Ýmsar ástæður aðskilnaðarkvíða meðal barna

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Aðskilnaðarkvíði meðal barna getur verið mismikill; allt frá smávægilegum kvíða við að kveðja mömmu eða pabba á leikskólanum,* ástand sem margir foreldrar kannast við, yfir í sjúklegan kvíða sem kallar á meðhöndlun hjá sálfræðingum. Slíkt ástand getur haft mikil áhrif á fjölskyldulíf sem og vinnu foreldra, til dæmis ef barn neitar að sækja skóla og annað foreldri kýs að vera heima og því oft líkur á deilum um málefnið. Einnig er talað um „forðunarhegðun“ og segja má að stig slíkrar hegðunar séu þrjú: barn sýnir væga hegðun, miðlungs alvarlega forðunarhegðun og alvarlega forðunarhegðun.

Á vefnum Afbrigðasálfræði eru dæmin um þessi stig talin vera:

  • Væg hegðun: má m.a. sjá að barnið vill að í öllum tilfellum geti það náð til foreldra sinna í síma, auk þess koma fram hik við að fara út, hægagangur við morgunverk og endurteknar vangaveltur um skipulag dagsins.

  • Miðstig forðunarhegðurnar: Dæmi eru um að barnið neiti að fara eitt síns liðs í heimsóknir eða að gista. Hjá yngri börnum kemur þetta fram í hálfgerðum eltingarleik, en þau fylgja foreldrum sínum hvert fótmál. 

  • Alvarleg forðunarhegðun birtist í því að börn neita að sofa í eigin herbergi, vilja ekki fara í skólann og fylgja foreldrum sínum hvert sem þeir fara. Ef börn á þessu stigi aðskilnaðarkvíða eru í burtu frá foreldrum sínum eiga þau jafnvel til að gera sér upp veikindi eða strjúka úr skóla eða gæslu af einhverju tagi. 
Ljósmynd/Thinkstockphotos

„Helstu einkenni aðskilnaðarkvíða eru þau að endurtekið uppnám kemur fram þegar aðskilnaður er í aðsigi, miklar áhyggjur um að missa sína nánustu eða að eitthvað slæmt hendi þá auk þess sem áhyggur varðandi óæskilega atburði skjóta upp kollinum, s.s. að þeim verði rænt. Tregða við að vera einsömul, heima eða annars staðar, sem og hræðsla við að sofa án sinna nánustu, jafnvel aðeins í öðru herbergi, eða að gista annars staðar. Í tengslum við svefn má við bæta martröðum um aðskilnað. Þá gerir vart við sig mótþrói við að fara í skólann eða þvílíkar aðstæður vegna hræðslu um aðskilnað.“

Orsakir aðskilnaðarkvíða geta legið í kvíðaröskun foreldris


Á vefnum persona.is segir um orsakir aðskilnaðarkvíða:

„Or­sök­in fyr­ir aðskilnaðarkvíða er mis­mun­andi og er lík­lega í flest­um til­fell­um fleiri en einn þátt­ur, og mis­mun­andi á milli barna. Í sum­um til­fell­um get­ur verið um upp­eld­isáhrif að ræða, þar sem t.d. for­eldri „of­vernd­ar“ barnið sitt og þjá­ist kannski sjálft af eins kon­ar aðskilnaðarkvíða. Viðkom­andi for­eldri á þá oft erfitt með að sleppa barn­inu frá sér og tal­ar stöðugt um hætt­ur við barnið. Rann­sókn­ir hafa meðal ann­ars sýnt að nokkuð al­gengt er að mæður barna sem þjást af aðskilnaðarkvíða þjá­ist sjálf­ar af kvíða, þar sem al­geng­asti kvíðinn er ofsa­kvíði. Aðrar or­sak­ir aðskilnaðarkvíða má rekja til aðstæðna sem valda streitu, eins og flutn­ing­ur, eða at­b­urðir eins og veik­indi eða dauði ást­vin­ar, eða aðrar breyt­ing­ar sem valda streitu hjá barn­inu. Hins ­veg­ar bregðast systkini oft mjög mis­mun­andi við þess­um aðstæðum sem ger­ir það að verk­um að hægt væri að álykta að börn með ákveðna skap­gerð séu lík­legri til að þróa með sér aðskilnaðarkvíða en önn­ur börn.“

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Hægt er að fyrirbyggja aðskilnaðarkvíða meðal barna

Á afbrigðasálfræðivefnum segir einnig að hægt sé að fyrirbyggja að almennur kvíði færist yfir í aðskilnaðarkvíða með ýmsum ráðum.

„Gott getur verið að undirbúa barnið fyrir það sem koma skal, m.a. með bókum um málefnið, leggja áherslu á jákvæða þætti aðskilnaðarins. „Hvað myndi Lína Langsokkur gera?“ eða þvílíkar spurningar gætu haft hvetjandi áhrif í erfiðum aðstæðum. Að hafa sama hátt á því hvernig barnið er kvatt í hvert skipti, t.d. á leikskólanum, auk þess sem ekki er mælst til að laumast sé í burtu frá barninu heldur það kvatt glaðlega. Að lokum skal nefna að ekki á að gefa eftir þó að barnið gráti auk þess sem lengja skal aðskilnaðartímann hægt og rólega með tímanum.“

(*sem reyndar er ekki flokkað sem eiginlegur aðskilnaðarkvíði þó svo foreldrarnir upplifi ástandið þannig.)

Heimildir: Persóna.is og Afbrigðasálfræði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert