5 uppeldisráð Mörtu Maríu

Marta María og synirnir Helgi og Kolbeinn Ari
Marta María og synirnir Helgi og Kolbeinn Ari mbl.is/einkasafn

1. Upp með gleðina Ég legg mikið upp úr því að það sé svolítið fjör og það sé gaman hjá okkur fjölskyldunni. Heimilið er skjól fyrir vandamálum heimsins og inni á heimilinu á að ríkja góð stemning þar sem fjölskyldumeðlimir eru almennilegir hver við annan. Það kostar hvorki fyrirhöfn né peninga að hafa gaman. Mér finnst einnig skipta máli að við séum ekki með of þétta dagskrá þannig að við getum hangsað svolítið. Nútímafólk gerir allt of lítið af því að hangsa.

2. Heiðarleiki Það er góð regla að segja alltaf satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta. Þetta á ekki bara við um börnin heldur líka foreldrana. Ég trúi því að heiðarleikinn auki hamingju fólks og geri lífið töluvert einfaldara. Ég vil ala börnin mín þannig upp að þau komi vel fram við annað fólk og hagi sér vel.

3. Peningar Mér finnst skipta miklu máli að peningamál séu rædd af skynsemi og börn átti sig á því að það þurfi að vinna fyrir þeim. Síðan drengirnir mínir voru litlir höfum við til dæmis alltaf safnað dósum. Lengi vel vorum við þrjú að safna fyrir fjórhjóli en síðan breyttist aðeins planið – eða þegar við komumst að því að við yrðum líklega alla ævina að safna dósum fyrir slíkum grip. Aðalmálið er að peningar séu ekki feimnismál og það sé hægt að ræða um þá án þess að börn fái afkomuótta. Svo finnst mér mikilvægt að kenna börnum leiðir til að spara peninga og þreytist ég ekki á að vitna í Jóakim Aðalönd þegar það á við. Ef allir hugsuðu eins og Jóakim þá væri allt flæðandi í peningum alls staðar.

4. Að hjálpast að Börnin mín komast ekki upp með að vera farþegar heldur þurfa þau að draga vagninn með mér. Á hverjum degi þurfa synir mínir að leggja eitthvað af mörkum. Þeirra verkefni eru að taka til í herbergjum sínum, taka úr uppþvottavélinni, ganga frá eftir matinn og hjálpa til við eldamennsku. Ég held að börn hafi gott af því að taka þátt í eðlilegu heimilishaldi og að þau læri til verka.

5. Þakkarbænin Þessi þakkarbæn hefur fylgt mér og drengjunum mínum síðan þeir voru litlir. Þetta hljómar kannski eins og við séum í sértrúarsöfnuði en það er nú ekki reyndin. Þakkarbænin snýst um að þakka fyrir það sem bar hæst hvern dag og tengist trú ekki beint. Þakkarbænin kennir okkur að koma auga á það sem er gott í lífinu og vera þakklát fyrir það sem við höfum. Maður kynnist börnunum sínum öðruvísi í gegnum þakkarbænina og mér finnst oft merkilegt hvað það eru litlir hlutir sem hafa gildi þegar dagurinn er gerður upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert