Passat Alltrack er skemmtilegur í akstri og á lausu undirlagi er hann jafnvel nokkuð yfirstýrður sem gerir hann bætir við skemmtanagildið.
Passat Alltrack er skemmtilegur í akstri og á lausu undirlagi er hann jafnvel nokkuð yfirstýrður sem gerir hann bætir við skemmtanagildið. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
+ Aksturseiginleikar, mælaborð, vél _ Hörð sæti, litlir hliðarspeglar, verð
Nýr Passat kom, sá og sigraði í fyrra og var meðal annars valinn bíll ársins í Evrópu með fáheyrðum mun. Á Íslandi laut hann þó í lægra haldi fyrir hinum nýja Volvo XC90, en nú er komin útfærsla sem gerir hann jepplingslegri, en það er svokölluð Alltrack-útgáfa. Í þeirri útfærslu fær hann stærri stuðara og brettaútvíkkanir auk hærri fjöðrunar. Einnig eru meiri hlífar undir bílnum og fjórhjóladrifið fær hugbúnað sem líkir eftir tregðulæsingu. Morgunblaðið fékk vel útbúna útfærslu af bílnum með 190 hestafla dísilvélinni á dögunum og fékk hann að reyna sig við ýmsar aðstæður í snjónum.

Skemmtilega yfirstýrður

Þrátt fyrir aukna veghæð er bíllinn með næstum jafngóða aksturseiginleika og hefðbundinn Passat og munar þar eflaust um fjórhjóladrifið sem gerir hann mjög stöðugan á vegi. Það sama á við þegar farið er að keyra við erfiðari aðstæður eins og á möl og í snjó en þar fær hann jafnvel aðeins of mikið afl á afturdrifið svo að hann yfirstýrir sig út úr beygjum ef frísklega er gefið inn. Það gerir hann bara að skemmilegri akstursbíl, sem er kærkomin undantekning frá afskiptasamri akstursaðstoð sem einkennir bíla nú til dags. Bíllinn er 28 mm hærri og hæð undir lægsta punkt 174 mm sem þýðir að hann er aðeins mýkri á fjöðrun en óbreyttur Passat. Tvær vélar eru í boði í bílnum en þar sem að flestir vilja þennan bíl með sjálfskiptingu er 190 hestafla vélin skynsamlegasti kosturinn. Þótt 150 hestafla vélin dugi flestum þegar að afli kemur kemur sex þrepa DSG-sjálfskiptingin vel út í þessum bíl.

Hlaðinn búnaði

Að innan er hann að mestu eins og venjulegur Passat sem er vel útbúinn aukahlutum enda er staðalbúnaður ríflegur í þessum bíl. Prófunarbíllinn var með stafrænu mælaborði og átta tommu skjánum sem eru aukahlutir sem óhætt er að mæla með. Segja má að Alltrack sé vel búinn fyrir íslenskar aðstæður því þar má meðal annars nefna hita í öllum sætum, hita í stýri, díóðulýsingu í skammdeginu og íslenskt leiðsögukerfi. Plássið er gott fyrir alla fimm farþegana og það þótt þeir séu fullorðins. Sætin eru þó í harðari kantinum og það á sérstaklega við um framsætin. Útsýni er gott aftur með bílnum en litlir hliðarspeglar gera það að verkum að vissara er að líta yfir öxlina í stað þess að treysta á að þeir veiti fulla sýn. Farangursrýmið gleypir kynstrin öll af farangri, enda 639 lítrar sem er aðeins 11 lítrum minna en í Passat Variant, en það er svo stækkanlegt í 1.769 lítra. Minna farangursrými kemur til vegna þess að varadekkið er í fullri stærð sem er lúxus sem maður er farinn að sjá minna og minna af.

Gott verð miðað við búnað

VW Passat Alltrack er bíll sem keppir við systurbílinn Octavia Scout og Subaru Outback. Óhætt er að segja að Alltrack er sá best búni af þeim öllum, en grunnverð hans er 6.690.000 kr. Skoda Octavia Scout er á 6.110.000 kr. sjálfskiptur með 184 hestafla vélinni og er því ódýrastur í þessum flokki þar sem Subaru Outback byrjar í 6.390.000 kr. sjálfskiptur með dísilvélinni. Eiginlega þarf hann að fara upp í LUX-útfærslu til að komast nálægt hinum tveimur í búnaði og þá er hann líka kominn í 6.790.000 kr. Hvort þetta verð sé svo gott, þegar horft er til hversu vel búna jepplinga hægt er að fá fyrir lægra verð en þessir eru boðnir á, er svo annað mál.