Kenndu ungbarninu að svæfa sig sjálft

María Gomez á fjögur börn en hún hefur kennt þremur …
María Gomez á fjögur börn en hún hefur kennt þremur yngri börnunum sínum að sofna sjálf eftir að hafa eytt mörgum kvöldum í að svæfa elstu dótturina fyrstu fjögur æviár hennar. Ljósmynd/Aðsend

Lífstílsbloggarinn María Gomez á fjögur börn. Í færslu sem hún skrifað á bloggið sitt Paz.is segir hún frá því hvernig hún ætlaði sér að vera besta mamma í heimi með frumburðinn, elstu dóttur sína sem nú er orðin 18 ára, og hvernig þær sælustundir breyttust í kvöð og leiðindi þegar hún var föst yfir barninu heilu og hálfu kvöldin.

„Þegar ég eignaðist Gabríelu fyrir nærri 18 árum síðan vildi ég verða eins og allir „fyrsta-skipti-foreldrar“ besta mamma í heimi. Ég vildi ekki að barninu mínu myndi nokkurn tímann líða illa, vera óöruggt eða hrætt. Þess vegna hélt ég, þegar ég vissi ekki betur, að ég væri að gera svo rétt með því að liggja hjá henni á hverju kvöldi og svæfa hana. Eftir því sem hún stækkaði varð það erfiðara og tók alltaf lengri og lengri tíma fyrir mig að koma henni niður og liggja hjá henni. Þetta gerði ég þar til hún var fjögurra ára en þá fékk ég alveg nóg. Þetta var hætt að vera gæðastund og orðið kvöð og pína að þurfa stundum að liggja hjá barninu oft upp í allt að tvær klukkustundir á kvöldin, meðan háskólaheimanámið beið eftir mér.“

Ákveðin að breyta svefnvenjum með barn númer tvö

Hún segir að Gabríela hafi alltaf viljað láta svæfa sig en að hún hafi sofið einstaklega vel á nóttunni. Þegar hún hafi eignast sitt annað barn, Reyni Leo, var hún ákveðin í því að fara aðra leið með hann. Bæði með því að hafa hann styttra á brjósti og kenna honum að sofna sjálfur. „Reynir Leo var á brjósti í sjö mánuði, lærði að borða fasta fæðu í formi mauks fimm mánaða og svæfði sig sjálfur frá sex mánaða aldri. Þvílík paradís að geta lagt barnið sitt upp í rúm eftir að hafa baðað og lesið fyrir það og það sofnar svo alveg sjálft rólegt og sælt,“ segir María færslu sinni.

Elsta dóttir Maríu Gomez heitir Gabríela. Hún komst upp á …
Elsta dóttir Maríu Gomez heitir Gabríela. Hún komst upp á lagið með að láta svæfa sig sig en svaf þó alltaf mjög vel á nóttinni. Ljósmynd/Aðsend

Hún segist hafa fengið hjálp hjá svefnráðgjafa á Landspítalanum sem er gjaldfrjáls þjónusta. Ekki vegna vandamála af neinu tagi, heldur til að læra að gera þetta rétt og án þess að barnið upplifði að því væri hafnað.

Mælir með svefnráðgjöf Landspítalans

Hún eignaðist síðar þriðja og fjórða barnið, Mikael og Viktoríu Ölbu, með stuttu millibili. Þá var hún orðin sannfærð um ágæti þeirrar aðferðar sem hún hafði notað fyrir Reyni Leó, að hann svæfði sig sjálfur. Hún leitaði aftur til svefnráðgjafans á Landspítalanum, Ingibjargar Leifsdóttur, til að bæta við þekkingu sína enda töluverður munur á að vera með eitt lítið barn  eða þrjú.

Samkvæmt ráðum Ingibjargar er mikilvægt að barnið sé byrjað að fá fasta fæðu eins og graut, eða ábót á pela við fjögurra til sex mánaða aldur og að það sé að lágmarki orðið fimm kíló þegar byrjað er á ferlinu. Einnig að ekkert líkamlegt sé að að barninu, eins og eyrnabólga, bakflæði, flensa eða annað.

„Barn þarf að vera búið að vaka í þrjár til fimm klukkustundir frá síðasta lúr fram að kvöldháttartíma en það fer þó  eftir því hvort barnið er fjögurra mánaða eða sex mánaða. Eftir því sem barnið stækkar þolir það nær fimm tímum í heila vöku, en svo er það misjafnt eftir börnum. Til dæmis ef barn vaknar af daglúr kl. 15 þá passar fínt að það fari að sofa klukkan 19:30-20 ef það er orðið sex mánaða.“

María segir að það sé mikilvægt að nota alltaf sömu rútínu á hverju kvöldi. Þá lærir barnið að þekkja að nú fer að koma að háttatíma. Dæmi, fyrst kvöldmatur, þá bað, tannbursti og bók. Alltaf í sömu röð og þá veit barnið hvað eigi að gerast næst, nefnilega fara að sofa.

Reynir Leo, næstelsta barn Maríu, var aldrei svæfður eftir sex …
Reynir Leo, næstelsta barn Maríu, var aldrei svæfður eftir sex mánaða aldur. Hann vaknaði mjög oft kl. fjögur á nóttunni en það hætti eftir að hafa beitt ráðum svefnráðgjafans Ljósmynd/Aðsend

Fleiri þættir sem gott er að hafa í huga: 

  • Hafið slökkt á sjónvarpi, dragið fyrir og látið umhverfið vinna með ykkur í skilaboðunum um að nú eigi allt að falla í ró.

  • Ekki sýna barninu of miklar tilfinningar þegar barnið er komið upp í, knúsa það eða kjá í það. Barnið þarf að læra að nú er allri þjónustu lokið. Bara bjóða því góða nótt rólega og vélrænt. Það er nægur tími fyrir knús og kossa daginn eftir.

  • Líklegt er að barnið muni mótmæla harðlega fyrst um sinn. Þá er mikilvægt ef barn er fjögurra mánaða eða yngra að láta tvær mínútur líða áður en það er farið til þess og láta svo líða örlítið lengri tíma eftir því sem barnið eldist. Munið að gefa barni snuð (ef það notar slíkt), breiða yfir það og segja rólega góða nótt og fara aftur út. Þessi tímamörk eru mikilvæg og það atriði sem flestir flaska á enda erfitt að hlusta á litla barnið sitt gráta.

  • Ef þetta er hefur verið reynt í viku eða lengur þarf að kanna hvort eitthvað er að líkamlega sem veldur barninu vanlíðan þegar það fer að sofa. Ef ekkert virðist að barninu og ofangreind ráð virka ekki er bent á svefnráðgjafa Landspítalans. 

Færslu Maríu um aðferðir við að kenna börnum að sofna má lesa hér.

mbl.is