Þegar Arnþór kom í heiminn

Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldan er í samstarfi við bloggarana á lífstílsbloggvefnum Lady.is. Hér segir Sæunn Tamar Ásgeirsdóttir frá því þegar hún eignaðist son sinn Arnþór fimm vikum of snemma, erfiðleikunum sem fylgdu í kjölfarið sem reyndust þó smávægilegir í stóru myndinni. 
___________________________________________________________________

„Hann Arnþór kom í heiminn 8. ágúst 2017, þá var ég gengin 35 vikur. Það byrjaði allt með því að ég var farin að finna fyrir verkjum sem líktust helst túrverkjum kvöldið áður, taldi ég að þetta væru bara fyrirvaraverkir og var ég ekkert að hafa neinar sérstaklegar áhyggjur af þeim. Ég var á brölti alla nóttina og skyldi ekkert í því af hverju ég væri alltaf svona blaut, skammaði sjálfa mig að ég gæti ekki lengur haldið þvagi. Kl. 07:00 á þriðjudagsmorgni 8. ágúst fer ég á fætur og beint á klósettið.

Ljósmynd/Aðsend

Það var ekki beint fögur sjón sem blasti við mér, heldur full klósettskál af blóði og smá slím svona efst (eflaust slímtappinn). Ég stend upp til þess að ná í símann, ætlaði að hringja í ljósmóður til þess að athuga hvort þetta væri eðlilegt. Ég hafði áður heyrt að það kæmi blóð þegar slímtappinn fer. Þegar ég stóð upp hélt áfram að blæða yfir allt baðherbergisgólfið. Þá snerist mér hugur og ég hringi strax í Landspítalann. Þær báðu mig að koma til sín að kíkja á hvað væri á seyði. 


 Spítalinn

Þegar komið var upp á spítala var ég sett í rit og var ég með mikla samdrætti sem ég fann ekki fyrir. Ljósmóðirin sem tók á móti mér vissi ekki alveg hvað ætti að gera við mig því ég fann ekki fyrir neinum verkjum. Hún bað samt lækni að koma aðeins og kíkja á mig. Læknirinn skoðaði mig, tók sýni og skoðaði leghálsinn. Jújú, viti menn úr sýninu kom að ég væri búin að missa legvatnið og við skoðun kom í ljós að leghálsinn væri að styttast. Ég held að ég muni aldrei gleyma því þegar hún sagði við mig að ég væri að fara eignast barn í dag og það svona snemma, á 35 viku.... og ég var ekki með neitt tilbúið! Það kom síðan í ljós að ég var búin að missa legvatn í 2 daga en alltaf mjög lítið i einu, sem ég taldi að væri bara þvag.

Ljósmynd/Aðsend

Ástandið var þannig á mér að ég mátti varla hnerra þá kom eitthvað með. Það fyrsta sem ég gerði eftir að ég fékk fréttirnar að Addi væri að koma í heiminn í dag, var að senda kærasta minn í innkaupsferð. Beint í Fifu að kaupa barnastól og base svo við gætum tekið litla manninn okkar með heim.

Fæðing

Ég var lögð inn um 08:30 og þau vildu gefa mér séns að koma mér af stað sjálf en þegar klukkan var orðin 14:00 og ekkert farið að gerast, var ákveðið að sprengja belginn. Þeim til mikillar undrunar var ég komin með 6 í útvíkkun og fann ekki fyrir því... ennnn óboy! ég fann fyrir rest eftir að belgurinn var sprengdur. Fæðingin gekk vel og ég notaðist ekki við lyf en greip gasið öðru hverju. Ég sagði alls konar skemmtilegt við ljósmóður mína eins og hversu falleg hún væri og líktist ömmu minni. Síðan reyndi ég að leika Darth Wader úr Star Wars. Ég rembdist í um einn og hálfan tíma en hlutirnir fóru loksins að ganga þegar ég sleppti gasinu. Þá spýttist litli maðurinn út. Þegar hann Arnþór var loksins kominn í heiminn þá var hann strax tekinn í burtu frá mér en pabbi hans fylgdi honum til barnalæknis inn á vökudeild þar sem hann var settur í súrefniskassa. Hann var 13 merkur og 51 cm á stærð.

 Fæðingardansinn

Hér má sjá smá myndskeið þegar ég reyndi að koma mér afstað sjálf hehe.. nokkrar hnébeygjur og dans!


Súrefniskassi

Arnþór var strax settur í súrefniskassa, það var erfitt fyrir nýbakaða mömmu að ekki fá knúsa drenginn sinn og horfa bara á hann í kassa, en hann var á besta staðnum og var að standa sig eins og hetja. Addi var í kassanum í 10 tíma þá var hann farinn að anda alveg sjálfur án aðstoðar.

Ljósmynd/Aðsend

Fyrst gekk mjög erfiðlega hjá Adda að melta svo honum var gefið að borða í gegnum sondu, einnig var hann svo þreyttur að hann hafði ekki orku til þess að borða sjálfur. Það leið ekki á löngu þar til Addi var sondulaus og farinn að drekka sjálfur.

Gula

Helsta ástæða þess að Addi var svona þreyttur, er vegna þess að hann koma 5 vikum á undan áætlun og bilirubin (gula) var á mörkunum hjá honum og fór hækkandi. Hann var settur í tvígang á ljósateppi.

Ljósmynd/Aðsend

Í dag er Arnþór 11 mánaða orkubolti sem gefur sko sannarlega lífinu lit og minnir mann hvern dag, hve heppinn maður er <3

Ég vil bara skjóta þessu inn í svona blálokin, en vá hvað það eru miklir englar sem starfa inn á vökudeild, ég verð þeim ævinlega þakklát.

Færsla Sæunnar Tamar á Lady.is vefnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert