjóladrifið gegnum einn takka í miðjustokki, en L200 er eini pallbíllinn sem hægt er að keyra í hvort sem er afturhjóladrifi eða fjórhjóladrifi við hvaða aðstæður sem er. Kosturinn við að geta sett hann í fjórhjóladrifið í háa er aukið veggrip í bleytu og meira grip þegar bíllinn er með þungt í drætti. Hægt er svo að læsa millikassa í bæði háa og lága drifinu. Búið er að endurhanna framfjöðrun og stýrisgang og lengja blaðfjaðrir að aftan svo að aksturinn er mýkri en áður án þess að það komi niður á flutningsgetu hans.

Besta flutningsgetan í flokknum

Ný kynslóð Mitsubishi L200 er mun klassískari í hönnun en fyrri kynslóð sem þótti fara ótroðnar slóðir. Sumt í hönnun hans heldur þó áfram eins og J-laga línan milli farþegarýmis og pallsins. Mun meira er af krómi utan á bílnum og þá sérstaklega á framenda hans. Að innan er plastið allsráðandi en þar sem þetta er pallbíll er honum fyrirgefið meira en ef um nýtískulegan jeppa væri að ræða. Hönnunin kemur að nokkru leyti frá Outlander en sjá má sams konar búnað, eins og upplýsingasjá fyrir hljómtæki með hljóðstyrkstakkann vitlausum megin. Sætin frammí eru stór og þægileg en eins og í pallbílum af þessari stærð situr maður dálítið flötum beinum.

Þá kemur sér vel að hægt er að stilla aðdrátt á stýri sem ekki var hægt í gamla bílnum. Nóg pláss er í aftursætum fyrir þrjá fullorðna sem mega þó ekki vera of langir því að höfuðrými er af skornum skammti fyrir þá sem eru komnir yfir 180 sentimetra. Samanlögð flutningsgeta L200 er sú mesta í flokknum en samtals getur hann flutt 4.090 kg en hann getur dregið 3.100 kg og borið tonn í pallinum. Hann fer því létt með að flytja stórt pallhýsi eða tveggja öxla kerru af stærstu gerð án fyrirhafnar.

Í lægri vörugjaldaflokki

MMC L200 kemur vel búinn í bæði beinskiptri og sjálfskiptri útgáfu. Meðal staðalbúnaðar má nefna upplýsingaskjá, blátannarbúnað fyrir síma, loftkælingu, bakkmyndavél og regnskynjara. Í prófunarbílnum var auk þess búið að koma fyrir akreinavara sem er búnaður sem maður hefur ekki séð áður í pallbíl en getur komið sér vel. Þótt ekki sé búið að prófa hann hjá EuroNCAP má búast við góðri útkomu en L200 er með hvorki fleiri né færri en sjö öryggispúða. Toyota Hilux með 2,5 lítra dísilvél í sambærilegri SR útgáfu kostar frá 7.340.000 kr. sjálfskiptur. Nýr L200 er á mjög svipuðu verði, 7.390.000 kr. Isuzu D-Max er aðeins ódýrari á 7.090.000 kr. sjálfskiptur í Lux-útgáfu. Þar sem L200 fellur í 35% tollflokk í stað 45% eins og hjá helstu keppinautum hefði verðið kannski getað verið lægra en það verður þó að teljast vel samkeppnishæft.

njall@mbl.is