Hollenskir unglingar hamingjusamastir allra

Þessi stúlka virkar sérlega hamingjusöm. Skyldi hún vera hollensk?
Þessi stúlka virkar sérlega hamingjusöm. Skyldi hún vera hollensk? Ljósmynd/Thinkstockphotos

Pressa af prófum og frammistöðu í námi, þrá eftir meira sjálfstæði, erfið samskipti við foreldra og líkamar undirlagðir af hormónum. Allt þetta getur lagst á eitt við að valda kvíða hjá ungmennum ásamt mörgum fleiri þáttum. Að sjálfsögðu berjast unglingar við þessa þætti í ólíkum mæli en staðsetning þeirra á jarðkúlunni getur haft töluvert mikil áhrif.

Hamingjusamastir, hraustastir og best menntaðir

Ef unglingar hefðu kost á að velja sér land til að alast upp í ættu þeir umsvifalaust að velja Holland. Íbúar þar eru líklegastir til þess að njóta jákvæðrar upplifunar af unglingsárunum. Þeir eru, að meðaltali, líklegastir til að verða hamingjusamastir, hraustastir, best menntaðir og efnaðastir of þeim fullvaxta einstaklingum sem alast upp meðal ríkustu þjóða heims.

Fyrr á þessu ári kom fram í skýrslu OECD að ...
Fyrr á þessu ári kom fram í skýrslu OECD að 93% barna á aldrinum 11 til 15 ára í Hollandi staðfestu lífshamingju yfir meðallagi. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fyrr á þessu ári kom fram í skýrslu OECD að 93% barna á aldrinum 11 til 15 ára í Hollandi staðfestu lífshamingju yfir meðallagi. Sambærileg skýrsla frá UNICEF hefur sett Holland efst á lista yfir lönd þar sem er best fyrir börn og unglinga að búa. Til dæmis eru hollenskir unglingar einna síst líklegir til að stunda áhættuhegðun, drekka áfengi og unglingsstúlkur einna ólíklegastar að vera óléttar og verða fyrir ofbeldi. Einnig er tíðni offitu meðal barna og unglinga einna lægst í heiminum og notkun geðlyfja (meðal Hollendinga almennt) er einna lægst í heiminum meðal OECD-þjóða.

Óvenju fjölskylduvænt samspil vinnu og frítíma

Hugsanleg skýring á hamingju Hollendinga almennt, og sér í lagi hamingju hollenskra unglinga, er sú staðreynd að samspil vinnu og frítíma er óvenjuhagkvæmt, frítímanum í vil, þar í landi en aðeins 0,5% vinnandi fólks í Hollandi vinnur mjög langan vinnudag, sem er lægsta tíðnin innan OECD, þar sem meðaltalið er 13% og að meðaltali vinna Hollendingar einungis 30,3 stundir á viku sem er vel fyrir neðan evrópskt meðaltal sem er 40,3 stundir á viku. Þannig hafa þeir meiri tíma til að borða saman, sofa og sinna áhugamálum. Hollendingar eyða meiri tíma saman með fjölskyldu sinni sem kemur fram í sterkum tengslum unglinga við foreldra sína.

Heimild: World Economic Forum

mbl.is
Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu

Ragnhildur Birna Hauksdóttir

Ragnhildur Birna Hauksdóttir sérfræðingur í fjölskyldumeðferð svarar spurningum lesenda um sálfræðileg og félagsleg efni sem tengjast ýmsum vandamálum innan fjölskyldu