„Mikið rosalega ertu stór“

Ljósmynd/Aðsend

Aníta Rún Guðnýjardóttir skrifaði pistil á lífsstílsbloggið Lady.is þar sem hún segir frá athugasemdum sem hún fékk á meðgöngu en hún var með frekar stóra kúlu. Það er merkilegt hvernig konur fá oft athugasemdir gegnum lífið að það sé gott að  taka lítið pláss, vera nettar og þó svo að konur ættu virkilega að fá að njóta þess að vera stórar á meðgöngu þá er konum með litla kúlu oft hrósað fyrir að vera nettar. Sem reyndar getur verið þeim áhyggjuefni líka og leitt  til hugsana um að barnið sé of lítið eða ekki fari nógu vel um það. Þær sem eru með stærri kúlu fá að heyra það eins og Aníta Rún.

Hún var með frekar stóra kúlu þegar hún gekk með sitt annað barn. Fyrri meðgangan var svipuð, kúlan ef til vill minni en hún bætti minna á sig á seinni meðgöngunni.  Hún segist bara muna eftir tveimur skiptum þar sem eitthvað fallegt og jákvætt var sagt um „bumbuna“ hennar eins og hún orðaði það en að leiðindarathugasemdirnar hafi verið fleiri. Þó að þær hafi kannski verið vel meintar hafi þær þó farið í taugarnar á henni.

Ljósmynd/Aðsend

„Þú ert jafnstór núna og þegar ég var við það að fara eiga"

„Þegar þú segir „Mikið rosalega ertu stór" þá hljómar það í mínum eyrum „jiii, annaðhvort ertu að borða svona mikið eða þú ert alveg að fara eiga þetta barn,“ segir Aníta Rún. Önnur athugasemd sem hún fékk að heyra var á þessa leið: „Þú ert jafnstór og þegar ég var við það að fara eiga."

Svo var fólk líka að skipta sér af því þegar hún minnkaði við sig vinnu. „Þú ert svo ung, þú átt að vera svo hraust.“ En hún minnkaði við sig þegar hún var gengin um það bil 27 vikur en vann 12–13 tíma vaktir fram að því.

Fleiri athugasemdir:

- „Það fer nú bara alveg að koma að þér!“

„Já, nei ég á 3 mánuði eftir.“

Vinsælustu athugasemdirnar voru á þessa leið:

„Ertu alveg viss um að þú sért ekki með tvíbura?“

 „Ég er alveg viss um að þetta eru tvíburar. Það eru pottþétt tvö þarna inni, það hefur bara ekki sést í sónarnum."

Aníta Rún vann á veitingastað meðan á meðgöngunni stóð og tekur það fram að þessar athugasemdir komi oftast frá fólki sem hún þekki lítið eða ekkert, til dæmis gestum  veitingastaðarins. 

Hún vill minna fólk á að passa sig þegar það talar við ófrískar konur og ætlar að setja út á útlit þeirra eða getu á meðgöngu. „Ég veit vel að þetta virkar líka í hina áttina, þá meina ég að þær konur sem fá litla kúlu og fá leiðinlegar athugasemdir varðandi það.

Ég lít kannski út eins og ég sé með mjög þykkan vegg á mér og að ég taki ekki inn á mig það sem er sagt við mig, en þá daga sem er sagt svona við mig þá hætti ég ekki að hugsa um það allan daginn. Og getur þetta vel eyðilagt daginn fyrir mér. Sýnum nærgætni. Og mundu að orð þín hafa áhrif, því bið ég þig að segja eitthvað jákvætt eða uppbyggilegt næst þegar þig langar að segja að óléttukúlan hjá þjónustustúlkunni þinni er stór.“

Segðu til dæmis: Mikið rosalega blómstrar þú! Rosalega ert þú dugleg! Eða: Þú lítur mjög vel út!

Færsla Anítu Rún á Lady.is

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is