Tómatsósu með öllu?

Anna Margrét Björnsson á þrjú börn og hefur sterkar skoðanir ...
Anna Margrét Björnsson á þrjú börn og hefur sterkar skoðanir á mataruppeldi. Hún segist hafa alið börnin sín upp til að borða sama mat og er borinn á borð fyrir fullorðna og kannast ekki við matvönd börn.

„Ég bjó um tíma í Frakklandi og held að ég hafi tekið vel eftir matarvenjum Frakka og hvernig franskt mataruppeldi er. Ég er ekkert að segja að það séu einhverjar heilagar reglur og átta mig á því að börn eru misjöfn og glíma við misjafna hluti. Ég er sjálf heldur enginn sérfræðingur í í sambandi við matvendni barna. En þessi ráð hafa reynst mér mjög vel í gegnum tíðina“, segir Anna Margrét Björnsson blaðamaður á Morgunblaðinuog Iceland Monitor, enskum vef Mbl.is en hún á þrjú börn á aldrinum sex til 17 ára og hefur sterkar skoðanir á mataruppeldi og hvernig venja megi börn af matvendni. Hún segist hafa alið börnin sín upp til að borða sama mat og er borinn á borð fyrir fullorðna fólkið og kannast ekki við matvönd börn.

„Sjálf fékk ég að prufa allskonar framandi mat sem barn og hef frá því að krakkarnir voru að prufa sinn fyrsta mat reynt að hafa hann fjölbreyttan og ekki endilega vera með sérmatseðil fyrir þau. Ég hef heyrt að börnum finnist í raun allt skrýtið og jafnvel vont þegar þau borða það í fyrsta sinn. Þess vegna er ekkert skrýtið kannski að smábarn fúlsi við stappaðri lárperu eða ólífum eða bara einhverju venjulegu eins og eplamauki. Mig minnir ég hafi lesið að rannsóknir sýni að börn þurfi að smakka nýja matartegund svona tólf sinnum áður en þeim finnst hún góð. Þannig að þolinmæði er málið, það held ég alla vega," segir Anna Margrét.

Hún segir ennfremur að Frakkar trúi því að smekkur á mat sé eitthvað sem þróast og það eigi líka við um börnin okkar. „Ég held að það sé ekki gott að ákveða að „barnið mitt sé matvant“ bara af því það fúlsar við einhverjum hlutum fyrst þegar það smakkar þá. Svo er mikilvægt að pína aldrei mat ofan í börnin og gera þetta að einhverju bitbeini og veseni en reyna frekar að njóta gæðastunda við matarborðið og að krakkarnir verði bara stoltir að borða sama mat og foreldrarnir eða „fullorðna fólkið.“

„Það er hinsvegar bara mjög algengt hér á landi finnst mér að foreldrar gefist upp strax og spyrji hvort viðkomandi veitingastaður sé með með pylsur/ franskar/ pizzu eða pasta með tómatsósu og alls enga sveppi af því barnið sé svo matvant. Og biðja svo um tómatsósu á allt“, segir Anna Margrét

Svo er stundum sett tómatssósa á allt!
Svo er stundum sett tómatssósa á allt!

Það veldur því að það er alltaf eitt á matseðlinum fyrir börnin og hitt fyrir fullorðna fólkið, og oft er það sem börnum er þá boðið upp á óhollt og næringarsnautt. Þetta viðgengst líka mjög mikið á veitingahúsum á svokölluðum „barnamatseðlum“ sem eru oft einmitt mjög fátæklegir og bjóða upp á ofangreinda hluti. Sem betur fer er þetta aðeins að breytast og stundum má biðja um barnastærðir af réttum á aðalseðli.

„Svo er mikilvægt að vera þolinmóður! Það er allt í lagi að segja já ég veit að þér finnst þetta skrýtið núna en þegar þú verður aðeins stærri finnst þér þetta kannski mjög gott. Það hefur alltaf verið meginregla hjá mér að segja við börnin þegar þau voru lítil, þú verður að smakka, það er það eina sem ég bið um. „Hugsaðu þér ef þetta væri svo bara rosa gott og þú værir að missa af því!“ Þetta hefur sumsé virkað mjög vel fyrir mig og ég er ekki að bjóða bara strax upp á einhvern annan valkost eins og að gefa barni brauð eða pasta með tómatsósu ef það fúlsar við matnum. Að sama skapi var ég auðvitað ekki að gefa tveggja ára barni rautt karrý með extra chilli eða neitt slíkt!,“ segir Anna Margrét.

Hún segir að börnum finnist almennt mjög gaman að fara á veitingahús og fá að velja sér eitthvað spennandi. „Ég er ekkert sérlega hrifin af því að veitingahús séu með barnahorn nema fyrir þau allra minnstu, það er mikilvægt að læra að maður á ekki að borða fyrir framan sjónvarpið eða í flýti heldur að njóta stundarinnar.“

„Ég get með sanni sagt að börnin mín hafi eiginlega borðað allt með einni undantekningu, ekkert þeirra getur borðað geitaost! Yngsta dóttir mín elskar til dæmis allt frá humri, frönskum ostum og ólífum upp í indverskan mat, sushi, grjónagraut og jafnvel hákarl og allt þar á milli og hún hefur verið þannig alveg frá því hún var pínulítil. Það er mjög gaman að elda og njóta matar með henni. Það hefur kostað svolitla þolinmæðin en verið vel þess virði,“ segir Anna Margrét að lokum.

mbl.is