Kjartan, Árný og Jóhann taka sín fyrstu skref í umferðinni

Árný Friðrikka var að byrja í fyrsta bekk í Áslandsskóla. ...
Árný Friðrikka var að byrja í fyrsta bekk í Áslandsskóla. Hún er afar áhugasöm um umferðarreglurnar og vill gjarnan ganga sjálf þegar líður á skólagönguna. Ljósmynd/Aðsend

Í ár hefja um 4.600 börn skólagöngu og verða þar með þátttakendur í umferðinni. Það er mikilvægt að foreldrar og forsjáraðilar aðstoði börnin við að finna öruggustu leiðina í skólann og æfa sig á henni. Þó að barnið geti gengið eitt í skólann er nauðsynlegt að það fái fylgd fyrstu dagana. Einfaldar reglur og hollráð til hinna ungu vegfarenda eru mikilvægt veganesti til framtíðar auk þess sem gönguferðin sjálf getur verið gefandi gæðastund.

Í hagtölum Hagstofu Íslands kemur fram að umferðarslysum á börnum hefur fækkað um 35% frá árinu 2000. Eitt af meginmarkmiðunum okkar allra í samfélaginu er að fækka slysum og gera alla vegfarendur öruggari. Börn læra af því sem þau sjá og heyra og öryggi þeirra er á okkar ábyrgð.

Gott er að byggja á þekkingu barnanna sjálfra úr leikskólanáminu. Mörg hafa fengið fræðslu frá umferðarskóla Samgöngustofu sem er haldinn á hverju vori fyrir elsta hóp leikskólabarna og margir hafa líka lesið umferðarfræðslubækurnar um krakkana í Kátugötu.

Þegar skólarnir byrja á haustin flykkjast börnin út í umferðina. ...
Þegar skólarnir byrja á haustin flykkjast börnin út í umferðina. Sumum er ekið, önnur hjóla eða ganga. Allir þurfa að passa sig vel; bæði börn og fullorðnir. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Hafa verður í huga að þegar börnum er ekið í skólann eykst umferð í kringum skólasvæðið. Nauðsynlegt er að gæta vel að því að barni sé hleypt út á þar til gerðum sleppistæðum ef þau eru til staðar en alla vega alltaf við gangstétt, aldrei út á akbraut.

Á vefnum www.umferd.is má finna tíu góð ráð til foreldra í tilefni af skólabyrjun:

1. Æfum leiðina í og úr skóla með barninu.

2. Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu.

3. Leggjum tímanlega af stað, ekki flýta sér.

4. Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið á að fara efti.r

5. Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar.

6. Verum sýnileg, notum endurskinsmerki.

7. Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir.

8. Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir.

9. Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla.

10. Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu.

Kjartan Pétur er mikill áhugamaður um umferð

Anna Lísa Pétursdóttir og Hannes Pétur Jónsson eiga soninn Kjartan Pétur sem er nýbyrjaður í fyrsta bekk í Háteigsskóla. Anna Lísa fylgir honum gangandi í skólann og eldri systir Kjartans Péturs, Eydís Anna, sem er í fjórða bekk er samferða. Anna Lísa segir að Eydís Anna hafi byrjað að ganga í skólann strax í fyrsta bekk enda ekki langt að fara og ekki mikil umferð á leiðinni þannig að hún á von á að þau fari samferða systkinin í skólann í náinni framtíð.

Anna Lísa segir að Kjartan litli hafi verið svolítið kvíðinn að byrja í skólanum sl. vikur en spennan náði yfirhöndinni dagana fyrir fyrsta skóladaginn. Allt hafi þó gengið mjög vel og hjálpað mikið að leikskólakennari hafi verið með börnunum í fyrsta bekk fyrstu dagana. Hún segir að hún og pabbi Kjartans hafi ekki farið neitt sérstaklega yfir umferðarreglurnar fyrir skólabyrjunina enda sé Kjartan mjög áhugasamur um umferð og mikill reglumaður að upplagi. Hann hefur því lesið umferðarbækurnar af kappi og rætt innihald þeirra oft og í smáatriðum við foreldra sína sem töldu enga sérstaka nauðsyn á að fara yfir þessi mál þar sem þau ber svo oft á góma.

Hann hefur verið spenntur að byrja í skóla, eins og títt er með börn á hans aldri, og stór hluti af tilhlökkuninni snýr að því að vera stór strákur og ganga sjálfur með stóru systur í skólann.

Anna Lísa segist ekki óttast það neitt sérstaklega að hann sé orðinn þátttakandi í umferðinni með því að fara gangandi í skólann. Hún sé frekar smeyk við frelsið sem börnin njóta eftir skóla og kemur gjarna í kjölfar þess að börnin skipta um skólastig. Þau leika sér hjá vinum eftir skóla og eiga að koma sér sjálf heim af frístundaheimili. Þau eiga til að gleyma sér í leik og fara þá stundum aðra leið heim en þau eru vön. Hún nefnir líka að eldri dóttirin stundi handbolta í Valsheimilinu og þurfi að fara yfir þungar umferðargötur og að henni finnist það ekkert sérlega þægileg tilhugsun alltaf þó að svo hún treysti henni vel.

Kjartan Pétur gengur með mömmu sinni og eldri systur í ...
Kjartan Pétur gengur með mömmu sinni og eldri systur í skólann fyrstu dagana en systkinin munu ganga sjálf þegar líður á haustið. Ljósmynd/Aðsend

Árný er sjálfstæð stúlka sem fær líklega að ganga í skólann í vor

Ólöf Friðriksdóttir á Árnýju Friðrikku Bergsteinsdóttur sem var að byrja í fyrsta bekk í Áslandsskóla í Hafnarfirði. Hún á yngri systur í leikskóla og fær því að fljóta með í skólann. „Við Bergsteinn Gunnarsson, faðir Árnýjar, höfum gengið með henni en það er ein umferðargata á leiðinni hjá henni í skólann sem við erum svolítið smeyk við,“ segir Ólöf.

Hún segir Árnýju vera mjög meðvitaða um umferðarreglurnar og að hún hafi lesið samviskusamlega bækurnar um krakkana í Kátugötu sem Samgöngustofa gefur út og eru sendar til ungra barna. Við höfum líka verið dugleg að útskýra umferðarreglurnar, svo sem að það er ekki í lagi að skjótast yfir götu til að stytta sér leið þegar það er í boði að fara yfir á gangbraut og fleira.

„Hana langar sjálfa að ganga í skólann og einhvern tíma mun hún gera það þó að við áttum okkur ekki alveg á á því hvenær það verður, líklegast með vorinu. Sjálf er ég hræddust við hraðaksturinn og svo verð ég líka svolítið óróleg þegar ég veiti því athygli að foreldrar nýta ekki sleppistæðin við skólann og setja börnin út við gangbrautir og hraðahindranir. Því þó að börnin þeirra séu örugg þá er ekki víst að ökumaðurinn sjái alltaf yngstu vegfarendurna þegar ekið er af stað,“ segir Ólöf.

„En Árný er brött og mjög sjálfstæð ung stúlka og við eigum að geta treyst henni vel að taka fyrstu skrefin sem þátttakandi í umferðinni. Við höfum smám saman tekið þessi skref að stækka radíusinn í kringum heimilið og munum gera það áfram.“

Jóhann Helgi er prófessor sem á það til að villast

Laufey Bjarnadóttir og Baldur Hauksson eiga Jóhann Helga sem var að byrja í fyrsta bekk í Brúarlandsskóla. Foreldrum hans finnst of langt fyrir hann að ganga í skólann og því er honum ekið þangað en hann byrjar síðar í vetur í Helgafellsskóla sem er enn í byggingu en hann er reyndar svipað langt frá heimili Jóhanns og Brúarland.

Laufeyju Bjarnadóttur finnst koma til greina að hann gangi eða hjóli síðar í skólann en að vegalengdin sé enn of löng fyrir hann. Hann er heldur ekki byrjaður að fara að heiman einn síns liðs í hverfinu, svo sem í heimsókn til leikfélagana.

„Við höfum auðvitað talað við hann um umferðarreglurnar, að muna að leiða hjólið yfir götu, að hann verði alltaf að passa sig á bílunum og fleira. Sennilega meira núna að undanförnu því það er svo margt sem breytist þegar börn hætta í leikskóla og byrja í grunnskóla,“ segir Laufey.

Jóhann Helgi var að byrja í fyrsta bekk í Brúarlandsskóla. ...
Jóhann Helgi var að byrja í fyrsta bekk í Brúarlandsskóla. Honum er ekið í skólann enda er hann enn of ungur til að ganga eða hjóla vegalengdina sjálfur. Ljósmynd/Aðsend

Hún segist alveg vilja skoða það að leyfa honum að fara einum um hverfið, til dæmis þegar hann er búinn að eignast nýja vini í skólanum. „Við keyptum handa honum símaúr þannig að við getum fylgst með því hvar hann er og getum hringt í hann gegnum það. Það veitir ákveðið öryggi. Það sem veldur okkur kannski helst áhyggjum með Jóhann er að hann gæti villst. Hann er svolítill prófessor og ekki alltaf með hugann við það sem hann er að gera. Hann hefur stundum nærri rekist á ljósastaur þegar hann hefur verið úti að hjóla og með hugann við annað. Það spilar auðvitað inn í þá ákvörðun að keyra hann í skólann, allavega þennan vetur og við sjáum svo bara til í 2. bekk.

mbl.is