Gefur hjartsláttur fósturs vísbendingu um kyn?

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fjöl­skyld­an er í sam­starfi við heilsu­vef­inn Heils­an okk­ar sem fjall­ar um mál­efni sem tengj­ast heilsu þjóðar­inn­ar og byggð eru á bestu þekk­ingu hverju sinni. Í eftir­far­andi grein er spurningunni svarað um það hvort hjartsláttur fósturs geti gefið vísbendingu um kyn þess. 
____________________________________________________

Flestar konur sem hafa verið barnshafandi hafa eflaust heyrt ýmsar tilgátur um hvernig hægt sé að giska á kyn barnsins. Stundum er talað um að konur sem upplifa morgunógleði eigi von á stelpu og þær sem séu með körfuboltalaga kúlu eigi von á strák. Einnig er algengt að nýta upplýsingar um hjartslátt barnsins til að geta sér til um kyn barnsins.

Sumir segja að hjartsláttur barns í móðurkviði sem er hraðari en 140 slög á mínútu sé strákalegur hjartsláttur en að hjartsláttur hægari en 140 slög á mínútu gefi til kynna að von sé á stelpu. Í raun og veru þá sveiflast hjartsláttur fósturs á milli 120 og 160 slaga á mínútu og getur verið heilmikill munur á milli mælinga, jafnvel þótt aðeins líði 10 mínútur á milli. Hæglega væri hægt að mæla hjartslátt fósturs sex sinnum yfir eins klukkutíma tímabil og fá sex mismunandi mælingar – sumar yfir 140 slög á mínútu og sumar undir 140 slögum á mínútu.

Hvað segja rannsóknir?

Þónokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á undanförnum árum til að athuga hvort hægt sé að nota hjartslátt fósturs til að meta hvort kynið sé um að ræða. Ein rannsókn frá 1999 fann mun á hjartslætti stráka og stelpna en aðrar rannsóknir hafa ekki fundið mun eftir kyni. Hjartsláttur fósturs er þó breytilegur yfir meðgöngutímabilið. Í byrjun meðgöngu er hjartsláttur fósturs um 85 slög á mínútu, en fjölgarr um 3 slög á mínútu á hverjum degi fyrsta mánuðinn þar til meðal-hjartslátturinn verður 175 slög á mínútu. Þá hægist aftur á hjartslætti fóstursins eða þar til hann nær jafnvægi í 120-160 slögum á mínútu um miðbik meðgöngunnar.

Breytingar á hjartslætti má skýra að einhverju leyti með heilaþroska fóstursins. Heilanum er stjórnað af drif- og sefkerfinu (e. sympatic and parasympatic nervous system). Þegar drifkerfið er örvað, þá eykst hjartsláttur barnsins og þegar sefkerfið er örvað þá hægist á hjartslættinum. Sem dæmi þá greinir ljósmóðir hraðari hjartslátt þegar barnið hreyfir sig og hægari hjartslátt þegar barnið hvílir sig. Þessar breytingar má einnig sjá hjá fæddum börnum og fullorðnum einstaklingum. Ef þú fengir tækifæri til að hlusta á hjartslátt fullorðins einstaklings sem stæði bak við vegg, þá væri enginn möguleiki fyrir þig að giska á kyn hans. Það sama gildir um fóstrið og því ekki hægt að nota mun á hjartslætti til að segja til um kynið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert