Sjö ráð til að spjalla við ástvin með Alzheimer

Raunveruleiki Alzheimer-sjúklings getur verið mjög ólíkur þínum.
Raunveruleiki Alzheimer-sjúklings getur verið mjög ólíkur þínum. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fjölskyldur eru af öllum stærðum og gerðum. Foreldrar með börn á heimilinu hafa tilhneigingu til að hugsa fyrst og fremst um sinn maka og börn sem fjölskyldueiningu en að sama skapi erum við enn þá hluti af gömlu fjölskyldunni, börn foreldra okkar og systkini systkina okkar þó tengslin. Það getur verið afar krefjandi fyrir fólk á miðjum aldri að vera til staðar og styðja aldraða foreldra sína, ekki síst ef andleg heilsa er farin að dala. Talið er að einn af hverjum þremur öldruðum einstaklingum fái Alzheimers-sjúkdóminn; ástand sem var lengi kallað elliglöp enda getur birtingarmynd sjúkdómsins verið töluvert ólík. Sjúkdómurinn þróast mishratt, lyf virka misvel og í mörgum tilfellum geta aldraðir átt gæðalíf í mörg ár áður en sjúkdómurinn tekur yfir. 

Fjölskyldan á mbl.is er í samstarfi við heilsuvefinn Heilsan okkar en þar birtast reglulega greinar sem studdar eru af vísindalegum rannsóknum um lýðheilsu og fleira. Sjö ráð til að spjalla við ástvin með Alzheimer birtist fyrst á vefnum Heilsan okkar. 

1. Minnkið áreiti

Hljóð í bakgrunni, til dæmis frá sjónvarpi og útvarpi, getur truflað fólk sem haldið er sjúkdómnum og gert því erfiðara fyrir að fylgja samræðum. Finnið rólegan stað þar sem þið getið rætt saman.

2. Eigið samtal í einrúmi

Þegar fleira fólk tekur þátt í samræðum verða samskiptin flóknari. Reynið að halda samræðum sem einföldustum með því að hafa einungis einn gest í einu. Jafnvel samræður í litlum hópum geta verið ruglandi og valdið kvíða.

Samskipti, samtöl og nánd okkar við ástvin sem hefur misst ...
Samskipti, samtöl og nánd okkar við ástvin sem hefur misst getuna til að svara getur gefið honum mikla gleði og sýnir honum að okkur þykir enn vænt um hann. Ljósmynd/Thinkstockphotos

3. Notið stuttar, markvissar setningar

Best er að nota nafnorð þegar talað er um hluti í umhverfinu. Sem dæmi, þegar þú vilt benda á fallegan fugl þá er betra að segja „sjáðu fuglinn“ heldur en „sjáðu þetta“. Einnig getur verið erfitt fyrir Alzheimer-sjúklinga að velja milli mismunandi valkosta.

Því skal forðast opnar spurningar eins og „hvað viltu gera í dag?“ og spyrja frekar „viltu koma í göngutúr?“

4. Forðist rifrildi

Ekki rífast við fólk með Alzheimer. Enginn mun vinna rifrildið og líklegt er að þið munið bæði verða leið og pirruð. Reyndu einnig að forðast að segja „ég var að segja þér þetta“ eða „þetta er ekki rétt hjá þér“.

Ef þú finnur að annað hvort ykkar er að verða pirrað, er best að hætta samræðum og taka sér stutta pásu. 

Reynið að halda samræðum sem einföldustum með því að hafa ...
Reynið að halda samræðum sem einföldustum með því að hafa einungis einn gest í einu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

5. Sýndu þolinmæði

Ekki klára setningar sjúklinga með Alzheimer. Það er ólíklegt að slíkt komi til með að hjálpa þeim að muna og er líklegra til að valda þeim leiða.

Í staðinn má reyna að hjálpa þeim að muna. T.d. ef hann er að labba um í eldhúsinu og segir „ég vil, ég vil“ þá gætir þú sagt „Ertu svangur?“

6. Heimsæktu þeirra heim


Raunveruleiki Alzheimer-sjúklings getur verið mjög ólíkur þínum. Líklegt er að hann haldi að látinn ættingi sé enn á lífi eða að hann sé heimsfrægur leikari.

Ef raunveruleiki Alzheimer-sjúklingsins er ekki hættulegur neinum þá er best fyrir okkur að fara í heimsókn í þennan raunveruleika og leika það hlutverk sem þér er gefið.

Það er óþarfi að fá samviskubit yfir þessu því við verðum að muna að sjúkdómurinn hefur breytt hugsun þeirra og það er engin leið fyrir þig að breyta sannfæringu sjúklings með Alzheimer. Það er alveg sama hversu oft þú segir þeim að ættingi þeirra sé látinn, það mun ekki breyta þeirra raunveruleika.

Að gefa þeim stuðning getur veitt þeim mikla gleði og minnkað kvíða.

7. Haltu áfram að tala þótt þú fáir ekki svar 

Þegar sjúkdómurinn er kominn á það stig að hann er hættur að svara þá er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram samtalinu.

Samskipti, samtöl og nánd okkar við ástvin sem hefur misst getuna til að svara getur gefið honum mikla gleði og sýnir honum að okkur þykir enn vænt um hann.

mbl.is