Kynlíf eftir fæðingu

Miklar breytingar eiga sér stað í líkama konunnar við meðgöngu ...
Miklar breytingar eiga sér stað í líkama konunnar við meðgöngu og eftir fæðingu barns. Ljósmynd/Thinkstock

Á heilsuvefnum doktor.is segir að miklar breytingar eigi sér stað í líkama konunnar við meðgöngu og eftir fæðingu barns. 

„Sum þeirra hormóna, sem hafa haft mikið að segja á meðgöngunni fara í sitt eðlilega horf, en framleiðsla annarra hormóna eykst vegna mjólkurframleiðslunnar. Legið dregst saman og blóð og slím hreinsast út. Ef spöngin hefur rifnað eða verið klippt (spangarskurður) grær hún yfirleitt fljótlega en getur verið aum dálítinn tíma eftir fæðinguna. Álagið og viðbrigðin geta valdið geðsveiflum hjá konum og jafnvel þunglyndi. Allt í einu fer mikill tími í að annast barnið, og ef einnig eru eldri systkini getur vinnuálagið orðið býsna mikið. Allar þessar breytingar geta haft í för með sér að sumar konur verða afskaplega þreyttar eftir fæðinguna. Á sama tíma er oft ekki mjög svefnsamt hjá foreldrunum og allt þetta hefur áhrif á samband þeirra.“

Gefið ykkur tíma

Á vefnum segir enn fremur að til að góður andi eigi að ríkja á  heimilinu sé mikilvægt að byggja samband ykkar á trausti og gagnkvæmri virðingu. „Það er mikilvægt fyrir sambandið að þið gefið ykkur tíma fyrir ykkur sjálf. Til dæmis er góð hugmynd að fara reglulega út saman án barnanna. Þá gefst ykkur tækifæri til að tala saman óáreitt sem fullorðið fólk. Opin og hreinskilin samskipti auðvelda ykkur að takast á við þau verkefni sem fylgja foreldrahlutverkinu.“

Hvenær má byrja kynlíf á ný?

„Það er mjög mismunandi hvenær pör fara að hafa samfarir eftir fæðingu. Máli skiptir hvort spöngin hefur rifnað eða verið klippt eða önnur sár eða rifur myndast. Það skiptir einnig máli hve vel sárin gróa. Á meðan á hreinsuninni stendur (fyrstu 3 – 6 vikurnar eftir fæðingu) er hætta á að bakteríur berist upp í legið og valdi þar sýkingu. Ef þið ákveðið að hafa samfarir á þessu tímabili er því best að nota smokk til öryggis. Eftir u.þ.b. 6-8 vikur hefur legið oftast dregist vel saman og er orðið nærri jafnlítið og það var áður en meðgangan hófst. Legið er þó alltaf ívið stærra eftir fæðingu en áður en fyrsta þungun varð.“

Greinin í heild sinni á doktor.is

mbl.is