Land Cruiser 150 Luxury reyndist fyrirtak í snjó enda drifbúnaður með allra besta móti.
Land Cruiser 150 Luxury reyndist fyrirtak í snjó enda drifbúnaður með allra besta móti. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
+ Ríkulegur búnaður, aksturseiginleikar. - Skortur á togi
Það er kunnara en frá þurfi að segja að Land Cruiser jepparnir frá Toyota hafa um áratugaskeið verið með þeim vinsælustu hérlendis, og lætur nærri að tala megi um trúarbrögð þegar dálæti sumra á þessum ágætu jeppum er annars vegar. Flaggskipið framan af var hinn stæðilegi Land Cruiser 100 og arftakinn var svo Land Cruiser 200. Þetta eru með stærstu jeppunum á götunum, með verðmiða í takt, og því sjálfkrafa stöðutákn. Til marks um vinsældirnar má nefna að Land Cruiser 120 var á sínum tíma mest seldi bíllinn á Íslandi, sem eru fáheyrðar vinsældir.

Til tíðinda dró þann 1. september síðastliðinn þegar mengunarstaðallinn Euro 6 tók gildi fyrir bensín- og díselvélar í bílum. Toyota ákvað að bjóða ekki Land Cruiser 200 með vélum sem uppfylla nýja staðalinn og þar af leiðandi er hann ekki lengur í boði meðal nýrra Toyota-bíla í Evrópu, og þar með talið hér á Íslandi.

Lúxusútgáfa fyrir landann af Land Cruiser 150

Augljóst er að nokkurt tómarúm myndaðist við þetta hjá Toyota á Íslandi og hinum hundtryggu kaupendum og til að mæta viðvarandi eftirspurn eftir nýjum og veglegum Land Cruiser hefur Toyota á Íslandi riðið á vaðið og býður nú upp á sérstaka lúxus-útgáfu af 150-gerðinni, sem kallast einfaldlega Land Cruiser 150 Luxury. Land Cruiser 150 hefur þegar verið tekinn til kostanna hér í þessu blaði af undirrituðum svo ekki skal eytt plássi í endurtekningar á sameiginlegum þáttum heldur reynt að benda á sérstöðu Luxury-útgáfunnar sérstaklega.

Óhætt er að segja að bíllinn sé drekkhlaðinn búnaði og þeir sem vilja hafa allt til alls fá hér nokkuð fyrir snúð sinn.

Meðal þess helsta sem ber þar að nefna eru JBL hljómflutningstæki, sem eru hreint framúrskarandi enda sjá hvorki fleiri né færri en 14 hátalarar um að skila tærum og þéttum hljómi í hlustirnar. Ég ætla að fá að sletta hér og segja að „sándið“ er rosalegt, og gildir einu hvar í bílnum setið er. Sama er uppi á teningnum hvað varðar hita í sætum; farþegar í aftursæti sitja þar við sama bekk – ef svo má að orði komast – og þeir sem fram í eru, því 150 Luxury er með hita í aftursætum og féll það vel í kramið hjá farþegum sem fengu far er bíllinn var prófaður því þá var verulega hryssingslegt í veðri.

Myndarleg sóllúga er í þakinu, rándýrt viðarstýri, Blue Ray afþreyingarkerfi (sem inniheldur niðurfellanlegan skjá uppi í lofti fyrir farþega í aftursæti, verulega flott), og minnisstillingar í ökumannssæti. Þá er hin óviðjafnanlega skriðstýring, sem kallast Crawl Control – staðalbúnaður og það verður að minnast á þann stórmerkilega búnað í svip. Þegar stillt er á Crawl Control tekur ökumaður bensínfótinn af petalanum og bíllinn fikrar sig áfram, um leið og hann metur undirlagið framundan. Magnaður búnaður sem mjög gaman var að reyna. Bíllinn er þá með 100% læsingu á afturdrifi og AVS loftpúðafjöðrun sem sér til þess að hann líði um á silkimjúku skýi, og eru þrjár stillingar í boði varðandi hæð bílsins.

Krafturinn hefði að ósekju mátt vera meiri

Af framangreindu blasir við að Land Cruiser 150 Luxury er þæginda- og munaðarsetur. Það er ekki í kot vísað í „hefðbundnum“ 150-bíl en hér er upplifunin tekin á annað stig.

Þó er það ekki svo að hvergi sé snöggan blett að finna. Jeppinn er til að mynda ferlega seinn af stað, er heilar þrettán sekúndur upp í hundraðið og upptakið er hvæsandi áreynsla með heldur takmörkuðu togi. Nú býst enginn við að jeppi af þessu tagi rjúki endilega af stað eins og sportbíll, en samt ... Land Cruiser 200 rauk fyrr úr sporunum þegar slegið var í klárinn, með voldugra vélarhljóði, en spjó um leið út koltvísýringi sem yfirvöld hryllti við. Þarna liggur máske stærsti saknaðarþátturinn við 200-bílinn, en hann fæst ekki lengur nýr svo það þýðir ekki að fást um það.

Veldur hann titlinum?

Höfum líka eitt í huga; flestir þeirra sem kaupa sér lúxus-gerðir af tilteknum bíl vilja að það sjáist. Þannig eru lúxusbílaeigendur flestir innréttaðir. Það hefði verið ákjósanlegt frá sjónarhóli Toyota að geta boðið upp á Luxury-gerðina með sýnilegum útlitsfrávikum frá öðrum 150-bílum. Öðruvísi framgrill hefði vitaskuld verið heppilegasta leiðin til aðgreiningar, en eins og mál standa sést ekki munur þegar bíllinn sést tilsýndar. Vegfarendur þekkja 200-bílinn á færi, en ekki 150 Luxury.

Sem arftaki stærsta lúxusjeppans frá Toyota er því óvíst hvort 150 Luxury veldur hlutverkinu. En sem framúrskarandi vel búinn Land Cruiser 150 stendur hann vel fyrir sínu og rúmlega það.

jonagnar@mbl.is