Lesblinda er hæfileiki, ekki fötlun

„Ég held sem sagt að flestir þeirra sem fögnuðu í ...
„Ég held sem sagt að flestir þeirra sem fögnuðu í gær og um helgina geti fullyrt að nám hafi verið þeim nokkuð auðvelt. Hinir heltust úr lestinni einhvern tímann á leiðinni." mbl.is/einkasafn

Margrét Júlíana Sigurdardóttir, framkvæmdastjóri og meðstofnandi tölvuleikjafyrirætkisins Rosamosa, skrifaði nýlega færslu á Facebook sem vakti mikla athygli. Hún tjáir sig þar um þá sem eru „lesblindir“ - sem reyndar er afar leiðinlegt orð því því eins og Margrét segir sjálf eru lesblindir „auðvitað ekki blindir frekar en að manneskja sem á erfitt með að leira frelsisstyttuna sé handlama". Hún talar um að lesblinda sé hæfileiki ekki fötlun en að skólakerfið útskúfi markvisst lesblindum einstaklingum en hampi hinum sem eiga auðvelt með lestur. Við gefum Margréti Júlíönu orðið: 
_______________________________________________________

„Um helgina fagnaði útskrifarárgangurinn minn úr MR útskriftarafmæli sem er ekki lengur talið í árum heldur áratugum og reyndar orðið nokkuð langt síðan við náðum því marki. Árgangurinn allur fallegt og gott fólk og flestir komnir með sitt og sína í nokkuð örugga höfn, háskólanám eðlilegt framhald námsins í Menntaskólanum með stóru M-i og fyrsta árið í flestum fögum endurtekning á því síðasta ef ekki þarsíðasta úr MR.

Eitt og jafnvel tvö ár endurtekin bara af því að öllum finnst svo gaman í skóla og fæstir kvarta yfir því enda allir sammála um að það sé gott og hollt að læra - og helst sem mest og sem lengst. Fall í leikfimi og árið er tekið aftur, búmm! Fall í skyndiprófi jarðfræði og upptökupróf eða annað ár til viðbótar - búmm búmm! Og jafnvel eitt til viðbótar - sem aukabónus ef að þér hefur tekist að þroska með þér náttúrulega kvíðaröskun sem allir hafa auðvitað gott af að kynnast í einhverjum mæli. Og enn er fellt og vonandi verður fallið ekki of harkalegt.

Margir með brotna sjálfsmynd eftir fyrstu árin í skóla þar ...
Margir með brotna sjálfsmynd eftir fyrstu árin í skóla þar sem lestrargetan, einbeitingarskorturinn, þörfin fyrir hreyfingu og hæfileikar á skjön við normið, gera það að verkum að þeir eiga aldrei möguleika? mbl.is/thinkstockphotos

Við sem útskrifuðumst saman fyrir þessum árum sem ég er hætt að telja erum flest nokkuð ánægð með það hvað okkur reyndist þetta auðvelt, jafnvel þótt allir hafi auðvitað haft eitthvað fyrir þessu og flestir meira en þeir vilja viðurkenna. Við grínumst með atvikin þar sem við djömmuðum á ólöglegum skírteinum korter í stúdentspróf og brilleruðum samt, fengum lánaða punkta í munnleg próf úr Laxdælu í frímínútum og leiklásum senurnar í næsta tíma eins og að drekka vatn. Höfðum örugglega meira fyrir því heldur en að lesa bókina og gerðum það líka í næstu frímínútum því að við gátum það og áttum auðvelt með það.

Ég held sem sagt að flestir þeirra sem fögnuðu í gær og um helgina geti fullyrt að nám hafi verið þeim nokkuð auðvelt. Hinir heltust úr lestinni einhvern tímann á leiðinni. Og við eyddum ekki miklum tíma í að sakna þeirra - það eru til aðrir skólar sem gera ekki þessar námskröfur og henta þeim jafnvel betur hugsuðum við og héldum áfram að vera töff og rúlla þessu upp.

Leigubílstjórinn sem keyrði mig heim minnti mig á það hvað við vorum og erum mikið lúxuslið, við sem eigum auðvelt með að læra bóklegt nám. Við sem fengum þessa eiginleika í vöggugjöf sem falla svona vel inn í skólakerfið. Af því að þetta er auðvitað ekkert spurning um gáfur nema maður kjósi að skilgreina gáfur út frá Gettu betur skalanum eingöngu.

Leigubílstjórinn á þrjá uppkomna syni og þeir allir eins og hann sjálfur lesblindir. Hann hafði tekið sér frí frá vinnu í eitt ár með elsta syninum þegar leit út fyrir að hann væri að flosna upp úr námi. Las með honum Gísla Súrsson og Hávamál. Annar hafði gefist upp eftir grunnskólann og ætlaði að láta þar staðar numið. Þá skráði hann sig sjálfur ásamt syninum í Vélstjóraskólann. Vakti hann á morgnana og tók árið með til stuðnings. Þriðja syninum hafði hann einnig komið í gegnum nám á þrautseigju og þolinmæði þar sem hann lagði sitt eigið til hliðar og lét þannig allt í sölurnar fyrir strákana sína og þeirra framtíð.

Og þetta bar árangur. Þeir luku allir námi og gengur vel sagði hann mér. Lesblinda er nefnilega ekki fötlun heldur hæfileiki. Skapandi hugsun, annað sjónarhorn, verkvit og rýmisgreind eru oft með meiri vigt hjá hinum lesblindu sem eru auðvitað ekki blindir frekar en að manneskja sem á erfitt með að leira frelsisstyttuna sé handlama. En aftur að samtalinu við leigubílsstjórann: Um daginn var ég stödd á samkomu þar sem margir af fremstu frumkvöðlum landsins komu fram og kynntu verkefni sín og fyrirtækin. Þegar leið á samtalið við manninn kom í ljós að einn sonanna hafði einmitt verið í þessum hópi en fyrirtækið hans er að ná gríðarlega langt með sína vöru og hugvit á alþjóðavettvangi.

Það var óendanlega gaman á endurfundunum en þetta samtal var hressandi áminning um það hvað við sem útskrifuðumst saman erum mikið forréttindalið og hvað það er aðkallandi að breyta hlutunum. Það gengur ekki að leigubílsstjóri sem eignast vel gefna syni og hæfileikaríka þurfi að vera frá vinnu í mörg ár til þess að synir hans eigi möguleika í lífinu.

Og hvað þá með allt það hæfileikaríka og klára fólk sem fær aldrei tækifæri - sem hefur ekki þetta bakland? Margir með brotna sjálfsmynd eftir fyrstu árin í skóla þar sem lestrargetan, einbeitingarskorturinn, þörfin fyrir hreyfingu og hæfileikar á skjön við normið, gera það að verkum að þeir eiga aldrei möguleika? Við sem höfum verið lukkumegin í lífinu, við sem erum klæðskerasniðin fyrir skólakerfið, kláruðum MR eða aðra góða skóla og höfum fundið okkar sess, jafnvel komin í ábyrgðarstöður í þjóðfélaginu: Við berum öðrum fremur ábyrgð á því að breyta þessu kerfi sem er einsleitt og sem býður ekki öllum inn. Ekki vegna þess að þeir geta ekki lært; heldur vegna þess að þeirra nálgun á nám og niðurstöður er ekki samkvæmt stöðlunum sem voru settir í kerfið fyrir löngu síðan og er viðhaldið kynslóð eftir kynslóð af fólkinu sem passar þar best inn sjálft.“

mbl.is

Bloggað um fréttina