Misheppnað – en samt indælt – sumarfrí

Ljósmynd/Aðsend

Nú þegar sumarfríum landsmanna er að mestu lokið og hversdagurinn tekinn við er gaman að heyra um fjölskyldufrí sem fóru ef til vill öðruvísi en skipulagt var í fyrstu. Tinna Freysdóttir er bloggari á lífstílsblogginu Fagurkerar.is  og fór í frábæra ferð um landið með fjölskyldu sinni, Arnóri Schmidt og börnunum Elínu Köru og Óla Frey en sú ferð var ekki alveg án vandræðagangs og veikinda.

Kósí í fellihýsinu.
Kósí í fellihýsinu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta sumarfrí var nú meiri rússíbaninn – fór ekki alveg eins og ég hafði planað! Við fjölskyldan fórum sem sagt í sumarfrí frá 11. júlí til og með 14. ágúst. Ég var búin að búa til sjúklega skemmtilegan og raunhæfan sumarfríslista yfir skemmtilega hluti sem við ætluðum að gera með krökkunum, en því miður náðum við ekki að gera allt á listanum í þetta sinn – það er alltaf næsta ár!“

Klassísk fjölskyldumynd við Jökulsárlón.
Klassísk fjölskyldumynd við Jökulsárlón. Ljósmynd/Aðsend

Kisudrama

Hún segir að þetta hafi allt byrjað með því að kisan hennar, Ríta, hafi farið í geldingu sama dag og fríið byrjaði. „Aðgerðin gekk vel, en það gekk alls ekki vel eftir að við komum heim! Hún HATAÐI að vera með skerm yfir hálsinum og ég svaf ekkert fyrstu nóttina því ég var með svo miklar áhyggjur af að hún myndi ná að festa sig einhvers staðar og hreinlega drepa sig með þennan kraga. Þannig að fyrstu tveir til þrír dagarnir fóru í það að ég var með mjög miklar áhyggjur af henni og svaf mjög illa og endaði á því að kaupa uppblásinn skerm (mæli með!) sem henni leið mun betur með. En hins vegar var hún ælandi á fullu og þessir dagar fóru í nokkrar dýraspítalaferðir og endalausar áhyggjur.

Sveitasæla hjá Óla Frey.
Sveitasæla hjá Óla Frey. Ljósmynd/Aðsend


En sem betur fer var þetta bara ofnæmi hjá henni fyrir verkjalyfjunum, en ekkert alvarlegt. Svo loksins þegar ég hélt að þetta kisu-drama væri að klárast, kom í ljós að kötturinn var kominn með sýkingu í skurðinn, frábært! Þannig að við tók önnur spítalaheimsókn og sýklalyfjakúr Rítu til mikillar skemmtunar, eða þannig).“

Verslunarferð með sofandi barn og ömmu á Akureyri.
Verslunarferð með sofandi barn og ömmu á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

En um leið og kisan hennar Tinnu var orðin hress varð Tinna sjálf lasin og lá í rúminu í þrjá daga. Þegar hún hafði hafði jafnað sig tók eiginmaðurinn við og lá líka í þrjá daga. Ekki beint draumabyrjun á fríinu. En þegar hann svo loksins jafnaði sig áttu þau tvo góða daga áður en haldið var í 11 daga ferðalag.

Veikindi á veikindi ofan

Ferðalag fjölskyldunnar var skemmtilegt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þar sem sjá má að þau ferðuðust um allt land.

Ljósmynd/Aðsend

Það var svo á dagskrá að fara heim, setja börnin á leikskóla og geta notið tveggja daga í fríi heima áður en fríinu lyki – en Tinna lagðist þá aftur veik og þessir síðustu dagar frísins fóru fyrir lítið.

„Hversu óheppin er ég búin að vera eiginlega? En mér finnst þetta bara ógeðslega fyndið núna, en fannst þetta ekkert svaka fyndið meðan á þessu stóð,“ segir Tinna. 

Hér má lesa alla færslu Tinnu á Fagurkerablogginu.

Viltu segja okkur á Fjölskyldunni á mbl.is frá sumarfríinu þínu? Sendu okkur línu á fjolskyldan@mbl.is!

mbl.is