Leikskólabörn fá gjafapakka til að efla læsi yngstu barnanna

Það var Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sem gaf fyrstu pakkana í …
Það var Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sem gaf fyrstu pakkana í morgun í leikskólanum Geislabaugi. Ljósmynd/Aðsend

Allir leikskólar fá brátt gjafapakka með læsishvetjandi námsefni. Það er Menntamálastofnun í samstarfi við Lions-hreyfinguna sem gefur pakkana en fyrsti pakkinn var afhentur í morgun í leikskólanum Geislabaugi. Þessi gjöf er einn liður í Þjóðarsáttmála um læsi og styður við undirstöðuþætti læsis.

Hér er um glæsilega lestrarpakka að ræða fyrir yngstu kynslóðina.
Hér er um glæsilega lestrarpakka að ræða fyrir yngstu kynslóðina. Ljósmynd/Aðsend

Hugmyndin að gjafapakkanum kemur frá sérfræðingum læsisverkefnis Menntamálastofnunar. Að sögn Elsu Pálsdóttur hjá Menntamálastofnun hafði Lions-hreyfingin lýst yfir áhuga á samstarfi í tengslum við læsisverkefnið.

„Þarna kom því gullið tækifæri til samstarfs þannig að Lions myndi dreifa gjafapökkunum til leikskólanna. Leitað var til Lions og þau tóku strax vel í hugmyndina því læsismál væru einnig á þeirra verkefnaskrá. Það er frábært hvernig Lions hefur tök á að fylgja þessu verkefni eftir út í alla leikskóla og gefið sér tíma til að spjalla við börnin.“

Það voru kátir krakkar í leikskólanum Geislabaugi sem tóku á …
Það voru kátir krakkar í leikskólanum Geislabaugi sem tóku á móti menntamálaráðherra, starfsfólki Menntamálastofnunar og fulltrúum Lions í morgun.

Hún segir að það sé mikilvægt að leggja grunn að læsisferlinu á leikskólaaldri og því mikilvægt að hlúa vel að því mikilvæga starfi sem þá fer fram. „Menntamálastofnun gefur út efni fyrir grunnskólana en margt af því efni nýtist einnig börnum á leikskólaaldri. Þar sem grunnskólar fá allt sitt námsefni án endurgjalds frá Menntamálastofnun, í samræmi við lagaákvæði, var nauðsynlegt að styðja leikskólana að auki,“ segir Elsa.

Lionskonur hafa staðið í ströngu að pakka læsisefninu til leikskóla …
Lionskonur hafa staðið í ströngu að pakka læsisefninu til leikskóla sem Menntamálastofnun og Lions standa að. Ljósmynd/Aðsend

Með þessa hugmyndafræði í farteskinu var settur saman áhugaverður og spennandi námsefnispakki sem verður færður leikskólum en í honum eru spjöld með bókstöfum sem hægt er að nota á fjölbreyttan hátt. Einnig veggspjöld með bókstöfum og tölustöfum sem hægt er að hafa sýnileg í umhverfinu, bók með tónlistarleikjum, spjald með hreyfileikjum og léttlestrarbækur fyrir byrjendur í læsi. Þar má einnig finna yfirlit yfir efni af vefsíðu Menntamálastofnunar sem hentar leikskólabörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert