„Pabbi, þú ert ekki með túrett”

Stefán Karl Stefánsson, leikari.
Stefán Karl Stefánsson, leikari. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Leikarinn og þúsundþjalasmiðurinn Stefán Karl Stefánsson féll frá hinn 21. ágúst síðastliðinn. Óhætt er að segja að öll íslenska þjóðin hafi syrgt Stefán Karl og vinir og kunningjar minntust einstaks manns með fjölmörgum sögum úr lífi hans sem báru karakter hans fagurt vitni. 

Einn þeirra sem deildi sögu af Stefáni Karli var Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur en hann var í kaffifélagi með Stefáni Karli ásamt fleira góðu fólki. Hann segir Stefán Karl hafa verið áhugasaman um alla hluti, hjálpsaman og traustan.

Eiríkur deildi afskaplega heillandi sögu á Facebook-síðu sinni af Stefáni Karli og syni sínum sem á erindi til allra fjölskyldna. Við búum nefnilega í samfélagi þar sem maður hefur á tilfinningunni að annað hvert barn sé með greiningu af einhverju tagi og að stundum sé of mikil áhersla sé lögð á galla í fari barna í stað þess að horfa til styrkleika þeirra. Eiríkur sagði Stefáni Karli frá því að sonur hans Einar hefði greinst með kvilla sem heitir túrett sem Eiríkur vissi að Stefán Karl hafði einnig. Við gefum Eiríki orðið:

 „Á fögru sumarkvöldi rakst ég á Stebba á förnum vegi, hann bjó þá vestanhafs en var hér í stuttu gististoppi. Við höfðum vingast vel í Iðnó undir lok liðinnar aldar en lítið sést eftir að hann fór utan. Hann spurði frétta og ég sagði honum frá kvilla sem farinn var að hrjá son minn ungan, túrett, sem ég vissi að Stebbi hafði líka.

„Eruð þið heima á morgun?“ spurði hann, „kannski bara í hádeginu.“

Strákurinn var vitaskuld upp með sér, að fá hinn goðumlíka leikara – sjálfan Glanna glæp – í heimsókn. Við settumst þrír við eldhúsborðið.

„Hefurðu verið með þennan?“ spurði hann og lék sérdeilis flottan túrett-kæk.

„Nei,“ svaraði Einar minn, „en ég er með einn svona núna,“ sagði hann mæðulega og sýndi Stebba kækinn.

Á næstu þremur klukkutímum fór Stebbi yfir það með honum hvernig hægt væri að láta túrett-heilkennið vinna með sér, fremur en gegn sér, hvernig til að mynda væri hægt að nota kækina til að búa til persónur í leikritum. Og margt þess háttar. Kenndi honum trix til að takast á við ýmsar aðstæður. Þegar Stefán hafði kvatt og haldið á ný á vit sinna mögnuðu ævintýra í Vesturheimi, snéri sonur minn sér að mér og sagði með ánægjustolti í röddu:

„Pabbi, þú ert ekki með túrett!“

Á þessum þremur tímum hafði Stebbi snúið kvillanum upp í sérstakan kost sem einkenndi þá tvo umfram aðra, bjó til í huga drengsins einhvers konar forréttindaklúbb sem þeir tveir tilheyrðu. Síðan hefur heilkennið ekki háð syni mínum andlega og líkamlegu einkennin snarminnkuðu, nánast hurfu. Þetta gerði hann, að mér fannst nánast alveg fyrirhafnarlaust. Svoleiðis var hann bara. Stebbi á því sinn hlut í því að í dag er drengurinn sjálfsöruggur ungur maður.“

Hér má hlusta á flutning Stefáns Karls á laginu Digga Digga Dú um Túrett, ADHD og fleiri heilkenni sem hann setur í skemmtilegt samhengi í plötunni Túrett og Moll  (2009) sem hann vann ásamt Gísla Rúnari Jónssyni og Veigari Margeirssyni: 

mbl.is