Treystir hvorki á lyf né bólusetningar fyrir börnin sín

Richard Lanigan treystir ekki á bólusetningar og lyf og vill ...
Richard Lanigan treystir ekki á bólusetningar og lyf og vill að líkamar barna sinna lækni sig sjálfir. Upp í horni myndarinnar til hægri er mynd af Isabelle dóttur hans með hlaupabólu en hún fékk engin lyf, hvorki verkjastillandi né annað, þegar hún veiktist og er faðir hennar sannfærður um að sjúkdómurinn hafi hert dótturina. Ljósmynd/skjáskot

Richard Lanigan heitir breskur maður sem hefur forðast lyfjagjöf og bólusetningu fyrir börn sín eins og heitan eldinn þar sem hann telur að veikindin efli ónæmiskerfi  þeirra. Hann er svo mikið á móti allri lyfjagjöf að hann hefur ekki einu sinni viljað gefa börnunum sínum Calpol, sem er verkjastillandi lyf skylt parasetamol, notað reglulega af milljónum foreldra út um allan heim.

Telur að börnin verði harðari af sér

Lanigan viðurkennir að viðhorf hans til lyfja og lækninga sé umdeilt en hann og kona hans Janette eru sannfærð um að lyfleysið hafi gert börn þeirra harðari af sér og hæfari til að jafna sig á sjúkdómum.

Í gegnum breska heilbrigðiskerfið (NHS – National Health Service) fá ungabörn í Bretlandi bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum, fyrst þegar þau eru 13 mánaða og svo aftur þegar þau verða fimm ára. Foreldrum allra barna, sem kunna ekki að hafa fengið bóluefnin áður, er boðið það. Hins vegar hefur þeim börnum fækkað umtalsvert sem hafa ekki verið bólusett, sem þó er vitað að bjargi mannslífum, skv. upplýsingum frá Bretlandi.

Það þýðir að nú er að vaxa úr grasi kynslóð með þúsundum fullorðinna, sem hefur ekki fengið bóluefni gegn alvarlegum sjúkdómum vegna ákvarðana foreldra þeirra. Bólusetning gagnvart ofangreindum sjúkdómum er ráðlögð vegna ferðalaga til flestra landa í Asíu, Afríku og S-Ameríku. NSH ráðleggur einnig verðandi háskólastúdentum að fá bólusetningu áður en nám hefst.

Lanigan, sem starfaði lengi sem hnykkjari og á einnig son frá fyrra hjónabandi auk dætra sinna, segir að það sé margt sem bendir til þess að foreldrar geti styrkt ónæmiskerfi barna sinna með því að leika í mold og skít þegar þau eru ung og geta fengið sýkingar. 

„Ég styrkti ónæmiskerfi dætra minna með því að leyfa þeim að fá sjúkdóma,“ segir hann. Hann vill meina að náttúran hafi ætlað okkur að sýkjast með eðlilegum hætti og að hann eigi sérlega hraust börn einmitt út af þessari nálgun hans í uppeldinu.

Löng þróunarsaga hefur búið til hraust fólk

„Ég hef séð að börnin mín kljást við sjúkdóma með mjög skilvirkum hætti. Ef horft er til þróunarsögu mannsins má sjá að fólk verður hraustara með því að veikjast. Þetta náttúrulega val þýddi að hinir sterkustu lifðu af. Hins vegar ef þú stólar á lyf og bólusetningar fyrir betri heilsu, þá ertu að búa til veikari tegund af fólki. Því er líklegt að eitthvað eins og spænska veikin muni leggja milljónir manna að velli þannig að ég get sætt mig við þetta val náttúrunnar þó að það virki býsna harkalegt,“ segir Lanigan.

Þegar kemur að því að meðhöndla verki treysta hjónin á náttúrulegar lausnir og taka aldrei verkjastillandi né eiga slíkt heima. „Klaki er öflugasti bólgueyðirinn fyrir mín börn og besti verkjastillirinn. Þú sérð þau ekki gleypa neinar pillur. Hins vegar græðir enginn peninga á því að hvetja fólk til að nota frosið vatn. Þess vegna er fólk hvatt til að taka lyf.“ Hann leggur til að fleiri foreldrar ættu að velta fyrir sér aðferðum hans til að eiga hraustari börn.

Einhvern tíma var hann spurður hvort börnin hans væru með ofnæmi fyrir sýklalyfjum og hann sagðist ekki vita það, því þau hefðu aldrei tekið slík lyf. „Hjúkrunarkonurnar litu á mig eins og ég væri eitthvað skrýtinn. Þær trúðu ekki að börnin hefðu aldrei tekið sýklalyf á þessum aldri. Fólk ræður auðvitað hvað það gerir en læknar gefa út lyfseðla fyrir sýklalyf hægri vinstri og trufla þannig þróun á ónæmiskerfi mannsins sem hefur verið í gangi í milljónir ára, í því skyni að gera fólk hraustara. Lyfjaiðnaðurinn hefur einfaldlega tekið yfir  heilbrigðiskerfið. Niðurstaðan er sú að sýklalyf hafa verið notuð til að lækna fjölmarga sjúkdóma og nú erum við komin með bakteríu sem er ónæm fyrir sýklalyfjum. Einu tilfellin sem ég myndi fara með börnin mín á bráðamóttöku er ef þau lentu í bílslysi. Bráðamóttakan er ágæt fyrir slík tilvik,“ segir Lanigan.

Lanigan tísti um fréttina sem hefur vakið mikla athygli í Bretlandi. Hann bendir á að dóttir hans hafi áhyggjur af öllum símtölunum sem hann hefur fengið í kjölfarið.  


 Heimild: Daily Mail

mbl.is