Skógarmítill fannst í eyra Atlasar Þórs

Það varð uppi fótur og fit hjá Sif Böðvarsdóttur og ...
Það varð uppi fótur og fit hjá Sif Böðvarsdóttur og fjölskyldu hennar í Gautaborg í morgun þegar skógarmítill uppgötvaðist í eyra litla barnabarnsins en bit þeirra geta valdið alvarlegum sýkingum. Ljósmynd/Aðsend

Það varð uppi fótur og fit hjá Sif Böðvarsdóttur og fjölskyldu hennar í Gautaborg í morgun þegar skógarmítill uppgötvaðist í eyra litla barnabarnsins, hans Atlasar Þórs Haukssonar sem er 18 mánaða, en hann býr ásamt foreldrum sínum í Danmörku. Stórfjölskyldan er hinsvegar í sumarfríi í Svíþjóð.  

Nærmynd af þessum leiðinlega gesti í eyra Atlasar Þórs.
Nærmynd af þessum leiðinlega gesti í eyra Atlasar Þórs. Ljósmynd/Aðsend

Sif segir að þau hafi komið út sl. sunnudag og því er ekki ljóst hversu lengi mítillinn hafi setið í eyra barnsins. Þegar mamma hans uppgötvaði hann var rokið með drenginn á bráðamóttöku enda þarf sérstaka tækni til að ná skógarmítlum út, sérstaklega ef þeir hafa borað sig vel inní húðina. Atlas litli var töluvert pirraður á leiðinni til læknisins og gæti mítillinn hafa verið í eyranu í einn til tvo daga.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvernig hann fékk skógarmítill í sig en sennilega bara við að leika sér í fótbolta í grasinu við húsið, en það stendur við skógarjaðar. Skógurinn er einmitt kjörlendi skógarmítla eins og nafn þeirra ber með sér,“ segir Sif.

Sif Böðvarsdóttir með Atlas Þór litla á góðri stundu.
Sif Böðvarsdóttir með Atlas Þór litla á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend

Hún bendir fólki á ferðalagi um Skandinavíu og víðar í Evrópu að það ætti að fara varlega í skóglendi og varast til dæmis að leggjast niður. „Skógarmítillinn ætti almennt ekki að leynast í grasflötum við hús fólks en það er líklegt að dýr hafi borið hann úr skóginum í grasið þar sem við búum í fríinu," segir Sif.

Hún segir það hafa verið heppilegt að dóttir hennar, Aþena Eydís Kolbeinsdóttir, hafi verið búin að kynna sér skógarmítla sérstaklega og því hafi þau brugðist hárrétt við, þ.e. með því að fara beint til læknis því í alvarlegustu tilfellunum getur bit mítilsins valdið heilahimnubólgu og Lyme sjúkdómnum sem getur m.a. leitt til alvarlega einkenna á húð og taugakerfi líkamans.

„Eftir læknisheimsóknina skoðuðum Atlas mjög vandlega og fundum reyndar annan mun minni í síðunni á honum sem sennilega kom mun seinna. Hann var lausari og náðum honum út með sérstökum plokkara. En það þarf að fylgjast mjög vel með drengnum og vera vakandi yfir því hvort hann verði óeðlilega þreyttur og hvort roði haldi áfram að aukast í kringum svæðið þar sem mítillinn fannst. Þannig að okkur er alveg temmilega brugðið eftir eftir þetta allt saman," segir Sif að lokum. 

Færsla Sifjar á Facebook um skógarmítilinn

mbl.is