Er símabann í skólum raunhæft?

Hvar verða símarnir geymdir?
Hvar verða símarnir geymdir? AFP
Farsímar verða alfarið bannaðir í frönskum grunn- og leikskólum í haust en þeir eru þegar bannaðir í helmingi grunnskóla landsins. Nýleg lög um bann við notkun farsíma í skólum verða til umræðu í franska þinginu í dag.

Samkvæmt þeim verður nemendum bannað að nota farsíma í leikskólum (école maternelle) og grunnskólum (collège) með ákveðnum undantekningum sem skólar geta sjálfir sett og eins ef um neyðartilvik er að ræða.

Með öðrum orðum: símabann í kennslustofum og á leiksvæðum nema ef um neyð er að ræða eða þeir eru notaðir í fræðsluskyni. Skólar hafa heimild til þess að útfæra reglurnar um símanotkun á þann veg að þeir eru heimilaðir við ákveðnar kringumstæður. 

Verður hægt að taka síma af skólabörnum?
Verður hægt að taka síma af skólabörnum? AFP

Símabannið var eitt af loforðum forseta Frakklands, Emmanuel Macron, í kosningabaráttunni í fyrra. Menntamálaráðherra landsins, Jean-Michel Blanquer, styður það einnig og sagði á sínum tíma þegar frumvarpið var kynnt að börn væru hætt að leika sér í frímínútum. Heldur séu þau öll með augun á símum sínum sem sé vandamál útfrá sjónarmiðum menntunnar.

En með banninu er einnig ætlunin að samræma reglurnar sem gildi í skólum landsins. Farsímar eru þegar bannaðir í kennslustofum í Frakklandi þrátt fyrir að nemendur brjóti bannið ítrekað. Bæði að sögn nemendanna sjálfra sem og kennara.

Í um helmingi grunnskóla Frakklands er einnig bannað að vera með farsíma á leiksvæðum þannig að í helmingi skóla hefur bannið í september enga sjáanlega breytingu í för með sér. 

Ríkisstjórn Frakklands vonast til þess að með lögunum verði auðveldara fyrir skólastjórnendur að setja þessi mörk með því að geta einfaldlega vísað í lög landsins frekar en skólareglur. Margir skólastjórnendur vonast til þess að lögin verði til þess að hægt verði að fá nemendur til þess að sleppa taki á símanum í nokkrar klukkustundir á dag en um leið eru vissar efasemdir um að það verði auðvelt.

Frönskum börnum verður bannað að nota síma á leikvöllum skóla …
Frönskum börnum verður bannað að nota síma á leikvöllum skóla og inni í skólastofum frá og með haustinu. AFP

Kennarasamband Frakklands fagnar nýjum lögum enda sé farsímanotkun afar truflandi í kennslustofum. Philippe Vincent, framkvæmdastjóri SNPDEN, segir að þrátt fyrir að farsímanotkun sé þegar bönnuð inni í skólastofum þá hafi þeir truflandi áhrif á kennsluna. Til að mynda þegar þeir hringja, hljóð sem fylgir titringi síma nú eða þegar nemendur senda skilaboð sín á milli eða vafra á netinu þegar þau telja að kennari sjái ekki til. Vandinn er verstur í eldri árgöngum, það er 15-16 ára. 

Skólastigin í frönskum skólum sem bannið nær til eru: leikskólar (écoles maternelles) en þar eru börn á aldrinum 3-6 ára, yngri árganga grunnskóla (école primaire) fyrir börn á aldrinum 6-11 ára og eldri áranga í grunnskóla (collège) 11-15 ára. 

Eins hefur einelti haft mikil áhrif á að ákveða að lögfesta bann við notkun síma í skólum. Telja sérfræðingar að einelti hafi aukist til muna með auknu aðgengi nemenda að farsímum og samfélagsmiðlum. En þar sem einelti á netinu er verst eftir að skóla lýkur á daginn þá er ekki talið að símabannið muni verða til þess að það dragi úr rafrænu einelti meðal barna og ungmenna. 

En hvernig mun bannið virka í raun? Spurning sem ýmsir velta fyrir sér. Hugmyndir eru um að koma upp skápum eða boxum sem nemendum verður gert að setja síma sína í þegar þau mæta í skólann. Þessu fylgir kostnaður og síðast en ekki síst - er rými fyrir slíka skápa í skólum landsins?

AFP

Önnur hugmynd er að koma upp einhvers konar möppum sem nemendur nota til þess að geyma síma sína í og að möppurnar verði í umsjón kennara. Eða jafnvel að banna nemendum alfarið að koma með símana í skólann. En ekki þykir líklegt að skólastjórnendur leggi í að setja þá reglu fram þar sem margir líta á síma sem öryggistæki fyrir börn sín og vilja að þau séu með símana á sér eftir að skóla lýkur og þau eru ekki lengur í öruggu skjóli skólans. Hvernig banninu verður framfylgt verður í höndum hvers skóla fyrir sig.

Hvað ef nemandi er gripinn glóðvolgur í símanum. Hver verður refsingin? Ekki hefur verið komist að endanlegri niðurstöðu þar um en flestir hallast að því að þá sé haft samband við foreldra og þeim gert að koma að sækja barnið og einnig símtækið. 

AFP

Ekki eru allir foreldrar sáttir við fyrirhugað bann og samkvæmt stærstu foreldrasamtökum Frakklands, Peep, þá eru samtökin í sjálfu sér ekki andsnúin banni heldur miklu frekar sjá þau ekki hvernig verði hægt að framfylgja því. 

Gérard Pommier, formaður Peep, segir að samtökin telji ekki mögulegt að framfylgja banninu enn sem komið er. 

„Ímyndið ykkur gagnfræðaskóla (collège) með 600 nemendur. Eiga þeir allir að setja símana sína í box? Hvernig geymir þú þau? Og hver á að sjá um að afhenda þeim símana eftir að skóla lýkur?“ spyr Pommier. 

Kínverskir nemendur með augun á símunum en franskir skólakrakkar fá …
Kínverskir nemendur með augun á símunum en franskir skólakrakkar fá ekki að vera með síma í skólanum. AFP
mbl.is